Sjónarhorn
Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@mbl.is
Þeir sem lítinn sem engan áhuga hafa á fótbolta hafa ekki komist hjá því að taka eftir því að ýmislegt mætti betur fara í karlaknattspyrnunni. Því frægari sem knattspyrnulið eru því meiri subbugangur virðist tíðkast innan þeirra. Heimsfrægir knattspyrnumenn hafa hvað eftir annað verið opinberaðir sem stórfelldir skattsvikarar, hórkarlar og leiðindafyllibyttur.
Orðatiltækið heilbrigð sál í hraustum líkama á engan veginn við um þessa knattspyrnumenn. Syndir þeirra eru þó léttvægar fundnar og þeir stimplaðir sem miklar fyrirmyndir. Aðdáendur þessara knattspyrnumanna gera engar siðferðilegar kröfur til þeirra og finnst alveg nóg að viðkomandi knattspyrnugoð hafi allt sitt vit í fótunum. Við sem viljum að vitið sé á réttum stað, sem sagt í heilabúinu, leiðum sprikl þessara manna á vellinum hjá okkur.
Kvennaknattspyrnan hefur að mestu verið laus við þau leiðindi og hneykslismál sem fylgja karlaknattspyrnunni of oft. Þegar loks kom að því að hneyksli skók kvennaknattspyrnuna lá eiginlega í hlutarins eðli að karlmaður hlyti að bera ábyrgð á því. Það er nefnilega yfirleitt töluvert meira vesen í kringum karlmenn en konur í þessari skringilegu veröld okkar.
Spánn varð heimsmeistari í knattspyrnu kvenna og auðvitað þurfti karlremba að eyðileggja það fyrir þeim. Sá er forseti spænska knattspyrnusambandsins, Luis Rubiales, sem kyssti leikmann spænska liðsins, Jennifer Hermoso, á munninn við verðlaunaveitinguna. Þessi koss er nú orðinn alræmdasti koss knattspyrnusögunnar. Reyndar virðist Rubiales vera nokkuð frumstæður karlmaður því við verðlaunaathöfnina fann hann hjá sér sérkennilega þörf fyrir að taka um hreðjar sér fyrir framan sjónvarpsmyndavélar og það í viðurvist Spánardrottningar og unglingsprinsessu. Ekki alveg samkvæmt prótókollinu.
Hermoso heyrðist síðar í myndbandi gera grín að Rubiales og kossi hans við liðsfélaga sína. Henni virðist því ekki hafa orðið meint af. Auðvitað ekki. Við lifum ekki á Viktoríutímum þar sem ætlast var til að kona félli nánast í öngvit ef karlmaður kyssti hana án hennar samþykkis. Nútímakonur eru ekki brothættar verur sem þola ekki hnjask, þær eru fullfærar um að svara fyrir sig.
Það er engin ástæða til að stimpla Rubiales sem kynferðisglæpamann vegna stutta kossins óleyfilega, eins og sumir eru æstir í að gera. Rubiales sýndi af sér dónaskap og ruddaskap sem fáránlegt er að leggja að jöfnu við alvarleg kynferðisafbrot. Hann hefði auðveldlega getað leyst málið með því að biðjast afsökunar á kossinum en það hvarflaði ekki að honum. Það er eins og honum finnist að sú kona sem hann kýs að kyssa eigi að vera fjarska stolt af því að fá að vera sú útvalda. Svo virðist hann ekki vera sérlega vel gefinn því varnir hans í málinu voru eiginlega eins heimskulegar og þær gátu orðið. Hann og knattspyrnusambandið hótuðu Hermoso málsókn fyrir að segja að hún hefði ekki gefið samþykki fyrir kossinum. Vörn hans byggðist einnig á því að hún hefði lyft honum upp til að missa örugglega ekki af því að vera kysst.
Einhverjir vilja kannski halda því fram að Rubiales hafi ekki fengið sérlega gott uppeldi. Mamma hans er ekki sammála því, henni finnst svívirðilega farið með sinn góða dreng og fór í hungurverkfall í kirkju. Þar opinberast enn sú víðkunna staðreynd að mömmur hlaupa nær ætíð í vörn fyrir vandræðadrengina sína, sem í þeirra augum geta ekki gert neitt rangt þótt flestir aðrir viti að þeir eru gallagripir.
Málið er orðið tóm della, minnir helst á illa skrifaðan farsa sem engin leið er að taka alvarlega. Heimsmeistaratitillinn skiptir ekki nokkru máli lengur. Í framtíðinni, þegar minnst verður á sigur Spánar í heimsmeistarakeppninni í kvennaknattspyrnu, verður um leið ætíð minnst á kossinn. Jafn kaldhæðnislegt og það er, þá má segja að karlremba hafi rænt heimsmeistaratitlinum í knattspyrnu af kvennaliði Spánar.