Anna Halldóra Karlsdóttir fæddist 16. nóvember 1944. Hún lést 21. ágúst 2023.

Anna Halldóra Karlsdóttir var jarðsungin 30. ágúst 2023.

„Anna Anna en ekki Anna amma“ kallaði sonur minn, Arnljótur Björn, elsku ömmu sína þegar hann var barn og mjög tíður gestur hjá henni og Birni afa. Vart er hægt að óska sér betri tengdamóður en hennar Önnu fyrrverandi tengdamóður minnar. Glaðlyndi, smitandi hlátur og heillandi bros. Hún varð vinkona, alltaf til í spjall um allt og ekkert, hafði húmor fyrir sér og öðrum og vissi að betra var að taka hlutunum létt en alvarlega.

Hann Arnljótur Björn, Addi, gisti ófáar nætur og helgar hjá Önnu og Birni alla barnæskuna og þá sérstaklega í Melásnum. Anna og Addi brölluðu mikið saman, léku sér, dunduðu og glettust við hundana. „Hvað varstu að gera hjá ömmu í dag Addi minn?“ „Við vorum að breyta,“ var svarað með gleðirómi. Anna var smekkleg, hafði fínt í kringum sig og ekki var verra að prófa eitthvað nýtt og breyta uppröðun. Addi fékk oft að taka þátt í því eða þá að fara í búðir með henni og skoða.

Anna var líka smart og hannaði og prjónaði meðal annars fjölmarga kjóla í fallegum litum sem fóru henni svo vel. Orðanotkunin var önnur, kannski að austan eða norðan, því Anna talaði um snúning en ekki stroff í prjóni og flíkur voru kruklaðar, ekki krumpaðar. Þegar maður kom í búðina þeirra Björns, Myndval í Mjódd, þá var eins og væri bjartara þegar hún var við afgreiðslu, slík var vinsemdin og útgeislunin.

Mest sakna ég hversdagsstunda með kaffibolla og skemmtilegum samtölum við yndislegu Önnu.

Innilegar samúðarkveðjur til Björns og fjölskyldu.

Þórdís Arnljótsdóttir.