Suðurfell Stígurinn sem liggur í gegnum svæðið er umlukinn trjágróðri. Hann er mikið sóttur af útivistarfólki.
Suðurfell Stígurinn sem liggur í gegnum svæðið er umlukinn trjágróðri. Hann er mikið sóttur af útivistarfólki. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Frestur til að gera athugasemdir og umsagnir um nýja íbúðabyggð við Suðurfell í Efra-Breiðholti rann út á miðnætti í fyrrakvöld. Alls bárust 97 umsagnir í Skipulagsgáttina og voru langflestar þeirra neikvæðar. Umsagnir/athugasemdir bárust frá 87 einstaklingum og voru 83 mótfallnir nýrri byggð á svæðinu en fjórir meðmæltir. Umsagnir bárust frá 10 stofnunum og félagasamtökum.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Frestur til að gera athugasemdir og umsagnir um nýja íbúðabyggð við Suðurfell í Efra-Breiðholti rann út á miðnætti í fyrrakvöld. Alls bárust 97 umsagnir í Skipulagsgáttina og voru langflestar þeirra neikvæðar. Umsagnir/athugasemdir bárust frá 87 einstaklingum og voru 83 mótfallnir nýrri byggð á svæðinu en fjórir meðmæltir. Umsagnir bárust frá 10 stofnunum og félagasamtökum.

Skipulagslýsingin sem var í auglýsingarferli tekur til þróunarsvæðis í suðausturhluta Fellahverfis. Aðkoma verði frá Suðurfelli. Í nýju deiliskipulagi verður gert ráð fyrir lágreistri íbúðabyggð, 1-2 hæða, með 50-75 íbúðum.

Þeir einstaklingar sem lýsa andstöðu við íbúðabyggð á svæðinu nefna flestir að hér sé verið að fórna vinsælu útivistarsvæði í nálægð við hina miklu náttúruperlu Elliðaárdalinn. „Svæðið sem lagt er til að leggja undir húsnæði er einstaklega fallegt svæði sem ég geng um daglega. Börnin mín sem eru á grunnskólaaldri leika þarna í skógunum og í fylgd minni niðri við ána. Það er ótrúleg skammsýni að fórna svona fallegu grænu svæði undir íbúabyggð og ég játa að ég er hálforðlaus yfir að þetta nái yfirleitt inn á borð sem uppástunga,“ segir í einni umsögn sem er nokkuð dæmigerð fyrir aðrar.

Í annarri umsögn er því fagnað að nýta eigi þennan glæsilega reit í uppbyggingu. „Ekki hlusta á pólitískt þras heldur hefjast handa við að styrkja hverfið, auka búsetukosti og minnka húsnæðisvandann!,“ segir þar meðal annars.

Landvernd vill endurskoðun

Þó Landvernd styðji þéttingu byggðar er ekki sama hvernig hún er gerð, segir í umsögn samtakanna. Um sé að ræða mikilvægt útivistarsvæði við Elliðaárdalinn, „Landvernd hvetur Reykjavíkurborg til að endurskoða áform um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á þessu svæði.“

Árið 2020 greip Stangaveiðifélag Reykjavíkur (SVFR) til sértækra aðgerða við Elliðaárnar í því skyni að vernda laxastofninn í ánni, sem átti þá verulega undir högg að sækja, segir í umsögn félagsins. Aðgerðirnar voru gerðar að beiðni Hafrannsóknastofnunar eftir útgáfu svartrar skýrslu.

Niðurstaða skýrslunnar þótti kalla á afgerandi viðbrögð til verndar laxastofninum, enda hafði hrygningarstofn Elliðaánna þá farið minnkandi og langoftast verið undir meðaltali frá árinu 1990.

SVFR varar eindregið við öllum áformum sem stuðla að auknu álagi á Elliðaárnar. Einstakur laxastofn árinnar sé viðkvæmur og skaðinn sem getur hlotist af auknum umhverfisáhrifum gæti orðið varanlegur. „Félagið hvetur borgarbúa alla, borgaryfirvöld og veiðimenn til að halda vöku sinni og slá skjaldborg um Elliðaárdalinn svo þéttbýlið ógni ekki frekar en orðið er þeirri náttúruperlu sem árnar eru.“

Hollvinasamtök Elliðaárdals lýsa yfir andstöðu sinni við fyrirhugaða íbúðabyggð og skógarhögg við Suðurfell í umsögn sinni. Með þessu séu borgaryfirvöld að ráðast enn og aftur inn í Elliðaárdalinn sem er eitt aðal útivistarsvæði borgarinnar. „Allir eru sammála um að Elliðaárdalurinn er mikilvægur þáttur í lýðheilsu þeirra sem stunda komur sínar þangað. Fegurð Elliðaárdalsins, gróður- og veðurfar, gerir dalinn mjög eftirskóknarverðan sem útivistarsvæði.“

Næsta skref í málinu er að Reykjavíkurborg heldur áfram vinnu við gerð deiliskipulags fyrir svæðið við Suðurfell. Innsendar athugasmdir verða skoðaðar og metnar. Það kemur síðan í ljós að hve miklu leyti verður tekið tillit til þeirra. Gögn og athugasemdir voru birt á skipulagsgatt.is.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson