Geldingadalir Sjónarspil og kraumar í kötlum. Frá eldgosi í mars 2021.
Geldingadalir Sjónarspil og kraumar í kötlum. Frá eldgosi í mars 2021.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljósmyndir úr eldgosunum á Reykjanesskaga eru í aðalhlutverki á sýningu sem opnuð var nýlega á kaffihúsinu Gudruns's Goodies í miðborg Kaupmannahafnar. Myndirnar tók Hafsteinn Róbertsson í Hafnarfirði

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Ljósmyndir úr eldgosunum á Reykjanesskaga eru í aðalhlutverki á sýningu sem opnuð var nýlega á kaffihúsinu Gudruns's Goodies í miðborg Kaupmannahafnar. Myndirnar tók Hafsteinn Róbertsson í Hafnarfirði. Hann starfar sem markaðs- og vörumerkjastjóri hjá DK-hugbúnaði, en frístundir sínar notar hann gjarnan til þess að taka myndir af íslenskri náttúru og sérkennum hennar.

Öðruvísi sjónarhorn

Kaffihúsið Gudruns's Goodies er við St. Pétursstræti; nærri Ráðhústorgi og Striki svo þekkt kennileiti í Kaupmannahöfn séu nefnd. Guðrún Þórey Gunnarsdóttir rekur staðinn, þar sem margt er uppi sem minnir á Ísland. Hafsteinn komst í kynni við hana í gegnum Birnu Guðmundsdóttur, sameiginlega vinkonu þeirra sem býr í Danmörku.

„Ég veit að Guðrún var áður til dæmis með málverkasýningar á kaffihúsinu. Síðan vildi hún koma inn með íslenskar áherslur og jafnvel ljósmyndir. Orð um það voru látin berast til mín og þá fóru hlutirnir að gerast,“ segir Hafsteinn. „Við Guðrún vorum strax sammála um að velja til sýningar myndir úr eldgosunum á Reykjanesskaga, það er þeim sem þar kraumuðu 2021 og 2022. Af þeim tók ég mikinn fjölda mynda, enda fór ég óteljandi ferðir á vettvang. Það er ótrúleg upplifun að vera á vettvangi náttúruhamfara; stórkostlegur kraftur kemur úr iðrum jarðar og umhverfið breytist frá degi til dags. Myndefnin eru því mörg, ekki síst þegar maður notar dróna sem sveimar yfir og nær þannig öðruvísi sjónarhornum.“

Hafsteinn var í Kaupmannahöfn við opnun sýningarinnar og segir viðbrögð og umsögn gesta hafa verið ánægjuleg. Danirnir hafi haft góð orð um myndirnar og svipbrigði íslenskrar náttúru. Slíkt hvetji sig áfram við ljósmyndun.

Óteljandi myndir

„Ég hef notað sumarið til þess að fara um landið og taka myndir. Síðast var ég inni í Landmannalaugum og tók þar óteljandi myndir í stórkostlegu umhverfi. Útlínur fjallanna og gulleitt líparítið gera Fjallabak að einstökum stað – og hver veit nema myndir þaðan rati á sýningu í framtíðinni,“ segir Hafsteinn. – Ýmsar myndir hans má sjá á https://islandiae.com/

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson