Hallbjörn Sigfússon Bergmann fæddist 2. nóvember 1932. Hann lést 14. ágúst 2023.

Útför Hallbjörns fór fram 22. ágúst 2023.

Fallinn er til foldar einn af okkar góðu og gegnheilu Flateyingum sem unni Flatey ofar öllu.

Hallbjörn S. Bergmann eða Halli eins og við dósakarlar Flateyjarkirkju kölluðum hann alltaf.

Dósakarlar er þröngur hópur karla sem jafnan koma saman að áliðnu sumri til að telja og búa til flutnings afrakstur dósasöfnunar sumarsins fyrir Flateyjarkirkju og þar var Halli alltaf fremstur meðal jafningja. Svaraði fyrstur kallinu í dósaferðina, fyrstur til að hefja talningu árla morguns og skildi ekkert í því að við hinir skyldum mæta svo seint sem um tíuleytið, sem verkplanið sagði þó til um.

Jafnan fórum við nokkrir saman í bíl frá Reykjavík til Stykkishólms og það var segin saga að alltaf sagði Halli okkur ótrúlega margar sögur úr Flatey þegar hann var að alast þar upp. Ferðin leið því sem örskotsstund og höfðu menn gaman af. Restina sagði hann okkur síðan um borð í Baldri út í Flatey.

Þegar Halli var að nálgast áttræðisaldurinn fengum við fréttamann hjá Ríkisútvarpinu til að hringja í okkur út í Flatey og inna tíðinda af dósasöfnun kirkjunnar. Halli var fenginn til að tala við fréttamanninn og fór hann þar heldur betur á flug. Sagði skilmerkilega frá því „að hér drykkju menn Guði til dýrðar og kirkjunni til fjáröflunar“ og nefndi til sögunnar ríflega dósatölu sem komið hafði í söfnunina þetta árið.

Við hinir sögðum Halla síðan eftir viðtalið að hann hefði farið heldur frjálslega með tölur í þessu sambandi. Þá vildi Halli, hinn gegnheili Flateyingur, endilega hringja aftur í fréttamanninn og leiðrétta töluna. Við sögðum honum að það væri alger óþarfi enda sagan og talan góð.

Það er mikil sorg að missa þennan góð vin, dósafélaga og sagnameistara og við söknum hans mikils.

Við sendum Eddu, Úlfi og fjölskyldu Halla okkar hjartnæmustu samúðarkveðjur og munum minnast Halla sérstaklega í næstu dósaferð. Gakktu á Guðs vegum.

F.h. dósakarla Flateyjarkirkju,

Gunnar í Eyjólfshúsi,
Gunnar Sveinsson.