Sigurður Þórólfsson fæddist 11. nóvember 1932. Hann lést 20. ágúst 2023. Útför fór fram 1. september 2023.
Ég naut þeirrar gæfu á yngri árum að fá að kynnast náið Dalasýslu, þessu sögufræga landsvæði, þar sem margir andans menn hafa haft dvöl eða fæðst, náttúru þess, kostum og göllum, en einnig og ekki síður því fólki sem þar býr. Samfélagið einkenndist af velvild og hófsemd, þar sem fólk fór vel með allt sitt, fjármálin, umhverfið og bústofninn, sannkallað ræktunarfólk af kunnáttu. Ég bý að þeirri reynslu að hafa kynnst þessu góða fólki og umhverfi þess. Einn af þeim sem forystu höfðu í þessu samfélagi og ég kynntist náið er nú fallinn, Sigurður Þórólfsson bóndi í Innri-Fagradal.
Sigurður var í forystu fyrir sína sveit, Saurbæjarhrepp, og fyrir samtökum bænda í héraði, Búnaðarsambandi Dalamanna. Ég var starfsmaður Búnaðarsambandsins sem héraðsráðunautur og unnum við Sigurður náið saman að framfaramálum héraðsins. Sigurður var afar góður húsbóndi, sanngjarn, tillögugóður og sá ávallt hið jákvæða til lausnar málum, sannkallaður héraðshöfðingi. Þá var Sigurður hvers manns hugljúfi á samkomum, spaugsamur og söngmaður góður. Tónlist var honum í blóð borin, var organisti í Staðarhólskirkju í Saurbæ um árabil.
Eftir að ég hvarf af vettvangi Dalamanna lágu leiðir okkar Sigurðar saman á Búnaðarþingi, þar sem við vorum samtíða um árabil. Þar kynntist ég frekar kostum hans sem samþingsmanns, en ekki sem húsbónda. Þau kynni efldu enn frekar jákvæða skoðun mína á ágæti Sigurðar sem félagsmálamanns.
Það á fyrir okkur að liggja að kveðja þennan heim. Það fylgir því ávallt söknuður að sjá á eftir ástvinum. Við Rósa sendum eftirlifandi eiginkonu Sigurðar, Erlu Karlsdóttur, samúðarkveðjur með þökk fyrir góð kynni og samveru.
Jón Hólm Stefánsson.
Sunnudaginn 20. ágúst var ég á ferð um Laxárdal þegar ég frétti að Sigurður væri látinn. Ég hafði ekki um allmörg ár verið í neinum samskiptum við hann en minningarnar um góðan og gegnan samstarfsmann söfnuðust upp.
Fyrstu fundir okkar voru haustið 1984 þegar ég tók að mér aðalsýningar á hrútum í sýslunni og byrjaði þær með kvöldsýningu í Saurbænum sem var fjölsótt og stóð langt fram á nótt. Þá var eftir ferð á næturstað sem var í boði Sigurðar í Fagradal. Þar var ekki í kot vísað. Ég fékk góðar veitingar og uppbúið rúm þar sem ég gat hvílst þar til sól reis innan nokkurra tíma. Áður hafði ég áreiðanlega átt orðaskipti við Sigurð á fundum sem nú eru gleymdir en ekki þessi glaðværi, mælski og glæsilegi bóndi.
Þarna kynntist ég hinum myndarlega búskap Sigurðar sem var fjárbúskapur á þessari landkostajörð við innanverðan Breiðafjörð. Jörð og land sem hann áreiðanlega bæði virti og elskaði. Fjárræktin var frábær. Þarna bjó hann með afurðamikið og vel ræktað fé. Síðasta minning mín um Sigurð tengist líka sauðfé, þegar hann, eftir að hann var að mestu hættur fjárbúskap fyrir meira en áratug, sýndi mér tveir glæsilegar svartar gimbrar sem hann þá átti.
Í ferðinni 1984 orðaði Sigurður við mig vinnu að ráðunautarstörfum hjá Dalamönnum en þeir höfðu komið mér miklu betur fyrir sjónir en ég hafði þorað að vona eftir að hafa alist upp við í nær áratug frásagnir Halldórs Pálssonar af þeim. Ekkert varð af störfum þá en nokkrum árum síðar voru Búnaðarsamtök Vesturlands í fæðingu 1989 og þá mest fyrir áeggjan Sigurðar kom ég í hálft starf hjá þeim til eins árs sem fyrsti ráðunautur þeirra. Samstarf við Sigurð og alla bændur var mjög ánægjulegt og bar þar aldrei skugga á.
Minningar mínar um ánægjulegt samstarf við Sigurð tengjast samt mest vinnu einnar ráðherraskipaðrar nefndar um vanda sauðfjárræktarinnar árið 1987. Þar var Sigurður betri en enginn. Hann þekkti vandann að sumu leyti betur en við hinir vegna þess að hann brann á eigin skinni en hann var ákaflega ráða- og tillögugóður og mjög ánægjulegt að vinna með honum þarna. Hann vann gott starf eins og alls staðar þar sem hann kom að verki. Skýrslan hafði engin áhrif. Þarna sönnuðu stjórnmálamennirnir samt í öllu falli að þeir meintu nákvæmlega ekkert með kjaftæði sínu um að sauðfjárræktin væri þáttur í viðhaldi byggðar í landinu. Það var hins vegar hugsjónamál Sigurðar.
Þannig eru minningar mínar um Sigurð tengdar góðum tilfinningum um hugsjónamann öflugrar sauðfjárræktar og dreifðra byggða á Íslandi.
Um leið óska ég bændum að á komandi árum eignist þeir aftur glæsilega, glaðværa og gáfaða forystumenn eins og Sigurður var dæmi um. Þá mun landbúnaður á Íslandi aftur rísa úr því lágnætti sem hann býr við. Jafningja Sigurðar má finna hjá konum og körlum í sveitum landsins.
Ég lýk þessum fátæklegu orðum með innilegum samúðarkveðjum til nánustu aðstandenda Sigurðar. Með honum kveðja íslenskir bændur góðan dreng.
Jón V. Jónmundsson.