Styttan af hertoganum af Wellington, sem stendur framan við Nútímalistasafnið í Glasgow (GOMA), skartar litríkum umferðarkeilum. Önnur þeirra er á höfði styttunnar og hin undir öðrum handleggnum. Samkvæmt upplýsingum frá fréttaveitunni AFP er talið að um hafi verið að ræða kveðjugjörning frá listamanninum Banksy, sem í sumar hélt sína fyrstu einkasýningu í 14 ár hjá GOMA. Fram hefur komið í breskum fjölmiðlum að talið sé að Banksy hafi valið að sýna hjá GOMA vegna fyrrnefndrar styttu, en síðustu 40 árin hefur umferðarkeilum reglulega verið komið fyrir á höfði hertogans og höfði hestsins og bakhluta borgarbúum til skemmtunar.