40 ára Ólafur er Reykvíkingur, ólst upp í Laugarneshverfinu en býr í Háaleitinu. Hann er með B.Sc.-próf frá Háskóla Íslands og er hugbúnaðarsérfræðingur hjá Advania. Hann er að forrita umsóknarkerfi fyrir island.is

40 ára Ólafur er Reykvíkingur, ólst upp í Laugarneshverfinu en býr í Háaleitinu. Hann er með B.Sc.-próf frá Háskóla Íslands og er hugbúnaðarsérfræðingur hjá Advania. Hann er að forrita umsóknarkerfi fyrir island.is. og því að vinna með lausn sem er mikið notuð í þjóðfélaginu og tengist stafrænni vegferð.

„Ég fékk fljótt áhuga á tölvum og varði svolitlum tíma í að spila tölvuleiki þegar ég var ungur. Ég hef ennþá gaman af því að spila tölvuleiki og borðspil, hitta vini og stundum að drekka góðan bjór. Mér finnst gaman að prófa alls konar bjór og er nýverið farinn að kynna mér súrbjór, sem er mjög áhugavert.“

Ólafur var mikið í Stykkishólmi í sumar ásamt fjölskyldu sinni. „Við vorum í húsinu sem afi minn heitinn, Georg Ólafsson, bjó í,“ en Georg á Íslandsmetið í langlífi karla, varð 107 ára. „Við vorum átta daga í fyrra skiptið og tókum svo langa helgi þar nýlega. Það er dásamlegt að vera í Hólminum.“

Ólafur ætlar að eyða afmælisdeginum í faðmi fjölskyldunnar.

Fjölskylda Eiginkona Ólafs er Eva Hafsteinsdóttir, f. 1981, með BA í bókmenntafræði og MA í menningarfræði og er skrifstofustjóri á Þraut – miðstöð vefjagigtar og tengdra sjúkdóma. Dætur þeirra eru Laufey Björk, f. 2013, og Ásta Sólveig, f. 2014. Foreldrar Ólafs eru hjónin Gylfi Georgsson, f. 1947, húsasmiður og vann hjá Sökkli ehf. og Laufey Guðmundsdóttir, f. 29.8. 1953, fv. ritari í Seðlabanka Íslands og skólaliði í Laugalækjarskóla. Þau eru búsett í Reykjavík.