„Í ljósi nýlegra ummæla Alice Coopers höfum við slitið samstarfi við hann,“ sagði snyrtivöruframleiðandinn Vampyre Cosmetics á samfélagsmiðlum. Ummælin snerust um transfólk. „Við stöndum með öllu hinsegin fólki og trúum því að allir eigi að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu. Allar fyrirframpantanir verða endurgreiddar.“
Um var að ræða meik, varalit, augnskugga og pallettur í gotneskum anda, líkt og söngvarinn, sem er 75 ára, er frægur fyrir.
Téð ummæli lét Cooper falla í samtali við miðilinn Sterogum. Þar sagði hann meðal annars: „Mér skilst að dæmi séu um transmennsku, en ég óttast að það sé líka tíska. Það er í öllu falli rangt þegar þú ert með sex ára barn sem veit ekki neitt. Hann vill leika sér og þú ruglar hann í ríminu með því að segja: „Þú ert auðvItað strákur en getur líka verið stúlka ef þú vilt.““
Cooper sagði transumræðuna komna út í móa enda væru börn og unglingar jafnvel farin að upplifa sig sem ketti eða tré. Hann nefndi þó engin skýr dæmi máli sínu til stuðnings.