Monica Wilhelm, bandarískur markvörður Tindastóls, var besti leikmaður ágústmánaðar í Bestu deild kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins. Monica fékk sex M í fjórum leikjum Tindastóls í mánuðinum, þar sem hún hélt hreinu í þrígang

Monica Wilhelm, bandarískur markvörður Tindastóls, var besti leikmaður ágústmánaðar í Bestu deild kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins. Monica fékk sex M í fjórum leikjum Tindastóls í mánuðinum, þar sem hún hélt hreinu í þrígang.

Hún fékk þrjú M fyrir frammistöðu sína í 2:0-útisigri á Þrótti úr Reykjavík 15. ágúst og svo tvö M fyrir frammistöðuna í markalausa jafnteflinu gegn Þór/KA 27. ágúst. Loks fékk hún eitt M í markalausa jafntefli liðsins við Selfoss 8. ágúst.

Á hún stóran þátt í að Tindastóll sé í sjöunda sæti með 19 stig, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti, en liðinu hefur aldrei tekist að halda sér í deild þeirra bestu. Tindastóll lék í fyrsta skipti í efstu deild árið 2021, féll en vann sér aftur inn sæti í deildinni tímabilið á eftir.

Monica, sem er 23 ára, er á sínu fyrsta tímabili sem atvinnumaður. Hún kom til Tindastóls frá háskólaboltanum í heimalandinu þar sem hún lék fyrir lið Iowa-háskólans.

Shaina og Guðný með fimm

Helstu keppinautar Monicu um nafnbótina voru þær Shaina Ashouri, fyrirliði FH, og Guðný Geirsdóttir, markvörður ÍBV. Fengu þær fimm M hvor.

Næstar þar á eftir voru þær Katie Cousins úr Þrótti, Taylor Ziemer hjá Breiðabliki, Keflvíkingurinn Melanie Rendeiro, Ásdís Karen Halldórsdóttir Val, Sandra María Jessen úr Þór/KA, Blikinn Agla María Albertsdóttir og loks Idun-Kristine Jörgensen í marki Selfoss með fjögur M hver.

Breiðablik fékk flest M

Breiðablik fékk flest M samanlagt í ágúst, eða 23 talsins í fjórum leikjum. Stjarnan var með 22, Tindastóll 20, Valur 19, Þróttur úr Reykjavík 18, Selfoss 16, ÍBV 16, Þór/KA 16, FH 16 og loks Keflavík með 13.

Morgunblaðið velur besta leikmanninn í hverri umferð fyrir sig og í fjórum umferðum ágústmánaðar voru það Stjörnukonan Andrea Mist Pálsdóttir, Selfyssingurinn Idun-Kristine Jörgensen, Guðný Geirsdóttir úr ÍBV og loks leikmaður mánaðarins Monica Wilhelm sem voru valdar bestar. Morgunblaðið gefur einkunnir fyrir alla leiki í Bestu deildum karla og kvenna. Þeir sem eiga góðan leik að mati þess sem skrifar um leikinn á mbl.is fá eitt M, þeir sem eiga mjög góðan leik fá tvö M og þeir sem eiga frábæran leik fá þrjú M fyrir sína frammistöðu í viðkomandi leik.