Nýja brúin Fossvogsbrúin verður 270 metra löng og byggð úr stáli. Hún liggur frá Nauthólsvík yfir í Kársnes.
Nýja brúin Fossvogsbrúin verður 270 metra löng og byggð úr stáli. Hún liggur frá Nauthólsvík yfir í Kársnes. — Tölvumynd/Efla og BEAM
Nú liggur fyrir að kostnaður við nýja Fossvogsbrú verður umtalsvert hærri en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Brúin verður 270 metra löng. Fram kemur á vef Vegagerðarinnar að kostnaður vegna hönnunar, framkvæmda, umsjónar og eftirlits sé metinn á um 6,1 milljarð króna

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Nú liggur fyrir að kostnaður við nýja Fossvogsbrú verður umtalsvert hærri en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Brúin verður 270 metra löng.

Fram kemur á vef Vegagerðarinnar að kostnaður vegna hönnunar, framkvæmda, umsjónar og eftirlits sé metinn á um 6,1 milljarð króna.

Áætlaður kostnaður við framkvæmdina var 2,25 milljarðar samkvæmt frumdrögum að fyrstu lotu borgarlínu sem komu út í byrjun árs 2021 áður en brúin fór í hönnunarsamkeppni. Þetta kom fram í svari samgöngustjóra Reykjavíkurborgar í nóvember 2022 við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Hér munar því tæpum fjórum milljörðum króna.

Fram kemur á vef Vegagerðarinnar að í kostnaðaráætlun séu almennar verðhækkanir teknar með í reikninginn og markaðsverð á stáli og steypu sem eru aðalbyggingarefni brúarinnar. Miklar hækkanir hafi orðið á þessum liðum á hönnunartímanum.

Við þetta bætist síðan kostnaður við landfyllingar í Fossvogi og er hann áætlaður 1,4 milljarðar. Samkvæmt nýjustu áætlunum yrði því heildarkostnaðurinn við brúna um 7,5 milljarðar króna.

Landfyllingar boðnar út

Brú yfir Fossvog er hluti af fyrsta áfanga Borgarlínunnar og markmiðið með henni er að bæta samgöngutengingar milli Reykjavíkur og Kópavogs. Brúin er ætluð fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, sem og farþega almenningssamgangna, en á brúnni verður sérrein fyrir Borgarlínuvagna. Hún er ekki ætluð fyrir bílaumferð. Fyrirhugað er að bjóða út vinnu við landfyllingar á Kársnesi og við Nauthólsvík á haustmánuðum.

Áætlanir gera ráð fyrir að vinna við landfyllingar hefjist fyrir áramót og taki um átta mánuði. Í framhaldinu verða framkvæmdir vegna smíði brúarinnar boðnar út og ættu þær að geta hafist um mitt næsta ár.

Hönnun brúarinnar er nú á lokastigum og áformað er að fullnaðarhönnun ljúki um næstu áramót. Haldin var opin hönnunarsamkeppni um útlit og hönnun brúar yfir Fossvog í byrjun árs 2021 og úrslit kynnt í desember það sama ár. Sigurtillagan heitir Alda og er samstarfsverkefni Eflu og BEAM Architects.

Samkvæmt tillögunni átti að nota ryðfrítt stál í brúna. Nú hefur hins vegar verið ákveðið að nota hefðbundið stál. Fram kemur á vef Vegagerðarinnar að um 1,4 milljarðar króna sparist með því.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson