Una Emilsdóttir
Una Emilsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ráðlagt er að leita að sólarvörn sem er án ilmefna og án skaðlegra efna fyrir menn og náttúru.

Lára G. Sigurðardóttir

Sólin er okkur lífsnauðsynleg, enda þrífst ekkert líf hér á jörðu án hennar. Utandyra er hún mikilvæg árla dags til að endurstilla lífsklukkuna okkar, sem stjórnar margs konar líkamsstarfsemi. Á sama tíma er mikilvægt að vernda húðina gegn sólskaða.

Með aukinni vitund um skaðsemi útfjólublárra geisla hefur notkun sólkrema aukist gríðarlega. Aftur á móti hefur lítið verið fjallað um hugsanleg neikvæð heilsufarsáhrif sem tengjast sumum sólkremum.

Börn sérstaklega viðkvæm fyrir UV-geislun

Óþroskað ónæmiskerfi, þunn húð og hærra hlutfall yfirborðsflatarmáls miðað við líkamsþyngd gerir börn viðkvæmari fyrir skaðlegum áhrifum UV-geisla. Af sömu ástæðu eru börn viðkvæmari fyrir skaðlegum áhrifum umhverfisefna. Því er mikilvægt að vernda börn gegn UV-geislum ÁN skaðlegra efna.

Um sólkrem

Sólkrem innihalda UV-síur, sem koma að hluta til í veg fyrir að UV-geislar skaði erfðaefni húðfrumna og brjóti niður stoðvef húðarinnar, en þessi ferli hraða öldrun og auka líkur á húðkrabbameinum.

UV-síur hafa mismunandi eiginleika og er gjarnan skipt í tvo flokka: 1) kemísk eða lífræn efni (e. chemical, organic) og 2) steinefni eða ólífræn efni (e. mineral, inorganic). Þessar kemísku valda mönnum áhyggjum.

Áhrif á heilsu

Sumar UV-síur geta verið skaðlegar heilsu manna. Ástæðan er sú að þær eiga greiða leið inn í blóðrásina gegnum húðina. Kemískar UV-síur mælast í blóði eftir áburð og í hækkandi styrkleika með hverjum deginum sem þær eru bornar á húðina og mælast enn í blóði vikum eftir síðasta áburð – í meiri styrkleika en talið er öruggt. Eins hafa efnin mælst í brjóstamjólk og fylgju mæðra sem bera á sig sólarvörn.

Í umfangsmikilli yfirlitsgrein er útlistað hvernig UV-síur geta mögulega haft skaðleg áhrif á heilsu með því að valda hormónaójafnvægi og trufla starfsemi líffæra. Þar sem sumar síur geta borist til heilans í gegnum heilablóðþröskuld (því þær eru fitusæknar og heilinn er fituríkur vefur) hefur auk þess verið bent á að þær geti valdið röskunum í taugakerfi, sérstaklega hjá börnum, þar sem ný taugamót myndast hratt. Þá geta UV-síur safnast fyrir í ýmsum líffærum líkamans, sem getur sett af stað bólguferla, og sumar taldar geta truflað kynþroska með því að seinka honum hjá drengjum en flýta hjá stúlkum. Ennfremur benda rannsóknir til að UV-síur hafi áhrif á tjáningu gena, til að mynda fyrir hormónaviðtaka, og allt að hundruð gena sem stýra taugaþroska í heilanum og tengjast efnaskiptum í lifrinni.

Eru einhver sólkrem örugg?

Úttekt matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna (FDA) frá árinu 2019 sýndi að af 16 UV-síum sem algengt er að finna í sólarvörnum eru einungis tvær taldar öruggar; steinefnasíurnar sinkoxíð og títaníumdíoxíð. Ástæðan er sú að þær liggja utan á húðinni og berast lítið sem ekkert inn í líkamann. Sinkoxíð hefur breiða verkun gegn UVA- og UVB-geislun en títaníumdíoxíð ver húðina aðallega gegn UVB-geislun. Sólarvarnir með steinefnasíum þolast venjulega vel og henta því einnig viðkvæmri húð.

Helsti ókostur steinefnasía eru sá að þær eru framleiddar sífellt smærri til að draga úr hvítri slikju sem gjarnan fylgir þeim. Örlitlar síur af þessu tagi nefnast „nanósíur“, sem er hættara við að komist inn fyrir skinnið. Upptakan verður svo meiri ef húðin hefur veikt varnarlag, t.d. vegna sólbruna, sára eða húðsjúkdóms. Eins er hætt við að anda að sér efnunum þegar sólkrem koma í úðaformi, og þá er aukin hætta á að UV-síur berist beint til heilans gegnum lyktartaugina. Hversu öruggar steinefnasíur á nanóformi eru verður framtíðin þó að leiða í ljós.

Hvaða sólarvörn á að velja?

Ráðlagt er að leita að sólarvörn sem er án ilmefna og án skaðlegra efna fyrir menn og náttúru (sjá töflu 1). Gott er að leita að vottunum eins og Svansmerkinu, Asthma Allergy Nordic-merkinu, Allergy Certified-merkinu eða EWG-stimplinum.

Almennt er mælt með að velja steinefnablöndur sem eru taldar öruggar fyrir kóralrifið og frásogast ekki gegnum húðina. Slíkar síur veita breiðvirka vörn, virka samstundis eins og varnarlag á húðinni, og eru á sama tíma umhverfisvænar.

Það er góður vani að lesa innihaldslýsingar sólkrema, en það getur verið býsna flókið. Nú er hægt að nota leitarvélar í snjallsímaforritum, og mælum við með að fólk kynni sér slíkar lausnir. Þær eru ekki fullkomnar eða villulausar, en gefa góða hugmynd um öryggi vara á auðveldan og skjótan hátt. Þar má nefna forrit eins og Kemiluppen, ThinkDirty, Skinimalist og HealthyLiving frá European Working Group (EWG) svo eitthvað sé nefnt.

Allt er gott í hófi

Almenn skynsemi er gott veganesti og læknar ráðleggja eftir bestu þekkingu hverju sinni. Flestir sérfræðingar mæla með að bera sólkrem á húðina, en við teljum mikilvægt að vera upplýst um þau neikvæðu áhrif sem UV-síur geta haft á menn og náttúru. Þar til mjög nýlega lögðum við einnig áherslu á að bera skyldi ríkulega af sólarvörn á bæði fullorðna og börn, óháð tíma dags. Nú hafa áherslur okkar breyst í takt við nýjar upplýsingar, þökk sé kollegum og vísindamönnum sem leitast stöðugt við að uppfæra þekkingu okkar hinna.

Þar til orsakasambönd og áhrif verða sönnuð að fullu mælum við eindregið með að tileinka sér hugarfarið „allur er varinn góður“. Það verður forvitnilegt að fylgjast með komandi rannsóknum um áhrif sólarljóss. Við fylgjumst spenntar með.

Una er sérnámslæknir í umhverfislæknisfræði. Lára er læknir og doktor í lýðheilsuvísindum.

Höf.: Lára G. Sigurðardóttir