Jóna Linda Hilmisdóttir fæddist 5. október 1961. Hún lést 18. ágúst 2023. Útför fór fram 1. september 2023.
Jóna Linda var ein af þessum athafnasömu konum sem fátt getur stöðvað enda hafði hún í nógu að snúast og sinnti mörgum hlutverkum í lífinu. Hún var eiginkona, fjögurra barna móðir og amma auk þess að vera grunnskólakennari og vafalaust margt fleira. Fyrir okkur í BPW-klúbbnum var hún þó umfram allt klúbbsystir okkar og mjög virk og vel metin sem slík. Hún mætti á alla fundi sem hún mögulega gat og tók þátt í nefndarstörfum af heilum hug. Fæstar okkar gerðu sér grein fyrir hve alvarleg veikindi hennar voru fyrr en kom að stóru aðgerðinni því hún var alltaf hress og kát og kvartaði aldrei. Þegar ég ræddi við hana í vor og spurði hvort hún vildi halda sínum nefndarstörfum áfram hélt hún það nú. Hún ætti örugglega eftir að hressast og geta verið með. Hún var alltaf tilbúin að leggja klúbbnum lið enda var BPW-klúbburinn henni mikils virði og hún lagði mikið á sig til að mæta á fundi, jafnvel þótt hún væri sárþjáð og komin í hjólastól. Þar bar hugurinn hana ekki aðeins hálfa leið, heldur alla leið. Hún bara mætti og lét eins og það væri ekkert mál, tók þátt í umræðum og afsakaði brosandi að hún gæti ekki staðið upp til að tjá sig. Hugrökk kona, hún Jóna Linda, og sönn BPW-kona. Við munum sakna hennar.
Blessuð sé minning Jónu Lindu.
Við vottum eiginmanni hennar, börnum, barnabörnum og fjölskyldu allri okkar innilegustu samúð.
F.h. klúbbsystra í BPW-klúbbnum Reykjavík,
Jóhanna Kristín Tómasdóttir, forseti BPW Reykjavík.
Við kynntumst Jónu Lindu þegar leiðir okkar lágu saman við kennslu í Seljaskóla þar sem hún starfaði í um 30 ár, lengst af sem umsjónarkennari og síðustu árin sem sérkennari.
Hún var kennari af lífi og sál og mikill þekkingarbrunnur. Hún vann að því með miklum eldmóði að koma til móts við þarfir allra nemenda sinna og þannig koma þeim til manns. Hún var úrræðagóð, hjálpsöm, þolinmóð, traust og þurfti mikið til að hún skipti skapi.
Í gegnum sín erfiðu veikindi sá hún alltaf það jákvæða og fallega við lífið og tilveruna þótt hún væri svipt því sem við köllum eðlilegt líf.
Jóna Linda var mjög listræn og flink í höndunum og ófá verk liggja eftir hana í prjónaskap. Í lokin var hún með jólapeysur á prjónunum fyrir barnabörnin því hún gat prjónað inn á milli og var afar þakklát fyrir að það væri ekki tekið frá henni líka.
Elsku Jóna Linda okkar er farin, farin á vit nýrra ævintýra þar sem hún hlustar á Queen, dansar og syngur með, eins og henni einni var lagið.
Við erum þakklátar fyrir að hafa kynnst elsku Jónu Lindu og þökkum fyrir allar góðu og skemmtilegu stundirnar sem við áttum með henni. Er hún okkur mikill missir og blessuð sé minning hennar.
Við vottum elskulegu fjölskyldu hennar innilega samúð og guð gefi þeim styrk á þessum erfiðu tímum.
Þeir segja mig látna, ég lifi samt
og í ljósinu fæ ég að dafna.
Því ljósi var úthlutað öllum jafnt
og engum bar þar að hafna.
Frá litlu hjarta berst lítil rós,
því lífið ég þurfti að kveðja.
Í sorg og í gleði ég senda mun ljós,
sem að mun ykkur gleðja.
(Höf. ók.)
Aðalheiður Kristjánsdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir og Sigrún Harðardóttir.
Kveðja.
Kær vinkona og saumómeðlimur, til 34 ára, hefur nú kvatt okkur allt of fljótt. Eftir stöndum við hnípnar og hugsi með þakklæti í huga fyrir allar góðu stundirnar og gleðina sem við áttum með Jónu Lindu okkar.
Þótt sólin nú skíni á grænni grundu
er hjarta mitt þungt sem blý.
Því burt varst þú kölluð á örskammri stundu,
í huganum hrannast upp sorgarský.
Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða,
svo gestrisin, einlæg og hlý.
En örlög þín ráðin – mig setur hljóða,
við hittumst ei framar á ný.
Megi algóður Guð þína sálu nú geyma,
gæta að sorgmæddum, græða
djúp sár.
Þó komin sért yfir í aðra heima
mun minning þín lifa um ókomin ár.
(Sigríður Hörn Lárusdóttir)
Elsku Birgir Már, Erla og Hilmir, Hilmir, Hörður, Írena, Brynjar og fjölskyldur, megi minning um einstaka eiginkonu, dóttur, móður, tengdamóður og ömmu ylja ykkur um ókomin ár.
Saumóvinkonur,
Elsa, Bryndís, Hrafnhildur, Herdís og Þórunn.