— Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Haustið er tími uppskeru og kálræktun er meðal þess sem Ásmundur Lárusson í Norðurgarði á Skeiðum sýslar við með sínu fólki. Blómkál, spergilkál og rófur eru í görðum þar á bæ og er sá fengur nú að mestu kominn í hús

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Haustið er tími uppskeru og kálræktun er meðal þess sem Ásmundur Lárusson í Norðurgarði á Skeiðum sýslar við með sínu fólki. Blómkál, spergilkál og rófur eru í görðum þar á bæ og er sá fengur nú að mestu kominn í hús. Mest af afurðunum fer beint í verslanir, en eitthvað fer líka beint til dæmis á veitingahús.

„Við hér í Norðurgarði vorum að færa út kvíarnar hér á bæ jafnhliða kúabúskap,“ segir Ásmundur. „Fórum meðal annars út í kálrækt til þess að renna fleiri stoðum undir afkomuna. Ég veit satt að segja ekki hvernig útkoman verður eftir þetta sumar. Mér að minnsta kosti finnst slæmt að verslanir séu með innflutt grænmeti, til dæmis hvítkál, í sínum hillum, meðan íslenskir garðyrkjubændur bíða með slíkar afurðir óseldar í nokkru magni. Vöru sem íslenskir neytendur bókstaflega kalla eftir. Þetta þarf að skoða betur.“

Bóndinn var að þvo og pakka káli þegar blaðamaður hitti hann í vikunni. Var hann þar með dótturinni Árnýju Láru. Árný er sem kunnugt er kona Daða Freys en hljómsveit þeirra, Gagnamagnið, hefur tvisvar verið fulltrúi Íslands í Eurovision. Þau búa núna í Berlín en Árný hefur verið á landinu að undanförnu og gripið í bústörf heima með foreldrum sínum; Ásmundi og Matthildi Vilhjálmsdóttur.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson