Á sólríkum sunnudagsmorgni 6. ágúst komu iðnaðarmenn fyrir þríforki á styttu, sem gnæfir yfir Kænugarði, í stað hamars og sigðar, sem þar var fyrir. Þríforkurinn er skjaldarmerki Úkraínu. Styttan foldgnáa er af konu og nefnist Móðir föðurlandsins

Á sólríkum sunnudagsmorgni 6. ágúst komu iðnaðarmenn fyrir þríforki á styttu, sem gnæfir yfir Kænugarði, í stað hamars og sigðar, sem þar var fyrir. Þríforkurinn er skjaldarmerki Úkraínu.

Styttan foldgnáa er af konu og nefnist Móðir föðurlandsins. Hún er 62 metra há, 102 metrar með stalli, og var reist árið 1981 sem minnisvarði um sigur Sovétmanna í seinni heimsstyrjöld.

Styttan er hluti af safni um hlutverk Úkraínu í seinni heimsstyrjöld. Til stendur að endurnefna hana Móður Úkraínu vegna tenginga núverandi nafns við Sovétríkin. Hamarinn og sigðin verða sett á safnið.

Hafist var handa við að skipta út hamrinum og sigðinni fyrir þríforkinn eftir að lög um að „afnýlenduvæða“ staðarnöfn og banna tákn „rússneskrar nýlendustefnu“ tóku gildi í júlí.

Nokkrar tafir urðu á verkinu, enda þurftu iðnaðarmennirnir, sem unnu það, iðulega að leita skjóls þegar loftvarnarsírenur fóru í gang.

Rostislav Karandejev, settur ráðherra lista í Úkraínu, sagði að mikilvægt væri að breyta nöfnum og hinum ýmsu minnisvörðum um allt landið, en það mæti ekki bitna á því sem mestu skipti, vörnum landsins.

Fram kom að kostað hefði 100 milljónir króna að fjarlægja hamarinn og sigðina og setja þríforkinn í staðinn. Greitt hefði verið fyrir verkið með frjálsum framlögum og styrkjum án krónu frá ríkinu.

Menningarmálaráðuneyti Úkraínu lét gera könnun í fyrra sem leiddi í ljós að 85% landsmanna studdu að hamarinn og sigðin yrðu fjarlægð.