Boðið verður upp á „spennandi (og smá óhugnanlega) barnaleiðsögn“ í Þjóðminjasafninu á Suðurgötu á morgun, sunnudag kl. 14. Þetta kemur fram í tilkynningu frá safninu og minnt á að boðið verði upp á barnadagskrá fyrsta sunnudag í mánuði í vetur.
„Í Þjóðminjasafni Íslands er margt skrýtið og skemmtilegt að skoða, meðal annars hauskúpur sem valda heilabrotum, vegleg vopn og dularfullar dýraleifar. Einnig gefst tækifæri til að máta nokkra búninga úr fórum safnfræðslunnar sem líkjast fötum landnámsfólksins,“ segir í tilkynningu. Þar kemur fram að aðgangur er ókeypis fyrir börn.