Útrýming Myndin sýnir aðalinngang Sachsenhausen-búðanna.
Útrýming Myndin sýnir aðalinngang Sachsenhausen-búðanna. — AFP/John MacDougall
Saksóknarar í Þýskalandi hafa ákært 98 ára gamlan karlmann fyrir aðild sína að drápi minnst 3.300 einstaklinga á tímum síðari heimsstyrjaldar

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Saksóknarar í Þýskalandi hafa ákært 98 ára gamlan karlmann fyrir aðild sína að drápi minnst 3.300 einstaklinga á tímum síðari heimsstyrjaldar. Aftökurnar fóru fram í Sachsenhausen, útrýmingarbúðum Þriðja ríkis Þýskalands.

Ekki hefur verið greint frá nafni hins ákærða, en ungur að aldri gekk hann til liðs við sveitir SS og var staðsettur í Sachsenhausen tímabilið júlí 1943 til febrúar 1945. Gegndi hann þá stöðu varðmanns.

Thomas Hauburger saksóknari segir manninn ákærðan fyrir að hafa „aðstoðað við grimmileg dráp á þúsundum fanga“ í búðunum.

Maðurinn var í október 2022 látinn gangast undir mat lækna á því hvort hægt væri að rétta yfir honum. Var niðurstaðan sú að maðurinn væri nægjanlega heilsuhraustur til að sitja þinghald en með nokkrum takmörkunum þó.

Nú er beðið formlegrar ákvörðunar um réttarhöld. Ungur aldur mannsins þegar drápin voru framin kann að hafa áhrif á framhaldið.

Fara sjaldnast í fangelsi

Þýskir saksóknarar hafa undanfarin ár fengið marga fyrrverandi liðsmenn SS-sveitanna dæmda fyrir glæpi sem framdir voru í stríðinu. Margir þeirra létust þó sökum aldurs áður en afplánun hófst.

Höf.: Kristján H. Johannessen