Ráðherra skapaði sér óvinsældir hjá hvalveiðisinnum í vor en hvalveiðiandstæðingum núna. U-beygjur reynast stjórnmálamönnum sjaldan affarasælar.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Fyrir viku var hér nefnt að hugsanlega yrði bókun 35 við EES-samninginn hitamál á flokksráðsfundi sjálfstæðismanna laugardaginn 26. ágúst. Svo varð ekki. Tillaga varðandi málið komst aldrei út úr umræðuhópi þar sem hún var felld.

Þeim sem er í nöp við bókun 35 sættu sig við þessa málamiðlun: „Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um fullveldi Íslands.“ Þetta er þó ekki nýmæli í ályktunum flokksins. Löngum hefur verið ályktað á sama veg eins og til dæmis á landsfundi 2022: „Meginmarkmið í utanríkismálum eru: að verja fullveldi, sjálfstæði og öryggi þjóðarinnar; að efla hag landsins og efnahagslegt sjálfstæði með öflugri þátttöku í alþjóðaviðskiptum.“ Í ályktun landsfundar 2018 sagði: „Meginmarkmið Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálum er: Að standa vörð um fullveldi þjóðarinnar.“

Samstaða um þetta meginmarkmið var staðfest á flokksráðsfundinum og hindrar á engan hátt framgang frumvarps utanríkisráðherra um hnökralausa framkvæmd bókunar 35.

Einum kunnasta starfsmanni ríkisútvarpsins, RÚV, Gísla Marteini Baldurssyni, þótti helst í frásögur færandi eftir flokksráðsfundinn á X-síðu sinni (Twitter) „að eina sem flokkurinn talar um eftir helgina er stuðningur við hvalveiðar, andúð á Borgarlínu og fangabúðir fyrir flóttafólk“.

Á einhverri vefsíðu var sagt að með orðum sínum gerði Gísli Marteinn „gys“ að Sjálfstæðisflokknum. Það kann að hafa verið ætlun hans en heldur kárnar gamanið við skoðun staðreynda. Sjálfstæðismenn ræða vissulega þessi mál en þau ber hins vegar hæst í fjölmiðlum. Stjórnarandstæðingar telja, eða vona, að þau splundri stjórnarsamstarfinu.

Lítum á staðreyndirnar. Í stjórnmálaályktun sjálfstæðismanna eru þessi sjö megináhersluatriði: (1) stórauka græna orkuframleiðslu og byggja undir orkuskipti; (2) verja verndarkerfi flóttamanna og koma böndum á kostnað; (3) endurskoða samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins; (4) efla löggæslu og baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkaógn; (5) styrkja embætti ríkissáttasemjara; (6) stuðla að efnahagslegum stöðugleika og lækkun verðbólgu með aðhaldi í ríkisfjármálum þar sem útgjöld verði ekki aukin og (7) auka hagræðingu með fækkun stofnana, sölu ríkisfyrirtækja og fjárfestingu í stafrænni stjórnsýslu.

Framkvæmd hvers og eins þessara verkefna krefst málamiðlana við ríkisstjórnarborðið og á alþingi. Sjálfstæðisflokkurinn hreyfir þeim hins vegar öllum og rökstyður í ályktun sinni.

Gísli Marteinn vill ekki hvalveiðar, hann styður Borgarlínu og að til sé grátt svæði í útlendingamálum fyrir aktívista og þá sem fylgja svo óljósri stefnu að ekki sé unnt að ráða í hana. Hann nefnir mál sem honum eru efst í huga.

Öll málin ber stjórnmálamönnum að leiða til lykta. Þeir sem telja að þau séu ekki pólitísk viðfangsefni vilja skilja þau eftir órædd og óleyst. Sjálfstæðisflokkurinn er annarrar skoðunar. Hann vill fá botn í málin.

Matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir tók umdeilda ákvörðun í vor þegar hún frestaði hvalveiðum. Bæði var deilt um efni ákvörðunarinnar og einnig hvernig ráðherra stóð að henni. Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsforingi á Akranesi, sagði ólöglega veist að starfsöryggi og afkomu félagsmanna sinna. Eigendur Hvals hf. töldu sig eiga skaðabótakröfu á hendur ríkissjóði. Nú leggst Svandís ekki gegn hvalveiðum enda verði farið að ströngum skilyrðum. Hún skapaði sér óvinsældir hjá hvalveiðisinnum í vor en hvalveiðiandstæðingum núna. U-beygjur reynast stjórnmálamönnum sjaldan affarasælar.

Flokksráð sjálfstæðismanna samþykkti að endurskoða ætti samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Þar kann að vera um 300 milljarða króna útgjaldadæmi að ræða. Enginn veit þó með vissu í hvert allt þetta fé á að renna. Í áratugi hefur verið rætt um Sundabraut án þess að ljóst sé hvar eða hvernig yfirvöld Reykjavíkurborgar vilja að hún tengist vegakerfinu vestan Elliðaárvogs. Loforð eru gefin fyrir kosningar en efndirnar láta á sér standa. Þessa hörmulegu stöðu verður að ræða á stjórnmálavettvangi. Samgöngusáttmálinn er gerður af stjórnmálamönnum. Dauðahald í borgarlínu leysir ekki þennan vanda.

Skoðanir eru skiptar á alþingi um útlendingamál. Lagabreyting var þó samþykkt á liðnum vetri í andstöðu við minnihluta þingmanna. Nú má skilja orð þeirra sem urðu undir á þann veg að ekki eigi að virða lögin af því að ekki náðist samkomulag á þingi um búsetuúrræði þeirra sem neita að fara að lögum. Gráa svæðið sem þá myndaðist er nú notað í von um að af óvissunni spretti óvirðing fyrir nýju lagaákvæðunum í heild. Dómsmálaráðherra Guðrún Hafsteinsdóttir ætlar hins vegar að flytja frumvarp til að afmá þetta gráa svæði. Það styður flokksráð sjálfstæðismanna, að kenna lausnina við flóttamannabúðir er í anda No borders.

Menn lesa og leggja út af ályktun flokksráðsfundar sjálfstæðismanna á þann veg sem þeim þóknast. Hver og einn sér það í stjórnmálaályktunum sem höfðar til hans. Eitt atriði getur skyggt á allt annað.

Það verður spennandi að sjá hvaða stefnu stjórnmála- og fjölmiðlaumræðurnar taka nú eftir að hvalamálið er úr sögunni sem ágreiningsmál á milli flokka ríkisstjórnarinnar. Á alþingi hafa flokkslínur ekki ráðið í atkvæðagreiðslum en sveiflur hafa verið miklar, einkum vegna alþjóðlegs þrýstings. Hann er nú mun minni en áður þótt ráðherrann sveiflist.

Fyrr á árum barst þungur þrýstingur frá Washington gegn hvalveiðum. Hann kemur nú frá Hollywood. Á því er augljós munur.