Anna Kristbjörg Jónsdóttir fæddist á Reyðarfirði 16. október 1969. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Fossvogi 2. ágúst 2023.

Hún var elsta barn hjónanna Guðrúnar Helgadóttur og Jóns Runólfs Karlssonar, sem létust bæði í desember 2022. Þau slitu samvistum. Systkini Önnu eru Hrafnhildur Heiða, Jón Runólfur og uppeldisbróðirinn Sigurður Rúnar Ingþórsson.

Börn hennar eru Hrannar Fossberg og Sandra Rún. Eiginmaður Önnu er Andrés Guðmundsson.

Anna ólst upp á Reyðarfirði, Seyðisfirði og í Grindavík en bjó lengst af í Reykjavík. Anna starfaði við fiskvinnslu lengi vel hjá Granda. Einnig starfaði hún lengi sem þjónn á veitingahúsum, m.a. hjá Fógetanum, og síðustu starfsár sín starfaði hún sem skólaliði, en undanfarin ár var Anna heimavinnandi vegna veikinda.

Anna var jarðsungin frá Guðríðarkirkju 14. ágúst 2023.

Anna Kristbjörg vinkona okkar er nú farin í sitt síðasta ferðalag og nú til Sumarlandsins þar sem blómin gróa og sólin skín. Anna greindist með krabbamein fyrir örfáum mánuðum og lést hún á líknardeild LSH 2. ágúst sl.

Kynni okkar af Önnu hafa ekki varað í mörg ár en svo sannarlega verið góð. Við kynntumst í pólitísku starfi þar sem virkir flokksmenn gefa mikið af sér af einskærum áhuga. Önnu verður sárt saknað nú í haust þegar við hefjum flokksstarfið í Miðflokknum aftur eftir sumarhlé, en hún hefur verið stjórnarmaður í Kjördæmafélagi Reykjavík suður og er skarð fyrir skildi að hún verði ekki þar á meðal.

Fulltrúaráðsfundur Miðflokksins sem haldinn var á Egilsstöðum sl. vetur verður lengi í minnum hafður en þá gistum við nokkur saman í sumarhúsi að Einarsstöðum og áttum frábæran tíma saman í leik og starfi ásamt góðum hópi Miðflokksmanna.

Dugnaðurinn, starfsgleðin, skemmtilegheitin og hláturmildin hafa einkennt kynni okkar af Önnu og munum við minnast Önnu um ókomin ár með þakklæti fyrir samfylgdina og samvinnuna sem skipt hefur okkur öll miklu máli.

Við eigum eftir að hittast aftur þegar okkar tími kemur og verður þá örugglega glatt á hjalla hjá okkur stöllunum. Ekki er að efa að vel verður tekið á móti Önnu af foreldrum hennar, sem báðir létust í desember síðastliðnum. Það hefur því verið höggvið stórt skarð í fjölskyldu hennar á stuttum tíma.

Við sendum eiginmanni hennar og börnum samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð og allar góðar vætti að styrkja þau og blessa.

Flýg ég og flýg

yfir furuskóg,

yfir mörk og mó,

yfir mosató,

yfir haf og heiði,

yfir hraun og sand,

yfir vötn og vídd,

inn á vorsins land.

Flýg ég og flýg

yfir fjallaskörð,

yfir brekkubörð,

yfir bleikan svörð,

yfir foss í gili,

yfir fuglasveim,

yfir lyng í laut,

inn í ljóssins heim.

(Hugrún)

Hvíl í friði, kæra Anna Kristbjörg.

Þínar vinkonur,

Erna Valsdóttir og Guðbjörg Hrafnhetta Ragnarsdóttir.