Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson
Valfrelsi einstaklinga í viðbótarlífeyrisssparnaði verður aukið nái frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á ráðstöfun viðbótarlífeyrissparnaðar fram að ganga. Frumvarpið er nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda

Valfrelsi einstaklinga í viðbótarlífeyrisssparnaði verður aukið nái frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á ráðstöfun viðbótarlífeyrissparnaðar fram að ganga. Frumvarpið er nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.

Frumvarpið felur í sér að einstaklingar geti sjálfir ákveðið fjárfestingarstefnu sparnaðarins og breytingar á henni í samráði við vörsluaðila. Til að ná því markmiði þurfi að auka heimildir vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar til að bjóða viðskiptavinum sínum að hafa persónulegt val um fjárfestingarstefnu viðbótarlífeyrissparnaðar til að eigandi slíks lífeyrissparnaðar geti sjálfur ákveðið fjárfestingar og ávöxtun sparnaðarins.

Í kynningu á væntanlegu frumvarpi kemur fram að í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hafi verið lögð áhersla á umbætur í lífeyrismálum. Fyrirhugaðar breytingar eru taldar henta einstaklingum sem vilja stjórna fjármunum sínum sjálfir auk þess að geta valið úr fjölbreyttari fjárfestingarkostum en vörsluaðilar bjóða nú þegar upp á.

Frumvarpsdrögin verða unnin í samráði við Landssamtök lífeyrissjóða og Seðlabanka Íslands en eigendur viðbótarlífeyrissparnaðar, mögulegir þjónustuveitendur og stjórnvöld eru helstu hagsmunaaðilar sem frumvarpið nær til. Gert er ráð fyrir að áhrif breytinganna verði jákvæð þar sem valfrelsi fólks verði aukið.

„Tillögur frumvarpsins gera heimilunum, körlum og konum, betur kleift að aðlaga eignasafn sitt að eigin viðhorfum til ávöxtunar og áhættu,“ segir í mati á mögulegum áhrifum þess.