Það þarf ekki að koma nokkrum á óvart að bakvörður dagsins snúist um afrek karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, sem tryggði sér sæti í riðlakeppni í lokakeppni í Evrópu, fyrst íslenskra karlaliða, á fimmtudag

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Það þarf ekki að koma nokkrum á óvart að bakvörður dagsins snúist um afrek karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, sem tryggði sér sæti í riðlakeppni í lokakeppni í Evrópu, fyrst íslenskra karlaliða, á fimmtudag.

Kvennalið Breiðabliks hafði áður afrekað það að komast í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu tímabilið 2021-22, þar sem liðið var með stórliðum Parísar SG og Real Madríd í riðli.

Í gær varð ljóst hvaða lið karlaliðið myndi etja kappi við í riðlakeppni Sambandsdeildar UEFA. Þar sem Breiðablik var í fjórða flokki lá það í augum uppi að næsta ómögulegt var að fá nokkuð annað en erfiðan drátt.

Gent, Maccabi Tel Aviv og Zorya Luhansk verða andstæðingar Breiðabliks í B-riðli.

Allt eru þetta frambærileg lið, þá sér í lagi Gent, sem hefur m.a. á að skipa nígeríska sóknarmanninum Gift Orban. Hann hefur skorað mark að meðaltali í leik fyrir liðið og er á meðal eftirsóttustu framherja Evrópu.

En þó Breiðablik sé lægst skrifað í riðlinum finnst manni það alls ekki fráleit hugmynd að liðið geti strítt andstæðingum sínum.

Sem stendur er ekki ljóst hvar Breiðablik mun leika heimaleiki sína, þar sem Kópavogsvöllur stenst ekki kröfur UEFA þegar komið er í riðlakeppni.

Laugardalsvöllur ætti að vera augljós valmöguleiki fyrir heimaleikinn í september og sömuleiðis ætti hann að ganga í október.

Aðra sögu er væntanlega að segja af heimaleiknum í nóvember, þar sem góðar líkur eru á því að íslenska veðráttan verði farin að setja strik í reikninginn. Bakvörður hefur þó trú á því að farsæl lausn finnist í þessum málum, hver sem hún verður.