Stjórnstöð Efla á starf almannavarna á landsvísu á næstunni.
Stjórnstöð Efla á starf almannavarna á landsvísu á næstunni. — Morgunblaðið/Eggert
Stefnt er að því að almannavarnir í öllum landshlutum fái starfsmann í fullt starf á næstunni. Þessir starfsmenn verða hluti af teymi á landsvísu sem Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnarsviði ríkislögreglustjóra, mun stýra

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Stefnt er að því að almannavarnir í öllum landshlutum fái starfsmann í fullt starf á næstunni. Þessir starfsmenn verða hluti af teymi á landsvísu sem Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnarsviði ríkislögreglustjóra, mun stýra.

Þetta er hluti af átaki til að stórefla lykilþætti í íslenskri löggæslu sem stjórnvöld kynntu fyrr á árinu. Þá var sett fram fjórþætt aðgerðaplan sem meðal annars fól í sér að bæta við um 80 stöðugildum til að mæta veikleikum og efla löggæslu um allt land. Ráðning starfsmanna til almannavarnarnefnda fellur undir hóp tíu sérfræðinga sem eiga að bæta margvísleg löggæslustörf, þar á meðal almannavarnir og samfélagslöggæslu.

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi kynntu nýverið áform um ráðningu starfsmanns almannavarnarnefndar á Vesturlandi. Í minnisblaði samtakanna sem nú er í kynningu hjá sveitarfélögunum kemur fram að gert er ráð fyrir að kostnaður við starfsmanninn verði um 18 milljónir króna og helmingur verði greiddur af sveitarfélögunum á móti ríkinu.

Meðal verkefna starfsmannsins verður að starfa í aðgerðastjórn, halda æfingar á þeim viðbragðsáætlunum sem gefnar eru út og vera einstökum sveitarfélögum til ráðgjafar um hvaðeina sem snertir almannavarnir. Þá skal hann samræma hættumat og könnun á áfallaþoli sveitarfélaga, lögreglu, stofnana ríkisins og mikilvægra fyrirtækja í umdæminu auk þess sem eftirlit með búnaði og aðstöðu verður á hans könnu.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon