Sólarupprás Reykjavík vaknar.
Sólarupprás Reykjavík vaknar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einhverja nóttina koma skógarþrestirnir / að tína reyniber af trjánum / áður en þeir leggja í langferðina yfir hafið, / en það eru ekki þeir sem koma með haustið / það gera lítil börn með skólatöskur.“ Þannig orti eitt af merkari skáldum Íslands á síðustu öld, Vilborg Dagbjartsdóttir

Tungutak

Ari Páll Kristinsson

ari.pall.kristinsson@arnastofnun.is

Einhverja nóttina koma skógarþrestirnir / að tína reyniber af trjánum / áður en þeir leggja í langferðina yfir hafið, / en það eru ekki þeir sem koma með haustið / það gera lítil börn með skólatöskur.“

Þannig orti eitt af merkari skáldum Íslands á síðustu öld, Vilborg Dagbjartsdóttir. Þessa dagana eru nemendur að stíga fyrstu sporin á nýju skólaári. Vilborg var kennari í Austurbæjarskólanum og þar tók hún í rúmlega fjörutíu haust á móti litlum börnum með skólatöskur.

Ljóð Vilborgar vísar einkum til yngstu nemendanna sem mæta með eftirvæntingu og kannski kvíðahnút í skólann að hausti.

Aftur á móti hafa morgunsyfjuð börn í efstu bekkjum grunnskóla á síðustu árum notið athygli sérfræðinga í svefnvenjum. Þeir hafa kynnt rannsóknir sem benda til þess að margir unglingar fái ónógan svefn. Þar sé ekki endilega um að kenna leti þeirra eða drolli fram á nótt heldur stafi morgunsyfjan helst af breytingum á líkamsklukkunni við kynþroskaaldur svo að þeim henti hreinlega ekki sama vökumynstur og fullorðnum.

Morgunstund gefur gull í mund er alkunnur orðskviður, en sjálfsagt er hvorki meitlað í stein hvenær morgunsins né hverjum vekjaraklukkan glymur.

Morgunsyfja hefur ávallt fylgt mannkyni eins og sést á fornum spakmælum og heilræðum þar sem sérstök hvatningarorð virðist hafa þurft um þá meintu dygð að rísa árla úr rekkju. Frá aldaöðli hafa þeir verið smánaðir sem sofa fram eftir.

Í Hávamálum er bent á að ekki dugi að lúra ef ætlunin er að næla í eigur annarra eða jafnvel koma þeim fyrir kattarnef, og raunar gegni sama máli um hversdagslegt bústang:

„Ár skal rísa / sá er annars vill / fé eða fjör hafa. / Sjaldan liggjandi úlfur / lær um getur / né sofandi maður sigur.“

„Ár skal rísa / sá er á yrkjendur fáa, / og ganga síns verka á vit. / Margt um dvelur / þann er um morgun sefur. / Hálfur er auður und hvötum.“

Úr seinni vísunni má lesa að heilræðið eigi einkum við þar sem starfslið er fámennt („fáir yrkjendur“) en um leið skín í gegn það undantekningarákvæði að höfðingjar og stórbændur, með yrkjendafjöld, þurfi ekki að taka þetta til sín frekar en þeim sýnist.

Íslensk málsháttasöfn geyma nokkur tilbrigði frá síðari öldum við sama stef. Þar má nefna Árla skal rísa sá afla vill bráðar og Árla á fætur bú bætir. Einnig má greina vissa skírskotun til þekkingaröflunar: Sá verður margs vís sem árla rís. Af Morgunstund gefur gull í mund eru þekkt afbrigði með orðunum hefur, er eða ber í stað gefur. Til er annar orðskviður með sama þema sem einnig nefnir gull: Árla skal rísa sá gull vill í götu finna.

Eins og dæmin bera með sér einkennast málshættir ekki aðeins af hinu knappa formi sem geymir einhvers konar spekiorð eða (meint) sannindi, heldur eru stuðlar ósjaldan notaðir ásamt rími til áherslu, og þannig festast þeir líkast til betur í minni.