„Ef maður ákveður að standa sig og halda áfram þá getur maður það,“ segir Ragnheiður Jónsdóttir sem er orðin níræð en sinnir enn listsköpun.
„Ef maður ákveður að standa sig og halda áfram þá getur maður það,“ segir Ragnheiður Jónsdóttir sem er orðin níræð en sinnir enn listsköpun. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kosmos Kaos er yfirskrift sýningar Ragnheiðar Jónsdóttur í Listasafni Árnesinga í Hveragerði sem verður opnuð nú um helgina. Á sýningunni eru nýleg verk, frá árunum 2019-2023, gerð með viðarkolum. Einnig eru á sýningunni eldri grafíkverk eftir Ragnheiði

Kosmos Kaos er yfirskrift sýningar Ragnheiðar Jónsdóttur í Listasafni Árnesinga í Hveragerði sem verður opnuð nú um helgina. Á sýningunni eru nýleg verk, frá árunum 2019-2023, gerð með viðarkolum. Einnig eru á sýningunni eldri grafíkverk eftir Ragnheiði.

„Í þessum nýju myndum leitast ég við að sýna óreiðuna sem við búum við í dag,“ segir Ragnheiður. „Ég er að hugsa um þá hörmungartíma sem hafa verið í heiminum í sambandi við umhverfið: eldgosin, jarðskjálftarnir og flóðin.

Ég var sex ára gömul þegar seinni heimsstyrjöldin hófst og tólf ára þegar henni lauk. Ég skynjaði þessa ógn mjög sterkt og það var mikill léttir þegar stríðinu lauk. Ég hugsaði með mér að eftir þennan hrylling og drápin á gyðingunum gæti aldrei aftur orðið önnur heimsstyrjöld. En nú á síðustu árum er allt að fara á hvolf. Þá kemur sama hræðilega tilfinningin upp hjá mér.“

Spurning um vilja

Ragnheiður varð nýlega níræð en vinnur enn að list sinni. „Ég er enn að, af því að ég ákvað að vera á fullu. Hver er sinnar gæfu smiður. Ef maður ákveður að standa sig og halda áfram þá getur maður það. Þetta er spurning um vilja, hvað maður ætlar sér að gera.“

Hún segist hafa mikla unun af að vinna að list sinni. „Listin læknar. Í lífinu hefur það verið þannig að ef ég hef haft miklar áhyggjur af einhverju og kannski ekki getað sofið þá fer ég inn á vinnustofu og byrja að teikna og eftir smástund er ég komin inn í annan heim þar sem ég þarf að einbeita mér. Það er ótrúlegt hvað það leysir úr miklum flækjum í sálarlífinu. Og það er mikil gleði og ánægja ef allt gengur upp hjá manni.“

Ragnheiður var einn af frumherjunum í grafíklist á Íslandi og er í hópi virtustu listamanna þjóðarinnar. Verk hennar hafa verið sýnd víða um heim og eru í eigu safna hérlendis og erlendis. Hún hefur hlotið ýmiss konar viðurkenningar á ferlinum og hlaut fyrr á þessu ári heiðursviðurkenningu frá Myndlistarráði fyrir einstakt framlag til íslenskrar myndlistar. Spurð hvort hún hafi mætt mótlæti á ferlinum segir hún: „Allt varðandi sýningarhald og umsagnir hefur verið stórkostlegt. Þegar ég sýndi fyrstu myndirnar mínar á samsýningu í Danmörku þá kom gagnrýni um sýninguna í dönsku blaði og þar var lítil mynd eftir mig stækkuð upp og gerð að stærstu myndinni sem fylgdi gagnrýninni. Ferilinn byrjaði strax óskaplega vel.

Ég varð seinna vör við baktjaldamakk. Það er alveg sama í hvaða grein það er, ef fólk á í samkeppni og það gengur vel hjá einum en ekki hjá öðrum þá getur brotist út öfund. Maður hristir það bara af sér.“

Stærsta gjöfin

Í verkum sínum hefur Ragnheiður verið í hlutverki þjóðfélagsrýnis og gagnrýnanda. „Ég skil ekki alveg hvernig það gerðist, ætli skýringin liggi ekki í umhverfi og uppeldi, segir hún. „Ég ólst upp í sveitinni í Rangárvallasýslu innan um gamalt fólk. Afi pabba míns var rúmliggjandi síðustu tuttugu árin, blindur en alveg skýr í kollinum og hlustaði alltaf á fréttir. Gömul kona, mágkona hans, las öll blöð fyrir hann og þegar bændur komu að heimsækja hann þá var hann með allt á hreinu. Ég var með honum að hlusta á fréttir og hef þess vegna verið fréttafíkill í gegnum lífið. Hann dó þegar ég var tólf ára, 96 ára gamall.

Það er sérstök reynsla að alast upp með gömlu fólki. Þeir krakkar sem það gera tileinka sér ýmislegt sem gamla fólkið gerir. Lítil börn sem eru á róló og á leikskólum alast upp í öðrum heimi.“

Mörg grafíkverk Ragnheiðar eru femínísk og höfðu áhrif á kvennabaráttuna. „Þetta voru mínar prívat vangaveltur, ég var ekkert inni í opinberri kvennabaráttu. Ég var á mjög yndislegum stað í lífinu þegar femínistar byrjuðu að predika í útvarpinu. Ég var þá nýbúin að fá vinnustofu heima hjá mér og var full tilhlökkunar að byrja að vinna þar.

Ég hlustaði á kvenréttindakonurnar flytja sína pistla sem voru mjög áhugaverðir og ég var hjartanlega sammála þeim um margt. Það eina sem truflaði mig var að mér fannst þær alltaf tala niður til heimavinnandi kvenna, eins og þær væru illa menntaðar, heimskar og forpokaðar.

Svo kom kvennafrídagurinn og ég fæ gæsahúð þegar ég hugsa um hann. Ég var að upplifa byltingu.“

Ragnheiður á fimm syni. Spurð hvort það hafi verið erfitt að ala upp svo stóran barnahóp og sinna um leið listinni segir hún: „Nei, það var ekki erfitt. Barnauppeldi er svo gefandi og gleðjandi en auðvitað er það um leið mikil og krefjandi vinna.

Einu áhyggjurnar sem ég hafði á unglingsárum snerust um að ég myndi ekki eignast börn. Ég bar óskaplega mikla virðingu fyrir konum sem áttu mörg börn og langaði til að verða eins og þær.

Stærsta gjöf lífsins er að eignast börn og það dásamlegasta sem ég hef upplifað er að sjá börnin mín vaxa úr grasi og fylgja þeim í gegnum lífið.“

Ekkert þeirra sá það sama

Meðal þekktustu verka Ragnheiðar eru grafíkmyndir hennar af óléttukjólum. „Kjólamyndirnar fengu verðlaun, sem kom mér á óvart. Ég átti frekar von á að fólk yrði mjög hneykslað. Sums staðar hefur verið hlegið að þeim. Ég frétti af sýningu í Japan þar sem fólk stóð fyrir framan þessar myndir og hló – sem mér finnst dásamlegt. Það er svo skemmtilegt hvað fólk upplifir myndlist á mismunandi hátt.

Fyrir sýningu á Kjarvalsstöðum árið 2000 gerði ég stærstu mynd sem ég hef gert, á vegginn þar sem nú er kaffistofa. Myndin var tveir og hálfur metri á hæð og fjórtán metrar á lengd. Ég var þarna í þrjár vikur að teikna með kolum á vegginn.

Á meðan ég var að vinna að verkinu kom hópur eldri borgara á safnið og fékk sér kaffi og spjallaði við mig. Ég taldi mig vera að gera náttúrustemningu. Karlarnir sáu hins vegar veður í verkinu. Já, það er mikið veður í myndinni hjá þér, hann er greinilega kaldur að norðan núna, sögðu þeir. Konurnar sáu ekkert nema konur. Konur með mikið hár og konur að geifla sig og konur að spegla sig.

Svo komu leikskólabörn, heill hópur, og það var fólkið sem skemmti sér. Þau sáu Hallgrímskirkjuturn og blettatígur sem gekk uppréttur og allt eftir því. Ég fór að segja þeim hvernig ég hefði unnið verkið. Ég myl kolin alveg í duft og set í sokkana mína og teikna með þeim, sagði ég. Þá sagði einn guttinn: Er ekki fýla af sokkunum þínum? Þá veltust þau öll um af hlátri. Þeim fannst þetta svo óskaplega fyndið og ég þótti skrýtin að vera að teikna með sokkunum mínum.

Börnin, konurnar og karlarnir sýndu öll ólík viðbrögð. Ekkert þeirra sá það sama. Þetta er það skemmtilega við myndlistina.

Upphafsárin í grafíkinni voru mjög skemmtilegur tími á mínum ferli. Við vorum hópur sem sýndi í Norræna húsinu og það var troðið út að dyrum. Þar var mikið af pólitískri áróðurslist og fólk var að tjá sig um verkin okkar og hvort því þættu myndirnar góðar eða ekki. Það var stórkostlega skemmtilegt. Það var gaman að vera myndlistarmaður á þeim árum því það komu svo margir á sýningar.“

Fann sinn stað

Eftir langan feril sem grafíklistamaður sneri Ragnheiður baki við grafíkinni og sneri sér kolateikningum.

„Það var mjög spennandi að vinna í grafíkinni og ég var alltaf að gera tilraunir. Grafíkinni fylgdi hins vegar mikið eiturbras sem var stórhættulegt: terpentína, þynnir, sterk lökk og saltpéturssýra. Ég geymdi þetta í lokuðum skáp með viftu. Við vinnu varð ég að muna eftir því að standa ekki yfir bökkunum. Svo var ég alltaf svo þreytt þegar ég var að vinna og það voru áhrif af þessum efnum.

Reyndar byrjaði ég feril minn sem málari og fyrsta sýningin mín árið 1968 var málverkasýning. En ég gerði mér grein fyrir því þegar ég byrjaði í grafíkinni og seinna í kolateikningunni að ég hefði fundið minn stað. Ég er afskaplega þakklát fyrir þann góða og langa feril sem ég hef átt.“

Brýnt erindi

Daría Sól Andrews er sýningarstjóri sýningarinnar Kosmos/Kaos.

„Þetta er ekki bara yfirlitssýning á eldri verkum heldur einnig sýning á verkum sem Ragnheiður hefur unnið síðustu árin. Ný sería hennar, sem samanstendur af stórum kolaverkum, heitir Kosmos/Kaos, og þaðan kemur titill sýningarinnar.

Á sýningunni er einnig úrval af fallegum grafíkverkum sem Ragnheiður er þekkt fyrir, sem og eldri kolateikningar.

Þótt Ragnheiður sé orðin níræð þá eiga skilaboðin sem koma fram í verkum hennar brýnt erindi við almenning í dag. Í verkum sínum tekst hún á við pólitísk málefni, eins og kvenréttindi, náttúruvernd og samfélagslega ábyrgð.

„Það hefur verið mikill heiður að vinna með Ragnheiði að þessari sýningu. Það er magnað hvað hún hefur gefið samfélaginu í þá áratugi sem hún hefur starfað sem myndlistarkona.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir