Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Leyniþjónusta Úkraínuhers, HUR, sagði í gær að Úkraínumenn hefðu náð að sprengja upp Tomilinskí-verksmiðjuna í Ljúbertsí, sem er í útjaðri Moskvuborgar. Verksmiðjan framleiðir að sögn Úkraínumanna rafrásir og örflögur sem notaðar eru til framleiðslu á rússneskum eldflaugum.
Ekki var hægt að staðfesta í gær hvaða skaði hefði orðið af árás Úkraínumanna, en Sergei Sobjanín, borgarstjóri Moskvu, sagði í gærmorgun að loftvarnir borgarinnar hefðu skotið árásardróna Úkraínumanna niður áður en hann náði að skotmarki sínu.
Andí Júsov, talsmaður HUR, sagði hins vegar borgarstjórann fara með ósannindi, en samkvæmt heimildum leyniþjónustunnar voru framleiddir íhlutir í Kalibr-eldflaugar Rússa í verksmiðjunni. Á samfélagsmiðlum gengu myndir í gær, sem virtust sýna þykkan reyk stíga yfir Ljúbertsí.
Starfa innan Rússlands
Yfirlýsing HUR kom sama dag og Kíríló Búdanov, yfirmaður leyniþjónustunnar sagði að drónaárásin á flugvöllinn í Pskov fyrr í vikunni hefði verið hleypt af stað innan landamæra Rússlands.
Búdanov sagði ekki hvort að rússneskir skemmdarverkamenn eða úkraínskar sérsveitir hefðu verið að verki, en sagði að Úkraínumenn væru „að störfum“ innan landamæra Rússlands.
Leyniþjónustan birti jafnframt gervihnattamyndir sem sýndu eftirleik árásarinnar, en þar mátti sjá flakið af tveimur rússneskum herflutningavélum af gerðinni Il-76. Rússar höfðu áður viðurkennt að fjórar slíkar vélar hefðu skemmst.
Markverður árangur
Jack Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, sagði í gær að Úkraínumenn hefðu náð „markverðum árangri“ síðastliðna þrjá sólarhringa í sókn sinni í suðurhluta Úkraínu.
Kirby sagði að gagnsóknin hefði ekki verið eins hröð og Úkraínumenn sjálfir hefðu vonast eftir, en að nú væru þeir komnir að annarri varnarlínu Rússa af þremur og náð nokkrum árangri í aðgerðum sínum við hana.
„Við höfum öll séð gagnrýnina sem nafnlausir embættismenn hafa sent frá sér, sem í sannleika sagt kemur ekki [Úkraínu] að gagni,“ sagði Kirby og bætti við að hver sem horfði hlutlægt á gagnsóknina gæti ekki neitað að Úkraínumenn hefðu náð að sækja fram síðustu daga.
Serhí Baranov, yfirmaður eldflaugasveita, stórskotaliðs og drónaherja Úkraínu, sagði í fyrradag að Úkraínumenn væru nú orðnir jafnvígir Rússum þegar kæmi að getu þeirra til þess að beita stórskotaliði gegn öðru stórskotaliði.
Þakkaði Baranov fallbyssum og eldflaugakerfum, sem ríki Atlantshafsbandalagsins hefðu látið Úkraínumönnum í té, þann árangur, en kerfin hafa drægi upp á 30-40 kílómetra, og hafa Rússar því neyðst til þess að draga eigið stórskotalið lengra frá víglínunni.
Rússneska varnarmálaráðuneytið lýsti því yfir á móti í gær að rússneskir hermenn hefðu náð góðum árangri í sókn sinni við Kúpíansk í Karkív-héraði. Sagði ráðuneytið að Rússar hefðu náð nokkrum hæðum í nágrenni borgarinnar á sitt vald, auk þess sem þeir hefðu valdið „umtalsverðu manntjóni“ meðal Úkraínumanna.
BAE gæti orðið að skotmarki
Dmitrí Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, sagði í gær að rússnesk stjórnvöld litu ákvörðun breska vopnaframleiðandas BAE Systems um að hefja starfsemi í Úkraínu hornauga og varaði við því að allar byggingar þar sem vopn væru framleidd gætu orðið að skotmarki rússneska hersins.
BAE Systems tilkynnti í fyrradag að fyrirtækið ætlaði sér að hefja samstarf við stjórnvöld í Kænugarði um leiðir til þess að framleiða m.a. léttar fallbyssur og skotfæri. Myndi það samstarf m.a. fela í sér að BAE myndi opna skrifstofu í Kænugarði.
Gagnrýna Nóbelsstofnunina
Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, gagnrýndi í gær ákvörðun Nóbelsstofnunarinnar um að bjóða aftur sendiherrum Rússlands og Hvíta-Rússlands til afhendingar nóbelsverðlaunanna í ár, og sagði hana hafi komið sér verulega á óvart.
„Ég hefði ekki gert það, ef ég væri að senda út boðskort á verðlaunahátíð og ég skil að hún hafi gert marga í bæði Svíþjóð og Úkraínu sára,“ sagði Kristersson, en leiðtogar Miðflokksins, Græningja, Vinstri flokksins og Frjálslynda flokksins hafa lýst því yfir að þeir muni sniðganga athöfnina ef sendiherra Rússlands mæti.
Oleg Níkolenkó, talsmaður úkraínska utanríkisráðuneytisins og Svíatlana Tsíkhanouskaja, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi, gagnrýndu ákvörðun Nóbelsstofnunarinnar sömuleiðis harðlega og skoruðu á hana að hætta við að bjóða sendiherrunum tveimur.