— Morgunblaðið/Eggert
Það er ekki endilega freistandi að nefna átökin í Úkraínu og þróun mála þar í því sem næst hverju einasta bréfi. En það er einnig snúið að sleppa því. Þetta er jú stærsti atburður samtímans, sem aldrei skyldi verið hafa og Vestrið, sem slíkt, ber ekki meginábyrgðina á þeirri þróun.

Það er ekki endilega freistandi að nefna átökin í Úkraínu og þróun mála þar í því sem næst hverju einasta bréfi. En það er einnig snúið að sleppa því. Þetta er jú stærsti atburður samtímans, sem aldrei skyldi verið hafa og Vestrið, sem slíkt, ber ekki meginábyrgðina á þeirri þróun.

Skrattinn kom úr sauðarleggnum

Evrópa var þó óneitanlega bæði vanbúin og óviðbúin og beinlínis tekin í rúminu og þeir í Hvíta húsinu vestra höfðu ekki heldur sannfærandi skoðanir á því hvort líklegt væri að stríð skylli á fyrr en aðeins vika var í það.

Donald Trump fyrrverandi forseti var harðlega fordæmdur, en þó ekki upphátt, af evrópskum leiðtogum þegar hann fullyrti að ríki þeirra hefðu algjörlega forsmáð það að standa við loforð sín og fyrirheit um lágmarksframlög til uppbyggingar Nató af sinni hálfu. Bandalagið er jú fyrst og síðast til þess að tryggja Evrópu gegn árás óvinanna.

Hvað sem menn ætluðu um Trump og hreinskilnar og jafnvel ögrandi yfirlýsingar hans um óþolandi vanskil Natóríkjanna á sínum framlögum þá kom í ljós að þær voru, í þessu tilviki, kórréttar. Stóru ríkin í Nató, Evrópumegin, Þýskaland og Frakkland, höfðu algjörlega vanvirt að halda uppi lágmarksstyrk og voru fjarri því að standa við sitt. Trump krafðist þess þá að þessi ríki myndu ná sínu marki á næstu tveimur árum og verja eftir það 2% af útgjöldum sínum til varna í tengslum við sameiginlega varnarstefnu Nató, en framlagi af þeirri stærðargráðu hafði margoft verið heitið en fjarri því að við það hafi verið staðið.

Öflugustu evrópsku Natóríkin muldruðu samþykki sitt í heyranda hljóði og sögðust myndu gera áætlanir í framhaldi af þessum óneitanlega tímabæru ákúrum Hvíta hússins, sem við yrði að bregðast. En í raun gengu áætlanir þeirra út á það að gera lítið sem ekkert og bíða þennan kjaftfora rauðhaus af sér. Það mat gekk upp og Evrópulið Nató var því áfram algjörlega í varnarlegum vandræðum þegar að Rússar gerðu sínar árásir á Úkraínu í annað sinn.

Í fyrri hálfleiknum var Obama í Hvíta húsinu og hreyfði hvorki legg né lið en skipaði Joe Biden varaforseta sem erindreka sinn í Úkraínu, en í ljós hefur komið að þar áttu þeir Biden-feðgar heldur betur persónulegum verkefnum að sinna og sóttu fast þann sjó.

Vonbrigði bandamanna

Á evrópskum vettvangi var á hálflokuðum vefjum rætt nokkuð opinskátt um að gagnsóknarfyrirætlanir Úkraínu hefðu óneitanlega valdið nokkrum vonbrigðum því að miklu minna hefði orðið úr en gefið hafði verið til kynna. Utanríkisráðherra Úkraínu, Dmítró Kuleba, var fjarri því að vera skemmt og brást raunar harkalega við. Hann fordæmdi þessar aðfinnslur og sagði á þá leið að gagnrýnendum og aðfinnslugörpum væri best að mæta sjálfir á stríðsvettvang þakinn jarðsprengjum og sýna þar hvað þá yrði úr þeim.

Viðbrögð ráðherrans voru skiljanleg í ljósi allra þessara miklu atburða. En sama mátti segja um þær umræður sem fóru svona illa í skap hans. Það er allt rétt, að yfirstjórnin í Kænugarði hafði ekki fengið öll þau vopn sem hún hafði beðið um. En þeir hafa þó með seiglu sinni fengið í sinn hlut sumt sem Vesturveldin höfðu áður sagt að þeir fengju aldrei vegna þess að notkun þess á ófriðarbálið yrði til þess fallið að „stigmagna“ átökin. Með öðrum orðum að draga löndin, sem veita Úkraínu sem mestan styrk beint eða óbeint beint, inn í ófriðinn. Slíkt umboð hafa leiðtogar á Vesturlöndum ekki fengið frá þjóðum sínum.

Allar aðstæður í Úkraínu munu breytast til hins verra um mánaðamótin október/nóvember þar sem veðurfarsaðstæður verða þá óhagfelldari fyrir hernaðinn. Á það er að vísu bent að slíkar spár hafi ekki gengið eftir í fyrra, enda hafi veðurskilyrðin verið miklu betri en vænta mátti og það var undantekningin sem sannaði regluna, eins og sagt er. En það eru að verða önnur og erfiðari tímamót. Hinar ógnvænlegu refsiaðgerðir gagnvart Rússum hafa í litlu gengið eftir. Kína er stærsti kaupandi að olíu og gasi frá Rússlandi, enda hefur stjórnin þar aldrei lofað neinu öðru og er ekki aðili að refsiaðgerðunum. En næst stærsti kaupandi, með um helmings kaup á bönnuðum vörum, miðað við Kína, eru ríki Evrópusambandsins (ESB)!

Ringulreið og mótsagnir

En ríkjum þar er auðvitað vorkunn. Eins og Ambrose Evans Pritchard, efnahagsritstjóri The Daily Telegraph í London, lýsir ástandi í Þýskalandi nú, sem hann segir einkennast af ringulreið og mótsögnum:

„German economic policy has gone stark raving mad.“ (Þýsk efnahagsstefna hefur gengið gersamlega af göflunum.)

Þýski seðlabankinn hefur rétt einu sinni tekið ráðin af Seðlabanka evrunnar og fer sínu fram þar sem hann hafnar stefnu Lagarde seðlabankastjóra. Við þetta allt bætist að bæði stjórnkerfin í Þýskalandi og Frakklandi eru í uppnámi vegna ástandsins í hluta Afríku. Hver hershöfðinginn af öðrum hrekur vini þeirra úr embætti, sem sumir höfðu setið í í 60 ár, að vísu ekki endilega með glæsilegum árangri.

Kokkurinn og stríðshetjan Prigósjín, sem talið er að hafi hlotið illan endi, var nýkominn með sínum traustustu mönnum frá Afríku þegar aðallestarstjórinn í Kreml, Pútín, taldi að Prigósjín væri kominn á sína endastöð eftir gagnleg störf uns hann fór óvænt út af sakramentinu, sem Pútín átti síðasta orðið um.

En það eru ekki bara þeir baráttubræður á meginlandinu, Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Olav Scholz Þýskalandskanslari, sem sjá varla út úr augum fyrir vandræðum, en efnahagsmál kanslarans virðast þó í enn verra uppnámi, svo stefnir í kreppu af einhverju tagi í bland við stjórnlitla verðbólgu. Á meðan þýðir lítið fyrir þá að leita ásjár hjá foringja Biden í Washington því hans vandamál verða skrítnari með hverjum deginum.

Enn dettur Biden

Nú er komið á daginn að Biden sem „aldrei ræddi, heyrði eða skipti sér af fjármálum Hunters litla“ var nýlega búinn að viðurkenna að hann hefði talað svona 20 sinnum við fantana sem voru úti að borða með drengnum og hann hefði ekki hugmynd um hvort það væri fyrir eða eftir að Hunter fékk 5 milljónir dollara tvívegis, því að hann hefði aldrei rætt við þessa menn, nema í þessi 20 skipti og þá aðeins um veðrið. Þetta voru sem sagt gestir Hunters og kom í ljós að þeir voru sérstakir áhugamenn um veðrið, svo að það var það sem hann ræddi við þá um, eins og eðlilegt er.

En nú eru komnir í ljós tölvupóstar sem Biden notaði í samskiptum við Hunter og skrifaði undir alls konar nöfn, en ekki þó Biden. Hefur þingið beðið um að fá að sjá strax þessa sérkennilegu pósta en bókaverðirnir í skjalasöfnunum sem eru búnir að finna skjölin telja sig þurfa eitt ár til að koma þeim á milli húsa í Washington.

Þeir hafa sjálfsagt lengi haft risaskjaldbökur í mikilvægum sendiferðum fyrir sig og þær þurfa auðvitað tíma til að rölta á milli og læra á gatnakerfið og annað sem er fullkomlega eðlilegt í hættulegum heimi. Umferð er þar mikil og skjaldbökur lengi á leið yfir gangbraut, eins og allir vita sem hafa séð til þeirra þar.