Anna Sigríður Garðarsdóttir á tæplega 400 muni sem tengjast teiknimyndinni um Mjallhvíti.
Anna Sigríður Garðarsdóttir á tæplega 400 muni sem tengjast teiknimyndinni um Mjallhvíti. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ný kvikmynd um Mjallhvíti verður frumsýnd snemma á næsta ári. Það er Disney sem stendur að gerð myndarinnar sem er þegar orðin mjög umdeild

Ný kvikmynd um Mjallhvíti verður frumsýnd snemma á næsta ári. Það er Disney sem stendur að gerð myndarinnar sem er þegar orðin mjög umdeild. Enginn prins er í myndinni til að bjarga Mjallhvíti og í stað dverga eru komnar sjö ævintýraverur. Aðalleikkona myndarinnar, hin rómanska Rachel Zegler, hefur síðan hleypt illu blóði í marga því hún hefur opinberlega gert lítið úr teiknimyndinni frægu frá árinu 1937. Sú Disneymynd var mikið afrek og nýtur enn gríðarmikilla vinsælda. Einhverjir spá því að hin nútímalega Mjallhvít muni kolfalla á hvíta tjaldinu. Hvort svo verður mun tíminn leiða í ljós, en gamla teiknimyndin á sér enn sérstakan stað í huga margra kvikmyndaunnenda.

Íslensk kona, Kristín Sölvadóttir, fædd á Siglufirði árið 1912, er talin vera fyrirmyndin að Mjallhvíti í teiknimynd Disneys.

Kristín Sölvadóttir fór til Vesturheims átján ára gömul og var þar í fjögur ár. Hún var þjónustutúlka á kaffihúsi þegar hún kynntist hinum rúmlega fertuga teiknara Charles Thorson. Hann hét réttu nafni Karl Gústaf Stefánsson, fæddur í Gimli, Manitóba í Kanada, sonur íslenskra innflytjenda. Honum er lýst sem sjarmerandi kvennamanni, nokkuð drykkfelldum.

Fyrri eiginkona Thorsons lést rúmlega tvítug úr berklum og sonur þeirra lést ári eftir lát móður sinnar einungis þriggja ára gamall. Thorson kvæntist á ný og átti tvo syni með konu sinni, en annar þeirra lést nokkurra mánaða gamall.

Þegar Thorson kynntist Kristínu var hann fráskilinn. Hann varð yfir sig ástfanginn af henni. Barnabarn Thorsons sagði í minningargrein um afa sinn að til marks um ást hans á Kristínu væru bréf og teikningar í eigu afkomenda hans. Sumarið 1934 bað Thorson Kristínar og hún játaðist honum. Undirbúningur fyrir brúðkaupið var í fullum gangi og búið að velja svaramenn þegar Kristínu snerist hugur.

Kristín hélt heim til Íslands, giftist og eignaðist fimm börn. Thorson vann á árunum 1935-1945 hjá bandarískum teiknimyndafyrirtækjum, þar á meðal Walt Disney. Hann teiknaði Mjallhvíti fyrir hina frægu teiknimynd og sagði vinum sínum að þar hefði hann haft Kristínu sem fyrirmynd. Sagt er að hann hafi einnig teiknað sex af dvergunum sjö.

Hann hætti hjá Disney í fússi þar sem hann taldi vinnuframlag sitt ekki metið að verðleikum og fékk starf hjá Warner Brothers. Þar teiknaði hann frumgerðina að bandarísku teiknimyndapersónunni Bugs Bunny, sem á íslensku kallast Kalli kanína í höfuðið á Karli. Hann skapaði á ferlinum mikinn fjölda teiknimyndapersóna og skrifaði bækur, þar af tvær barnabækur. Thorson lést árið 1966, 75 ára gamall.

Anna Sigríður Garðarsdóttir er dóttir Kristínar. „Ég hef verið sjö ára þegar mamma nefndi það að hún hefði verið fyrirmyndin að Mjallhvíti í Disney-teiknimyndinni en hún var samt ekkert upptekin af því. Á heimilinu hékk alla tíð uppi á vegg teikning sem Thorson sendi mömmu eftir að hún sneri heim. Þar er hann prins og hún prinsessa og höll sést í baksýn. Hann skrifaði með myndinni: Allt þetta verður þitt ef þú verður mín.“

Anna Sigríður segir föður sinn hafa haft gaman af myndinni, sem er nú á heimili Önnu Sigríðar. „Hún er með því verðmætasta sem ég á,“ segir Anna Sigríður.

Anna Sigríður segir móður sína aldrei hafa séð eftir því að hafa hafnað Thorson. „Mamma veiktist af krabbameini og áður en hún dó sagði hún að ég mætti eiga gamalt koffort sem var á heimilinu en ekki opna það fyrr en hún væri dáin. Í því voru ástarbréf frá Thorson.“

Anna Sigríður hefur safnað munum tengdum Mjallhvíti frá 1980 og hugmyndin er að búa til safn. Hún skráir hvern mun og myndar hann. Hún er þegar búin að skrá 164 muni af tæplega 400 sem hún á. Þarna má sjá alls kyns hluti sem tengjast Mjallhvíti: styttur, bolla, skólatöskur, púsluspil, föt og jafnvel kornflexpakka.

„Tenging mömmu við Mjallhvíti er hjartnæm og skemmtileg,“ segir Anna Sigríður. „Ég stefni að því að innrétta tvö herbergi í kjallaranum fyrir þessa hluti og mig langar til að bjóða skólakrökkum hingað til að skoða safnið. Ég ætla líka að búa til sérstakt horn um Charlie Thorson. Hann var Vestur-Íslendingur en er lítt þekktur hér á landi og það er ástæða til að kynna Íslendingum hann.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir