Gleði Blikarnir Oliver Sigurjónsson og Höskuldur Gunnlaugsson fagna sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.
Gleði Blikarnir Oliver Sigurjónsson og Höskuldur Gunnlaugsson fagna sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Breiðablik dróst í B-riðil Sambandsdeildar karla í knattspyrnu en dregið var í sýningarmiðstöðinni í Mónakó í hádeginu í gær. Breiðablik mætir þar Gent frá Belgíu, Maccabi Tel Aviv frá Ísrael og Zorya Luhansk frá Úkraínu og Blikar eru því á leið til bæði Belgíu og Ísraels í riðlakeppninni

Sambandsdeildin

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Breiðablik dróst í B-riðil Sambandsdeildar karla í knattspyrnu en dregið var í sýningarmiðstöðinni í Mónakó í hádeginu í gær.

Breiðablik mætir þar Gent frá Belgíu, Maccabi Tel Aviv frá Ísrael og Zorya Luhansk frá Úkraínu og Blikar eru því á leið til bæði Belgíu og Ísraels í riðlakeppninni. Óvíst er hvar heimaleikir Zoryu munu fara fram þar sem ekki er hægt að leika í Úkraínu vegna innrásar Rússlands í landið.

Gent var í styrkleikaflokki eitt en liðið hafði betur gegn Cercle Brugge, Standard Liége og Westerlo í umspilsriðli belgísku A-deildarinnar um laust sæti í Sambandsdeildinni. Gent hafnaði í 5. sæti deildarkeppninnar. Liðið er þekkt stærð í evrópskum fótbolta og hefur átt nánast fast sæti í Evrópukeppnum allt frá árinu 2008. Liðið lék í Sambandsdeildinni á síðustu leiktíð, hafnaði í öðru sæti F-riðils á eftir Djurgården, og komst alla leið í 8-liða úrslitin en tapaði þar fyrir West Ham, samanlagt 5:2, en West Ham fór alla leið í keppninni og lagði Roma í úrslitaleik í Prag, 2:1.

Maccabi Tel Aviv var í öðrum styrleikaflokki en liðið hafnaði í 3. sæti deildarkeppninnar í Ísrael. Liðið hafnaði svo í þriðja sæti úrslitariðilsins og lagði Petrocub frá Moldóva, Larnaca frá Grikklandi og Celje frá Rúmeníu á leið sinni í riðlakeppnina í ár. Líkt og Gent hefur Maccabi Tel Aviv átt fast sæti í Evrópukeppnum á undanförnum árum. Liðið komst hins vegar ekki í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar á síðustu leiktíð eftir tap gegn Nice frá Frakklandi, samanlagt 2:1, í 4. umferðinni.

Gætu þurft að spila erlendis

Zorya var í þriðja styrkleikaflokki en liðið hafnaði í 3. sæti úkraínsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og tryggði sér þar með sæti í Evrópudeildinni. Liðið tapaði hins vegar naumlega fyrir Slavia Prag, samanlagt 4:3, í 4. umferð Evrópudeildarinnar og kom þannig beint inn í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Liðið hefur átt fast sæti í Evrópukeppnum frá árinu 2014. Það tapaði hins vegar fyrir Universitatea Craiova í 3. umferð Evrópudeildarinnar, samanlagt 3:1, og komst því ekki áfram.

Leikið verður í Sambandsdeildinni dagana 21. september, 5. október, 26. október, 9. nóvember, 30. nóvember og 14. desember en Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, greindi frá því í samtali við Morgunblaðið að Blikar gætu ekki spilað heimaleiki sína á Kópavogsvelli.

Laugardalsvöllur er því eini völlurinn sem er löglegur hér á landi en erfitt er að treysta á að hann verði leikhæfur í nóvember og desember. Því gætu Blikar þurft að spila heimaleiki sína utan landsteinanna.

Ætla að hrista upp í riðlinum

„Ég er alltaf að verða spenntari og spenntari fyrir þessum riðli,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks í samtali við Morgunblaðið í gær.

„E-riðill leit reyndar mjög vel út enda liðin þar vel þekkt, Aston Villa, AZ Alkmaar og svo Legia Varsjá. Þegar það var búið að draga úr efstu þremur styrkleikaflokkunum þá var E-riðillinn smá draumariðill en hann var eflaust líka sá erfiðasti. Riðillinn sem við drógumst í er mjög sterkur en ég er samt sannfærður um það að við getum strítt öllum þessum liðum og hrist þannig aðeins upp í riðlinum,“ sagði Höskuldur.

Eins og áður sagði er alls kostar óvíst hvar Blikar munu spila heimaleiki sína í keppninni en það ætti þó að skýrast á næstu dögum.

„Það er nú eitthvað í fyrsta leik sem betur fer og þetta er svo sem ekki að plaga mann neitt sérstaklega á þessum tímapunkti. Við vissum það fyrir dráttinn að við gætum ekki spilað á Kópavogsvelli, sem er auðvitað svekkjandi, en þetta er bara raunveruleikinn sem við búum við. Við myndum helst vilja spila á gervigrasi enda erum við bestir þar en það þýðir líka að við getum ekki spilað á Íslandi, sem er ömurlegt bæði fyrir stuðningsmennina og íslenskan fótbolta í heild. Það þýðir hins vegar ekki að spá of mikið í það núna, þetta er ekki neitt sem við höfum mikla stjórn á. Við erum að taka þátt í þessari riðlakeppni til þess að gera eitthvað, annars værum við ótrúir sjálfum okkur og í raun að gera lítið úr afrekinu að hafa komist alla leið í riðlakeppnina,“ bætti Höskuldur við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason