Frammistaða Breiðabliks verður vonandi lyftistöng fyrir fótbolta á Íslandi

Breiðablik náði þeim árangri á fimmtudag að verða fyrsta íslenska karlaliðið í knattspyrnu til að tryggja sér sæti í riðli í Evrópukeppni félagsliða eða Sambandsdeild UEFA eins og hún kallast. Breiðablik hefur á að skipa öflugu liði og spilar agaðan og skilvirkan fótbolta. Þessi árangur er afrakstur þess og um leið ákveðinnar heppni með andstæðinga, sem geta verið misviðráðanlegir.

Við fyrstu sýn mætti ætla að nú hafi Breiðablik stungið önnur lið á Íslandi af og skilið þau eftir í rykmekki. Fréttin á fimmtudag var ekki aðeins sú að Breiðablik hefði unnið, heldur að liðið hefði aldeilis dottið í lukkupottinn og orðið sér úti um hálfan milljarð króna. Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks sagði meira að segja eitthvað á þá leið eftir leikinn að nú yrði að halda skynsamlega á málum til að þetta fé nýttist félaginu til framtíðar. Svo má ekki gleyma því að það mun kosta sitt að spila í riðlinum. Það er dýrt að spila á útivöllum og svo gæti jafnvel farið að heimaleikirnir yrðu leiknir utan landsteinanna.

Krafan um árangur er alltaf hávær í íþróttum. Félögin reyna að verða við henni með því að tefla fram sem öflugustu liði og það getur kostað sitt. Rekstur íþróttaliða, hvort sem það er í fótbolta, handbolta eða körfubolta, er langt frá því að vera sjálfbær hér á landi. Laun íþróttamanna fara hækkandi og borga þarf fyrir dómgæslu og utanumhald. Þar við bætist kostnaður við íþróttamannvirki og viðhald þeirra. Áhorfendum fer hins vegar fækkandi og tekjur af sjónvarpsrétti duga ekki til að fylla upp í eyðuna. Oft er grátlega fámennt í stúkum landsins á leikjum. Lið þurfa því á sterkum bakhjörlum að halda eigi dæmið að ganga upp – eða komast á flug eins og Breiðablik hefur gert nú í sumar.

Í Evrópu hefur verið komið upp kerfi í fótbolta sem hleður undir ákveðin lið á meðan önnur eru dæmd til meðalmennsku eða botnbaráttu. Besta dæmið er sennilega Þýskaland þar sem Bayern München hefur orðið meistari ellefu sinnum í röð og spennan ekki ýkja mikil. Annars staðar er ástandið kannski skárra, en samt skiptast að jafnaði tvö til fjögur lið á um að hampa meistaratitlum. Önnur lið eiga ekki séns og toppliðin, hin svokölluðu stórveldi knattspyrnunnar, eru farin að tala um að stofna sérstaka ofurdeild. Sú umræða hefur hingað til verið kveðin í kútinn, en dropinn holar steininn.

Sú var tíðin að í Evrópu fór fram keppni meistaraliða og meistararalið hvers lands voru jafn rétthá þegar dregið var úr pottinum. Fyrir vikið komu hingað stórlið með stjörnum á borð við Eusebio og Michel Platini og urðu að gera sér að góðu að spila við áhugamenn á útkjálka.

Misræmið á milli útgjalda og tekna í íþróttum kemur kannski best fram í körfuboltanum. Þar hafa laun leikmanna hækkað hratt. Ein ástæðan er sú að engin mörk eru á fjölda erlendra leikmanna frá Evrópu. Freistingin hjá liði, sem vill vera samkeppnishæft, til að ráða til sín erlenda leikmenn er mikil. Verið getur að fyrir vikið sé leikinn betri körfubolti, en það er þó ekki víst. Víst er hins vegar að útgjöldin bólgna út án þess að tekjurnar vaxi að sama skapi. Einnig er víst að ungir leikmenn liðanna eiga ekki jafn greiða leið úr yngri flokkunum í meistaraflokk og áður. Hætt er við því að áhuginn dofni þegar leikmenn, sem áhorfendur þekkja ekki, koma og fara. Þá kviknar sú hætta, fái ungir leikmenn ekki að spila og þroskast, að bakslag komi í þá grósku, sem hefur verið í íslenskum körfubolta. Forráðamenn liðanna vita af vandanum, en er fyrirmunað að snúa bökum saman um að stöðva þessa þróun.

Einhverjum kann að finnast óviðeigandi að velgengni Blika á fimmtudag sé tilefni vangaveltna af þessu tagi, en þær eiga þó fullt erindi. Keppni í hópíþróttum er ekki spennandi ef vantar verðuga andstæðinga. Eftir því sem jafnræðið er meira verður áhuginn meiri.

Það þýðir ekki að berin séu súr. Þau eru sæt og Breiðablik á hrós skilið fyrir frammistöðuna og óskir um gott gengi í verkefninu fram undan. Þá verður þetta vonandi lyftistöng fyrir knattspyrnu hér á landi því að ævintýri Kópavogsliðsins sýnir að ýmislegt er hægt.