Gylfi Pálsson fæddist 26. mars 1949. Hann lést 21. ágúst 2023. Útför fór fram 1. september 2023.

Í samræðum manna á milli var Gylfi maður allra kynslóða. Með glettni í augum og smitandi hlátri átti hann mjög auðvelt með að fá alla til að hlusta og svara. Börnin hlustuðu með andakt þegar Gylfi setti fram vísu eða gátu sem þau áttu að leysa. Allavega höfðu okkar börn gaman af þessum leik og minnast enn á vísurnar og gáturnar sem hann setti fram og hve gaman var að heimsækja Gylfa og Rósu á Akureyri.

Við hjónin höfum verið samferða Gylfa og Rósu nær hálfa öld. Alltaf var gaman að hitta þau hvort sem það var í Reykjavík eða á heimslóðum þeirra á Akureyri. Við urðum einnig þess aðnjótandi að hitta þau á æskuslóðum hans í Dagverðartungu. Þau voru sannarlega góðir gestgjafar.

Í starfi sínu sem framkvæmdastjóri í Fóðuriðjunni kynntist Gylfi bændum um land allt. Það var varla til sveitabýli á Íslandi sem hann vissi ekki deili á. Hann þekkti staðsetningu, hann þekkti bændur með nafni og jafnvel hvernig búskap þeir voru með. Í eðli sínu var Gylfi traustur íslenskur bóndi. Það skipti hann máli hvernig lífið í sveitinni gekk. Hvernig gekk sauðburðurinn, hvernig var grassprettan, hvernig gekk heyskapurinn, hvernig var kartöfluuppskeran og hvernig er berjasprettan í ár. Gylfi hafði yndi af íslenskri náttúru, hann var náttúrubarn.

Eitt helst áhugamál Gylfa var að spila bridds. Í gegnum árin tók hann þátt í fjölda briddsmóta og um leið kynntist hann fjölda briddsspilara. Hann mundi fjölda spila sem hann spilaði og nöfn velflestra spilara sem hann spilaði við. Síðasta mótið sem hann tók þátt í var landsmót 50+ í Stykkishólmi fyrr í sumar.

Að leiðarlokum viljum við þakka af heilum hug fyrir samveruna á liðnum árum. Við vottum Rósu, Elfu Björk, Hildi Ösp, Atla Páli, tengdabörnum og barnabörnum samúð okkar.

Fanney Úlfljótsdóttir,
Björn M. Björgvinsson.

Mánudagurinn 21. ágúst sl. rann upp, þungbúinn og drungalegur. Líkt og er um skyndileg veðrabrigði getur með litlum fyrirvara brugðið til beggja átta í lífinu sjálfu. Svo var um fráfall míns kæra vinar og frænda, Gylfa Pálssonar. Enginn átti von á þeim snöggu og ótímabæru umskiptum sem hjá honum urðu.

Ég kynntist Gylfa ekki fyrr en við vorum komnir um tvítugt og áttum sameiginlega skólavist tvo vetur í Samvinnuskólanum Bifröst í Borgarfirði. Í skólanum tókst strax góð vinátta með okkur Gylfa sem haldist hefur alla tíð síðan, sem og milli fjölskyldna okkar. Eða líkt og hann orðaði það sjálfur eitt sinn á góðri stundu … hefur vináttan milli þessara tveggja heimila alla tíð verið sönn og órofin.

Góðu minningarnar eru óteljandi eftir meira en hálfrar aldar samleið. Mikil var samveran á árunum þegar börnin voru að alast upp og mörg hafa sameiginlegu ferðalögin verið innan lands og utan. Og ófáar eru gleðistundirnar sem við hjónin höfum átt í þeim þétta vinahópi sem kallar sig „saumaklúbb“. Gylfi var ávallt trúr uppruna sínum, bar fyrir brjósti afkomu bænda og sveitafólks og varði starfsævi sinni hjá fyrirtækjum sem þjónuðu landbúnaðinum. Auk þess rak hann sjálfur fjárbú ásamt bróður sínum meðfram fullu starfi. Þar var viðhaft ræktunarstarf sem skilaði afurðum á borð við það sem best gerðist. Við í fjölskyldu minni nutum óbeint góðs af þessu því oft tók hann börnin með sér í fjárhúsin.

Ekki er hægt að minnast Gylfa öðruvísi en að nefna hans mesta tómstundagaman sem var að spila brids. Hann hefur lengi verið í hópi snjöllustu spilara, tekið þátt í ótal mótum og unnið til verðlauna. Þeim hæfileikum og færni hélt hann til hins síðasta og stutt var í næsta keppnismót.

Gylfi var „drengur góður“, sannur og traustur vinur sem alltaf var gott að eiga samtal við, hvort heldur var um alvarleg málefni eða á léttu nótunum. Það var gott að gleðjast og hlæja með Gylfa. Hann hafði ríka kímnigáfu sem hann kunni vel að beita. Jafnframt hafði Gylfi til að bera mikla umhyggjusemi og góðgirni sem hann sýndi í verki ef samferðamenn hans áttu við mótlæti að stríða. Hann hafði einnig góða dómgreind og þekkingu á málefnum líðandi stundar og setti fram skoðanir sínar studdar rökum og öfgalaust. Hann var félagslyndur og mannblendinn sem sýndi sig m.a. í því að hann var flestum duglegri að rækta sambönd við gamla skólafélaga.

Gylfi var mikilll fjölskyldufaðir og afi. Mesta gæfa hans í lífinu var að eignast sína góðu konu, Rósu Maríu, og fjölskylduna sem naut umhyggju hans og hjálpsemi fram að síðasta degi.

Sagt er að maður komi í manns stað. Eitthvað kann að vera til í því en í mínum huga kemur enginn í stað Gylfa. Fyrir mér er skarðið sem hann skilur eftir sig stórt og verður ekki fyllt af öðrum. Við kveðjum hann með söknuði og sorg í hjarta.

Að leiðarlokum þökkum við Valdís og fjölskylda okkar fyrir áratuga einlæga vináttu og velvild og vottum Rósu okkar dýpstu og innilegustu samúð. Einnig Elfu Björk, Hildi Ösp, Atla Páli og fjölskyldum þeirra sem og öðrum aðstandendum.

Vignir

Sveinsson.

Gylfi Pálsson frá Dagverðartungu í Hörgárdal lést 21. ágúst af völdum heilablæðingar. Hann var öflugur félagi í Bridgefélagi Akureyrar og hafði verið það lengi sem spilari, stjórnarmaður og endurskoðandi reikninga. Hans verður sárt saknað í okkar hópi. Hann var jafnan hress í bragði og glaðsinna og stuðlaði að góðum anda við spilaborðið.

Áhugi Gylfa á okkar góðu hugaríþrótt var mikill og spilagleðin réð ríkjum hjá honum þó að keppnisskapið vantaði ekki heldur. Hann var óþreytandi að skipuleggja þátttöku í Íslandsmótum og Bridgehátíð í Reykjavík, útvega sveitarfélögum gistingu í orlofsíbúðum og auðvitað hvetja þá óspart til dáða. Öll gisting fyrir sunnan vegna móta á vetri komanda var klár af hans hálfu.

Hann hafði við orð hin síðari ár að stefna sín væri sú að taka þátt í öllum bridgemótum sem hann gæti á meðan hann gæti það. Mér fannst þetta gott mottó hjá Gylfa vini mínum og finnst það ekki síður nú.

Félagar í Bridgefélagi Akureyrar minnast Gylfa Pálssonar sem góðs vinar og félaga og votta fjölskyldu hans innilega samúð við sviplegt fráfall hans.

Kveðja frá Bridgefélagi Akureyrar,

Stefán Vilhjálmsson, formaður BA.

Haustið 1969 hófu um 40 ungmenni, víðsvegar að af landinu, nám við menntasetur samvinnumanna á Bifröst í Borgarfirði. Það var létt yfir hópnum, dálítil spenna og eftirvænting lá í loftinu, sumir nemendanna þekktust en aðrir ekki. En fram undan var heill vetur í nánu sambýli og var ekki farið mikið af bæ nema um jól og páska, virkum dögum sem helgum var að öllu jöfnu eytt á Bifröst, og því kynntust nemendur tiltölulega fljótt. Nemendum var deilt á herbergi á heimavist skólans og minn herbergisfélagi veturinn 1969-70 varð Gylfi, sem nú er kvaddur. Ef til vill vorum við að sumu leyti líkt og svart og hvítt; hann bóndasonur norðan úr Eyjafirði en ég uppalinn á „mölinni“ og áhugamálin ekki öll þau sömu. Ég gat þó, í ljósi dvalar í sveit á barns- og unglingsárum, verið ögn samræðuhæfur um búskaparmál sem voru þó alls ekki aðalumræðuefnin því Gylfi var víðsýnn og vel heima á ýmsum sviðum. Okkar sambýli gekk bara vel þetta skólaár og var það ekki síst að þakka einstökum sambúðarhæfileikum Gylfa, sem ef til vill hefur þurft að bíta á jaxlinn af og til. Hann var einn af þessum mönnum sem öllum vilja vel, gegnheill og glaðsinna, góður skólafélagi sem ég minnist með mikilli hlýju.

Eftir að skólavistinni í Samvinnuskólanum lauk vorið 1971 skildi leiðir og við Gylfi hittumst ekki oft fram eftir árunum. Þó kom það fyrir og gaman var að hitta þennan góða dreng sem alltaf var innilegur og glaður í bragði við þau tækifæri. Það sýndi vel ræktarsemi Gylfa að hann hringdi í mig þegar foreldrar mínir létust og vottaði samúð sína, ég var honum þakklátur fyrir það.

Dag einn, fyrir u.þ.b. mánuði, kom Gylfi í óvænta en afar kærkomna heimsókn til okkar Maju. Hann var sem fyrr hress í bragði og spjölluðum við saman, rifjuðum upp liðna tíð og ýmislegt sem á dagana hafði drifið. Þegar Gylfi fór gekk ég með honum út á bílastæðið og við kvöddumst með þeim orðum að við þyrftum að hittast oftar og bað hann mig að hafa samband ef leiðin lægi til Akureyrar.

Ljóst er að við Gylfi munum ekki hittast á ný í þessu jarðlífi en ef til vill á öðru tilverustigi síðar meir, hver veit. Góður drengur er kvaddur en minningarnar lifa. Við Maja vottum eiginkonu Gylfa, börnum hans og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúð.

Sveinbjörn Dýrmundsson.

Mig langar að kveðja Gylfa vin minn og finnst viðeigandi að gera það á síðum Morgunblaðsins, því Gylfi var mikill Moggamaður alla sína tíð. Við kynntumst árið 1987 þegar við Elfa urðum vinkonur. Ég hafði nýlega flutt frá Grímsey í Borgarhlíð, þar sem fjölskylda hans bjó. Við fyrstu kynni var Gylfi frekar framandi fyrir litla Grímseyinginn, fór fínn í vinnunna með skjalatösku, í badminton eftir vinnu og spilaði brids á kvöldin. Þetta var eitthvað allt annað en ég var vön hjá körlunum í Grímsey. Gylfi keyrði líka um á splunkunýrri rauðri Monzu svo ég ákvað að hann væri mikill bílaáhugamaður. Sá misskilningur leiðréttist með árunum.

Gylfi kynnti mig fyrir sveitinni sinni og sveitastörfunum og hafði ég gaman af að fylgja þeim í baggatínslu, göngur og að standa á fjárbílnum. Ég varð reyndar smeyk þegar ég sá til Gylfa í fyrsta skipti í göngum, þvílík hamskipti á annars dagfarsprúðum manni hafði ég aldrei séð.

Á unglingsárunum kom sér vel að Gylfi þekkti ansi marga, átti útprentaða þjóðskrá og Byggðir Eyjafjarðar. Reglulega voru haldnir fundir og forvitnast um álitlega stráka. Einu sinni sem oftar var ég skotin í strák sem var ansi góður í fótbolta. Hann var að sjálfsögðu borinn undir Gylfa og ég var ekki lítið móðguð þegar Gylfi sagði að draumaprinsinn yrði aldrei meira en efnilegur. Seinna kom í ljós að Gylfi hafði rétt fyrir sér. Þegar ég svo kynntist Helga mínum dró Gylfi enn fram Byggðir Eyjafjarðar og staðfesti að Helgi væri kominn af sómafólki langt aftur í ættir og að Torfur væru engin subbusveit.

Gylfi var mikill fjölskyldumaður, pabbi og afi sem vildi fólkinu sínu allt það besta og ég var svo heppin að hafa hann í mínu liði. Þegar við Helgi byrjuðum að búa og kaupa íbúðir spurði hann reglulega hvernig þetta gengi nú allt og hvort við þyrftum einhverja hjálp. Þegar börnin okkar fæddust fylgdist hann með þeim vaxa og dafna og Haukur okkar á eftir að sakna þess að fara í strákabröns til afa Gylfa með Tómasi. Þegar við bjuggum ekki á Akureyri lagði hann mikla áherslu á að við kæmum í heimsókn í fríum.

Eftir að við fluttum heim og hófum að gera upp íbúðina okkar kom Gylfi við og sagði okkur að hika ekki við að hringja ef það þyrfti t.d. að henda rusli, hann gæti komið með kerruna. Það sama átti við í vor þegar Helgi var að græja matjurtagarðinn okkar. Gylfi mætti með áhöld, ráðleggingar og ítrekanir um að hann væri að sjálfsögðu tilbúinn að aðstoða okkur í garðinum.

Elsku Gylfi minn, nú er komið að okkur hinum að taka við keflinu, rækta garðana og fólkið okkar eins og þú gerðir svo vel. Ég mun gera mitt besta til að styrkja og styðja elsku Rósu, Elfu, Hildi, Atla Pál og fjölskyldur í þeirra mikla missi. Daginn sem þú fórst til berja í hinsta sinn sauð ég sólberjasultu í fyrsta skipti. Þegar ég hellti henni í krukkurnar hugsaði ég með mér að ég yrði að færa Gylfa mínum eina krukku í staðinn fyrir allar berja- og sultusendingar síðustu áratuga. Við hittumst vonandi síðar, fáum okkur sultu og jafnvel mjólkurkex, suðusúkkulaði og Irish coffee.

Þóra Þorleifsdóttir.