Hvalveiðibannið rann sitt skeið með ögn hertum málamyndaskilyrðum matvælaráðherra. Áður höfðu hvalveiðibátarnir haldið á miðin til að skima eftir hvölum, sem nú verður tekið til við að veiða ef gæftir og veður leyfa.
Hvalveiðibannið rann sitt skeið með ögn hertum málamyndaskilyrðum matvælaráðherra. Áður höfðu hvalveiðibátarnir haldið á miðin til að skima eftir hvölum, sem nú verður tekið til við að veiða ef gæftir og veður leyfa. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra boðaði að opinberum störfum myndi fækka um 400 og staðfesti fyrri aðhaldshugmyndir ríkisstjórnarinnar í baráttu við verðbólgu, sem mun draga úr auknum ríkisútgjöldum, sem nemur 17 milljörðum kr

26.8-2.9

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra boðaði að opinberum störfum myndi fækka um 400 og staðfesti fyrri aðhaldshugmyndir ríkisstjórnarinnar í baráttu við verðbólgu, sem mun draga úr auknum ríkisútgjöldum, sem nemur 17 milljörðum kr.

Þá greindi fjármálaráðherra einnig frá því að staða ríkissjóðs væri talsvert betri en (nokkuð svartsýnar) spár talnaspekinga ráðuneytis hans höfðu gert ráð fyrir.

Fjármálaráðherra notaði einnig tækifærið til þess að skjóta á Seðlabankann fyrir að vera ekki búinn að redda verðbólgunni og dró trúverðugleika hans í efa.

Hins vegar má segja að Bjarni hafi nánast blásið Borgarlínuna út af borðinu og sagði fjárhagslegar forsendur hennar brostnar. Það hefði stökkbreyst og sumir útgjaldaliðir reynst stórkostlega vanáætlaðir.

Veiðieftirlitsmenn segjast sjá minna brottkast afla en áður í drónaflugi yfir miðin.

Hvalbátar voru gerðir klárir til þess að fara út til leitar, þó ekki væri ljóst hvað gerðist þegar tímabundið hvalveiðibann Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra rynni út um mánaðamótin. Lögmæti bannsins hefur verið dregið í efa.

100 ára afmælis Hellisgerðis, skrúðgarðs Hafnfirðinga, var minnst með hátíðarhöldum í Firðinum.

Skaflinn í Gunnlaugsskarði í Esjunni bráðnaði.

Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir héldu flokksráðsfundi sína um helgina, með ólíku sniði þó. Sjálfstæðismenn héldu fjölmenna skrauthátíð á Hótel Esju, en Vinstri grænir voru öllu færri á Flúðum. Sjálfstæðismenn samþykktu bara eina ályktun en Vinstri grænir deildu um hvert greinarmerki í heilum 17 ályktunum.

Kosið verður um nýjan biskup þjóðkirkjunnar í mars.

Áhyggjur af jarðhræringum við Kötlu jukust enn.

Nokkur fjöldi af söngelsku fólki sem gerir sér vonir um fastráðningu við nýja ríkisóperu lýsti yfir stuðningi við stofnun hennar, að því tilskildu að aðrir – helst skattborgarar – borguðu fyrir það.

Gagnrýnt er að fyrirhuguð íbúðabyggð í hlíðum Elliðaárdals skuli ekki hafa verið borin undir Hollvinasamtök Elliðaárdals eða Skógræktina.

Fréttir voru sagðar af því að í landinu væri rekinn fjöldi snyrtistofa án tilskilinna leyfa. Skrásetjari hafði enga hugmynd um að þær væru leyfisskyldar.

Kennsla í Eddu, hinu nýja húsi Árnastofnunar, mun tefjast fram yfir áramót. Tíðindum sætir að það er ekki vegna myglu.

Sigríður Ragnarsdóttir, fv. skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar, lést 73 ára gömul.

Kostnaður vegna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er nú til skoðunar, borgarlínan í uppnámi, en menn ekki á einu máli um hvað sé til ráða. Seltirningar íhuga að segja sig frá sáttmálanum en meirihlutinn í Reykjavík segir peninga ekkert vandamál.

Matvælaráðherra kynnti áform um breytingu á búvörulögum í því skyni að rýmka heimildir bænda til samstarfs og ýta undir hagræðingu og markaðsstarf.

Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi og atkvæðamaður í Sjálfstæðisflokknum taldi vantrauststillögu á Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra líklega vegna „árása á atvinnulífið“ og stjórnsýslubrota ráðherrans. Flokksráðsmenn gerðu góðan róm að þeim spádómi.

Hvalveiðibann matvælaráðherra virðist hafa þær afleiðingar helstar að andstæðingum hvalveiða fækkaði ef marka má könnun Maskínu.

Starfshópur Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra taldi ekki útilokað að bæta aðferðir við veiðar á stórhvelum, þó að vísu væru engir hvalfangarar í hópnum.

Góður hagnaður var hjá Landsvirkjun, en heppni Reykvíkinga er söm við sig og hagnaður OR dróst saman.

Kurt Schier prófessor í norrænum fræðum í Þýskalandi lést 94 ára.

Skaftárhlaup hófst og nei, það var ekki Skaftármaraþonið.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hélt áfram að gleðja eyjarskeggja og kynnti tillögur sínar um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu eftir mikla stefnumótunarvinnu fjölmennra sérfræðihópa og kaus að fara ekki að ráðum þeirra nema eftir hentugleikum.

Ráðherrann vill auka sérskattheimtu á sjávarútveg og afturkalla hluta aflaheimilda til þess að bjóða þær út á ný, sem væntanlega eykur kvótahlut stórútgerða.

Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra skoraði á viðskiptabankana að lækka vaxtamun sinn. Þeir hlustuðu íbyggnir á.

Forstöðumenn ríkisstofnana telja óráð að fækka ríkisstarfsmönnum, enda hafi almenningur væntingar um skjóta stjórnsýslu. Almenningur kútveltist af hlátri yfir þessari gamansemi á heimsmælikvarða úr óvæntri átt.

Hvalbátur hélt út á Faxaflóa til æfinga.

Umboðsmaður alþingis ítrekaði óskir um að viðbrögð stjórnvalda í heimsfaraldri yrðu gerð upp, svo unnt sé að læra af reynslunni. Viðbrögð stjórnvalda við því voru öllu hófstilltari.

Halldór Árnason, embættismaður sem kom víða við í stjórnarráði og opinberum stofnunum, lést sjötugur.
Samstarfsflokkar matvælaráðherra tóku sjávarútvegstillögum hans fálega og þóttu þær ekki samrýmast stjórnarsáttmála.

Fram kom hjá Fiskistofu að útgerðir greiddu mestu veiðigjöld undanfarinna fimm ára, tæpan milljarð á mánuði.

Umferð á höfuðborgarsvæðinu heldur áfram að vaxa ár frá ári en samgöngumannvirki ekki. Miklar tafir hafa verið í umferð og talsverðar truflanir á skólastarfi þegar börn koma seint og eru sótt síðar en rétt væri.

Kostnaður við Borgarlínuna liggur ekki enn fyrir, en hann er talinn í hundruðum milljarða. Eyþór Arnalds benti á að Indverjar hefðu mun ódýrari geimferðaáætlun og hefðu þó nýverið lent á suðurskauti Tunglsins.

Mjög dró úr krafti Skaftárhlaups og lögregla aflétti vegatakmörkum.

Breiðablik komst í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta karla.

Matvælaráðherra féll frá hvalveiðibanni sínu og leyfði þær að nýju með skilyrðum. Skutlararnir þurfa að hafa próf í hvalalíffræði, kristalsheilun og tokkarísku.

Samkeppniseftirlitið gaf út úrskurð um Samskip í 15 binda 3.220 ritröð, auk viðauka, og sektaði fyrirtækið um 4,2 milljarða króna.

Virðisaukaskattsívilnun rafbíla mun að óbreyttu falla niður um áramót og þeir því hækka verulega í verði til neytenda og ríkissjóður hirðir mismuninn.

Ýmsar Hollywood-stjörnur tilkynntu að þær myndu ekki vinna á Íslandi ef ekki yrði tekið upp hvalveiðibann að nýju. Fjölmiðlar hafa án árangurs reynt að fá álit Leonardo di Caprio á Suðurstrandarvegi, Teigsskógi, Vestfjarðalínu og ýmsum öðrum helstu álitaefnum.

Á móti kemur að haldi kvikmyndaframleiðendur sig fjarri sparast skattgreiðendum ógrynni fjár, sem mógúlarnir sækja hingað árlega í „endurgreiðslur“ úr ríkissjóði.