Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Þetta er að byrja aftur en nú þekkja þetta allir og vita að maður þarf að passa sig,“ segir Ragnheiður Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Rithöfundasambands Íslands.
Sambandið varaði félagsmenn sína við því í vikunni að nýr bókaþjófur væri kominn á kreik. Rithöfundar og bókaútgefendur hafa fengið beiðnir um að senda frá sér pdf-skjöl af bókum sem eiga að koma út í haust. Þegar að er gáð reynist beiðnin koma frá fölsuðum netföngum sem svipar til netfanga fólks sem umræddir höfundar hafa verið í samskiptum við.
Þetta er sama aðferð og víðfrægur bókaþjófur, Filippo Bernardini, beitti fyrir nokkrum misserum. Sá starfaði við réttindamál í bókabransanum en utan vinnunnar hafði hann um fimm ára skeið villt á sér heimildir til að fá rithöfunda, forleggjara og þýðendur til að senda sér óútgefin handrit. Alls tókst honum að komast yfir fleiri en þúsund handrit óútgefinna bóka rithöfunda, þar á meðal íslenskra höfunda. Bernardini var handtekinn í byrjun árs 2022 og játaði loks sök í byrjun þessa árs. Hann slapp við fangelsisvist en var gert að greiða háa sekt til að standa straum af lögfræðikostnaði. Til stendur að vísa honum úr landi í Bandaríkjunum að loknu þriggja ára skilorði.
„Við vitum ekki hvort þetta er hann eða einhver að herma eftir hans aðferðum. Þjófurinn ber sig alla vega alveg eins að, veit að það eru að koma út bækur og sendir höfundi póst sem lítur út fyrir að koma frá ritstjóranum hans og biður um pdf af bókinni. Þetta er hið undarlegasta mál að öllu leyti,“ segir Ragnheiður. Þessi nýju tilvik sem eru tilefni viðvörunar Rithöfundasambandsins komu upp hjá Réttindaskrifstofu Forlagsins. Þau þykja mjög svipuð þeim fyrri. Yfirleitt munar bara einum staf í netfanginu sem sent er úr og auðvelt er fyrir höfunda að láta glepjast, sérstaklega á þessum árstíma sem er mjög annasamur í bókaútgáfu. Vítin eru þó til að varast svo Ragnheiður vonast til að félagsmenn verði á varðbergi.
Rétt eins og fyrr virðist erfitt að átta sig á hvað bókaþjófnum gengur til. Bernardini virðist til að mynda aldrei hafa gert neitt með handritin sem hann sankaði að sér. „Hvað í ósköpunum á að gera við handritin vitum við ekki en við vitum þó að þetta er ólöglegt athæfi. Ein kenning sem sett hefur verið fram er hvort eigi að skanna þetta inn fyrir gervigreind. Það hefur verið mikil umræða úti í heimi um að verið sé að mata gervigreindina á ólöglega fengnu efni frægra rithöfunda.“