Matthía Margrét Jónsdóttir fæddist á Klúku í Bjarnarfirði Strandasýslu 20. janúar 1929. Hún lést á Hrafnistu Laugarási 15. ágúst.

Foreldrar hennar voru Halldór Jón Sigurðsson, f. 26. október 1891, d. 23. mars 1965, og Jórunn Agatha Bjarnadóttir, f. 11. maí 1892, d. 10. október 1941. Matthía var þriðja yngst af 11 systkinum, hin voru Elías, Bjarni, Sigurður, Brynhildur, Magnús, Sigríður, Guðrún, Ingimundur, Sigurveig og Einar, öll eru þau fallin frá Sambýlismaður Matthíu var Guðmundur Jónsson, f. 10. október 1917, d. 12. feb. 1983, leiðir þeirra skildi. Dætur þeirra eru: 1) Anna G. Larsen, f. 5. október 1946, maki Dag Ove Larsen og afkomendur alls 11. 2) Jórunn, f. 19. ágúst 1949, maki Daníel G. Björnsson, f. 14. nóvember 1947, d. 8 apríl 2020, afkomendur þeirra 16.

Hinn 25. ágúst 1955 giftist hún Kristjáni L. Byström Jóhannssyni, f. 25 ágúst 1932, d. 10. september 2006. Dætur þeirra eru: 1) Jóhanna, f. 30. apríl 1955, maki Hörður B. Olsen, afkomendur alls 10. 2) Auður, f. 6. des. 1956, maki Guðmundur Þór Magnússon, afkomendur alls 12. 3) Sigurveig Klara, f. 31. janúar 1962, maki Jón Hlíðar Kristjánsson, afkomendur alls 12. 4) Guðný Elva, f. 8. ágúst 1969, maki Sigurbjörn Eiríksson, afkomendur alls fjórir.

Matthía starfaði mestalla ævi sína sem húsmóðir.

Útför hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Elsku amma mín.

Í sumarlandið ertu komin,

ég vona að ferðin hafi verið fín.

Ég er enn svo dofin,

mun að eilífu sakna þín.

Mér er fast í minni

fallegu orðin þín.

Þau ylja mér að sinni,

uns hittumst við á ný.

Amma, þú varst sú allra besta. Ég trúi ekki enn að þú sért farin. Ég hélt alltaf að þú yrðir eilíf; en að eilífu munt þú lifa í hjarta mér.

Fallega brosinu þínu mun ég aldrei gleyma og gleðinni í andliti þínu sem skein þegar ég kom í heimsókn. Sögurnar þínar, vísurnar og spjallið okkar. Allt frá saumaskap og til Parísar á fallegum haustdegi í allri sinni litadýrð, ó hvað okkur þótti sú hugmynd rómantísk. Ég verð að eilífu þakklát fyrir þá kveðjustund sem ég fékk með þér. Þú hélst svo fast í hönd mína og straukst mér með fingrunum. Ástin skein úr augum þér er þú horfðir á mig. Faðmlagið, þitt hlýja fang, þú hélst mér fast og hvíslaðir að mér nokkrum fögrum orðum eins og þú varst vön að gera. „Engillinn minn“ er eitt af því síðasta sem þú sagðir við mig, ég brosi í hvert sinn sem ég hugsa til þess.

Elsku amma, nú ert þú orðin engillinn minn. Fljúgðu hátt.

Þín dótturdóttir,

Telma Rut.

Elsku amma, ljósið þitt skæra er slokknað eftir 94 ár í þessari jarðvist og núna tekur næsta tilvera við. Það er alltaf sárt að kveðja ástvin þó svo þú hafir verið södd lífsdaga og heimsóknum til ömmu Möttu er lokið í bili en við hittumst áfram í huganum og hjartanu þegar við förum í minningabankann okkar.

Þú varðst elst allra kvenna í ættinni okkar fram að þessu en þú náðir líka fimm ættliðum í beinan kvenlegg á lífi og varstu ansi stolt af þeim árangri og hafðir gaman af að segja frá því. Það er hátt hlutfall af konum í ættinni okkar og þú lagðir þitt af mörkum með því að koma dætrum þínum sex á legg.

Við systur minnumst þín með kærleik og virðingu og munum allar eftir sykurskeiðunum sem þú stakkst upp í þig, fuglaáhuganum sem þú tókst alvarlega, spábollum sem allir geymdu glæsilega herramenn í einkennisbúningum, ferðalögum, börnunum okkar þar sem þú svo sannarlega hittir alltaf í mark, og heimsóknum okkar í Breiðholtið, Þorlákshöfn og að lokum á Hrafnistu.

Elsku amma, fljúgðu hátt með fuglunum sem voru þér svo kærir því núna ertu frjáls eins og fuglinn fljúgandi og getur flögrað á milli okkar til að athuga stöðuna hjá hverjum og einum.

Elsku mömmu, systrum hennar og öðrum ættingjum sendum við innilegar samúðarkveðjur, Guð geymi ykkur.

Snert hörpu mína, himinborna dís,

svo hlusti englar guðs í Paradís.

Við götu mína fann ég fjalarstúf

og festi á hann streng og rauðan skúf.

Úr furutré, sem fann ég út við sjó

ég fugla skar og líka’ úr smiðjumó.

Í huganum til himins oft ég svíf

og hlýt að geta sungið í þá líf.

Þeir geta sumir synt á læk og tjörn,

og sumir verða alltaf lítil börn.

En sólin gyllir sund og bláan fjörð

og sameinar með töfrum loft og jörð.

Ég heyri’ í fjarska villtan vængjaþyt.

Um varpann leikur draumsins perluglit.

Snert hörpu mína himinborna dís,

og hlustið, englar guðs í Paradís.

(Davíð Stefánsson)
Þínar

Margrét Kristjana, Guðrún Berta og Anna María.