Pistill
Orri Páll Ormarsson
orri@mbl.is
Þrjár vörður eru á þroskavegferð Íslendingsins; hann fermist, byrjar að drekka kaffi og tekur upp á því að spila golf. Þegar búið er að haka í öll þessi box þá er Íslendingurinn á grænni grein, þangað til númerið hans birtist á stóra spjaldinu hjá almættinu.
Staðið hefur á þroska mínum, svo ég segi ykkur bara alveg eins og er. Ég fermdist að vísu. Hjá séra Pálma í Lögmannshlíðarkirkju og fékk meira að segja sérstakt hlutverk í athöfninni – að passa upp á það fermingarbarn sem var næst mér í stafrófinu enda átti það til að hlaupa án viðvörunar eða fyrirvara eins og fætur toguðu út úr kennslustundum og öðrum samkomum. Þetta var svo sem í lagi í skólanum en séra Pálma þótti lakara að láta þetta trufla hátíðlega athöfn eins og fermingu. Ég stóð mína plikt og hlauparinn sat allan tímann á strák sínum.
Það er verra með kaffið; ég hef aldrei komist upp á lagið með að drekka það. Mér finnst kaffi bara ekki gott, auk þess sem ég sofna aldrei fyrr en undir morgun eftir að hafa fengið mér tíu dropa, jafnvel þótt það hafi verið árdegis. Milli tvítugs og fertugs sat ég undir stöðugum athugasemdum og háðsglósum vegna þessa. „Hvað, ertu ekki farinn að drekka kaffi, drengur?“ Eftir fertugt dró verulega úr þeim athugasemdum enda ganga nú allir út frá því að ég drekki kaffi. Eins og aðrir stálpaðir Íslendingar.
Svo er það golfið. Ég er enn ekki byrjaður í því. Frá mínum bæjardyrum séð er nefnilega álíka spennandi að spila golf og að vera á Snjáldru, eða Facebook eins og óvinir íslenskunnar kalla þann undarlega miðil. Ég sé bara hreinlega ekki galdurinn við þetta! Ég tek skýrt fram að ég hef ekkert á móti golfi (er meira að segja í kunningjafélagi með manni sem vinnur við að hanna golfvelli), það er bara fyrir aðra en mig.
Fyrir utan hvað leikurinn virkar kjánalegur, að slá pínulítinn bolta tugi og hundruð metra til þess eins að rölta á eftir honum og slá hann aftur, er bölvað pjatt í sambandi við klæðaburðinn; menn þurfa helst að vera í bleikum gollum eða köflóttum prjónavestum meðan þeir sveifla kylfunni. Fyrr geng ég í sjóinn en að klæða mig í bleika gollu eða köflótt prjónavesti!
Mér bættist liðsauki úr óvæntri átt á dögunum, þegar rokkarinn og Íslandsvinurinn Ian Anderson, oftast kenndur við Jethro Tull, lýsti því yfir að hann væri enn ekki byrjaður í golfi enda væri sportið fyrir gamalmenni og fyrirboði um endalokin. Anderson er 76 ára gamall. Ég hef aldrei tengt sérstaklega við Anderson. Ég meina, við erum að tala um mann sem stendur á öðrum fæti á sviði og leikur rokktónlist á þverflautu! En þarna talar hann skyndilega beint út úr mínu hjarta.