Golf Friðrik hefur haft nóg að gera á Evróputúrnum í ár.
Golf Friðrik hefur haft nóg að gera á Evróputúrnum í ár.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er mikil kúnst að kvikmynda golfmót. Friðrik Þór Halldórsson myndatökumaður hefur áratuga reynslu í faginu og er fremstur Íslendinga á þessu sviði. Hann hefur meðal annars myndað 26 Íslandsmeistaramót í röð, fylgt íslenskum atvinnumönnum eftir á …

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Það er mikil kúnst að kvikmynda golfmót. Friðrik Þór Halldórsson myndatökumaður hefur áratuga reynslu í faginu og er fremstur Íslendinga á þessu sviði. Hann hefur meðal annars myndað 26 Íslandsmeistaramót í röð, fylgt íslenskum atvinnumönnum eftir á golfmótum erlendis, verið tökumaður á helstu golfmótum í Evrópu í eitt ár og er þegar kominn með verkefni þar á næsta ári.

„Þetta er bara vinnan mín og hún er mjög skemmtileg,“ segir hann lítillátur, en stærsta verkefni hans til þessa verður á Ryder-bikarnum í Róm í lok september.

Friðrik hóf störf sem hljóðmaður hjá Stöð 2 fyrir um 35 árum. Nokkrum árum síðar breyttist tækjabúnaðurinn, hljóðbúnaðurinn sameinaðist myndavélinni og Friðrik varð tökumaður. „Fljótlega fengum við Páll Ketilsson og Jón Haukur Jensson það verkefni að sjá um íslensku mótaraðirnar í golfi, dekkuðum átta til tíu mót á ári og gerðum þætti um þau,“ rifjar hann upp.

Á öllum helstu mótunum

Fyrsta golfverkefni Friðriks erlendis var í Austurríki 2007. „Þá myndaði ég Birgi Leif Hafþórsson atvinnukylfing á móti í Evrópumótaröðinni.“ Ólafur Loftsson varð fyrstur Íslendinga til að keppa í bandarísku atvinnumannamótaröðinni (PGA 2011) og Friðrik fylgdi honum eftir á mótinu. Hann fór síðan aftur til Bandaríkjanna með Þorsteini Hallgrímssyni og myndaði tvö mastersmót fyrir Stöð 2. „Þegar Ólafía Þórunn Kristinsdóttir varð atvinnukylfingur fór ég með henni á tvö mót í Bandaríkjunum og eitt í Evrópu og 2018 myndaði ég Harald Franklín á The Open [Opna breska meistaramótinu] á Carnoustie-vellinum í Skotlandi.“

Hokinn af reynslu hafði Friðrik samband við yfirmann fyrirtækisins, sem framleiðir alla sjónvarpsþætti á evrópsku mótaröðinni, og bauð fram krafta sína. „Þetta var 2018 og ekkert starf laust en hann bað mig um að vera í sambandi og ég gerði það tvisvar á ári.“ Það bar árangur í ágúst í fyrra. „Þá hafði hann samband við mig og spurði hvort ég gæti farið til Danmerkur í næstu viku og myndað Opna danska meistaramótið Himmerland. Þar með byrjaði boltinn að rúlla. Hann bað mig um að fara beint þaðan á Opna ítalska mótið en ég var þá búinn að bóka frí og varð að sleppa því en það kom ekki að sök.“

Verkefnin í Evrópsku mótaröðinni hafa ekki látið á sér standa. Hann dekkaði meðal annars Opna franska meistaramótið í fyrra og verður þar aftur síðar í mánuðinum. Þá myndaði hann lokamótið í Áskorendamótaröð Evrópu á Mallorca og fékk síðan úthlutað sex mótum í sumar. Hann byrjaði á Opna hollenska, síðan var það Opna þýska (BMW International Open), Opna skoska og The Open í Liverpool í júlí, en Opna írska er næst á dagskrá og síðan Opna franska, en Ryder-bikarinn verður í beinu framhaldi af því.

Tökumenn á golfmótum eru á mismunandi stöðum. Sumir eru alltaf á sama stað og „elta“ kúluna en aðrir fylgja efstu kylfingunum eftir.

„Ég er oftast í humátt á eftir þeim bestu,“ segir Friðrik og bætir við að samskiptin við þá séu nánast engin. „Þeir einbeita sér að golfinu og við að myndatökunum,“ segir Friðrik sem hefur þegar verið bókaður á The Open á næsta ári auk annarra verkefna, en m.a. er líklegt að hann myndi golfið á Ólympíuleikunum í París. Ryder-bikarmótið er stærsti viðburðurinn í golfheiminum annað hvert ár. „Ég loka hringnum þar að þessu sinni, á toppnum,“ segir Friðrik.

Höf.: Steinþór Guðbjartsson