Höskuldur Ólafsson
hoskuldur@mbl.is
„Orgelsumrinu lauk um síðustu helgi. Fimmtán viðburðir, allir ákaflega vel sóttir, og nú er að hefjast það sem við köllum Haust í Hallgrímskirkju,“ segir Björn Steinar Sólbergsson organisti og tónlistarstjóri í Hallgrímskirkju, glaður í bragði í lok vinnudags.
Tónleikaröðin sem hefst á hádegi með tónleikum Láru Bryndísar Eggertsdóttur og Dorthe Højland samanstendur af átta viðburðum til loka nóvember og verður áhersla lögð á samstarf við aðrar menningarstofnanir, að hans sögn.
„Það hefur alltaf verið lykilatriði í minni listrænu stjórnun að eiga í samstarfi við hæfileikaríkt fólk og það gleður okkur óskaplega að vera komin í formlegt samstarf við Sinfóníuhljómsveit Íslands.“
Það samstarf hafi átt sér góðan aðdraganda og vonir bundnar við að það haldi áfram.
„Sinfóníuhljómsveitin á auðvitað þennan fína hljómleikasal Eldborg en í Hallgrímskirkju er hægt að gera allt öðruvísi hluti en í Hörpu. Kirkjan býður til dæmis upp á allt annað hljóðrými, sem hentar mjög vel ákveðinni tegund tónlistar, en síðan er líka orgelið – sem vantar í Hörpu að mínu mati – og síðast en ekki síst erum við að byggja upp frábæran kór undir forystu Steinars Loga Helgasonar kórstjóra. Hátt í 60 manna kór. Þannig að kirkjan hefur upp á margt gott að bjóða sem opnar nýja möguleika fyrir menningarstofnanir sem hafa áhuga á samstarfi.“
Yfir 10.000 tónleikagestir
„Fókusinn er auðvitað alltaf á kirkjutónlist. Hallgrímskirkja hefur um áratuga skeið verið mikilvægur hluti af menningarlífi kirkju og þjóðar og við tökum það hlutverk alvarlega. En við viljum líka sýna breidd og bjóða upp á fjölbreytni og samstarfið við Sinfóníuhljómsveitina er viðleitni til þess. Ég get líka nefnt viðburð eins og Mozart Requiem – „sing along“ í samstarfi við Óperudaga sem hún Guja Sandholt er í forsvari fyrir. Ótrúlega skemmtileg hugmynd sem hún kemur með frá Hollandi og virkar þannig að öllum sem vilja og kunna er boðið að koma með nóturnar sínar – eða fá nótur hjá okkur – og syngja Requiem með hátíðarkór Óperudaga við orgelundirleik. Öll kirkjan mun syngja Requiem!“
Björn Steinar nefnir líka Iceland Airwaves en tvennir tónleikar hátíðarinnar fara fram í Hallgrímskirkju fyrstu helgina í nóvember.
„Við gerðum þetta í fyrsta sinn í fyrra og það lukkaðist það vel að kirkjan troðfylltist og opnaði á nýjan og breiðan áheyrendahóp sem við tökum fagnandi.“
Ferðamenn eru svo einnig hópur sem hafa ber í huga enda sóttu yfir 10.000 manns tónleika í Hallgrímskirkju í fyrra og þar af voru erlendir ferðamenn um 40% tónleikagesta. „Við njótum góðs af því að Hallgrímskirkja er mikil ferðamannakirkja. Er að mér skilst einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins og það er mikið af ferðafólki sem sækir í að koma á tónleika í kirkjunni en ekki síður helgihald og það er frábært að geta boðið upp á vandaða og metnaðarfulla dagskrá fyrir þessa gesti. Ég þekki það sjálfur frá því að hafa spilað í mörgum miðborgarkirkjum að í þeim er mikið lagt upp úr vandaðri tónleikadagskrá og það viljum við gera líka.“
Heiðurstónleikar
Lokahnykkur tónleikaraðarinnar verða orgeltónleikar til heiðurs Herði Áskelssyni, fyrrverandi kantor Hallgrímskirkju og stjórnandi Mótettukórsins 1982-2022. Hörður stjórnaði sínum síðustu tónleikum í Hörpu í nóvember 2022 þegar Messías eftir Händel var flutt af Mótettukórnum og Alþjóðlegu barokksveitinni í tilefni af 40 ára afmæli kórsins og Listvinafélagsins „Við fögnuðum því í desember í fyrra að þá voru liðin 30 ár frá vígslu Klais-orgelsins. Hörður var þar heiðursgestur enda átti hann að öllum öðrum ólöstuðum mestan þátt í að orgelið var keypt á sínum tíma. Það eru fyrrverandi orgelnemendur Harðar sem munu heiðra hann á tónleikunum 26. nóvember.“ Miðasala er á tix.is og upplýsingar um dagskrána á hallgrimskirkja.is.
Dagskrá
Haust í Hallgrímskirkju
Laugardagur 2. september
Duo Barazz – Lára Bryndís Eggertsdóttir (orgel) og Dorthe Højland (saxófónn).
Föstudagur 6. október
Archora – Sinfóníuhljómsveit Íslands, Björn Steinar Sólbergsson (orgel), Bryndís Guðjónsdóttir (sópran) og Kór Hallgrímskirkju. Stjórnandi: Eva Ollikainen.
Laugardagur 7. október
Steingrímur Þórhallsson (orgel)
og Pamela De Sensi (flauta).
Sunnudagur 22. október
Mozart Requiem – „Sing along“.
Hátíðarkór Óperudaga, Bryndís Guðjónsdóttir (sópran), Guja
Sandholt (mezzósópran), Gissur Páll Gissurarson (tenór), Jóhann Smári Sævarsson (bassi) og Lára Bryndís Eggertsdóttir (orgel). Stjórnandi: Steinar Logi Helgason.
Laugardagur 4. nóvember
Iceland Airwaves
Arngerður María Árnadóttir (orgel), Una Sveinbjarnardóttir (fiðla), Davíð Þór Jónsson (píanó) og
Skúli Sverrisson (bassi).
Sunnudagur 5. nóvember
Iceland Airwaves
Maurice Duruflé – Requiem. Hymnodia Kammerkór & Kammerkór Norðurlands, Hildigunnur Einarsdóttir
(mezzósópran), Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir (selló) og
Eyþór Ingi Jónsson (orgel).
Stjórnandi: Guðmundur Óli Gunnarsson.
Laugardagur 18. nóvember
Listaháskólinn í Hallgrimskirkju
Sunnudagur 26. nóvember
Heiðurstónleikar – Hörður Áskelsson sjötugur