Jón Eldon Logason
Jón Eldon Logason
Sigurður Ingi vill setja nokkur hundruð milljóna í myglurækt.

Jón Eldon Logason

Innviðaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson segir í greinarstúf í Morgunblaðinu 14. ágúst „nauðsyn að setja nokkur hundruð milljónir í myglurannsóknir“. Eftir tvær ráðstefnur í Reykjavík á nýliðnum árum um myglu hafa menn sannreynt það sem vitað var fyrir, að mygla þrífst vel í heitu og röku rými, en til að sannreyna þá augljósu staðreynd þurfti að byggja sérstakt gróðurhús til að rækta mismunandi myglutegundir og hversu hratt þær vaxa á mismunandi byggingarefnum. En þessar rannsóknir virðast aðeins hafa leitt til þess að ráðherrann hugleiðir að byggja prófunarstöð til að athuga vöxt myglu á nýju byggingarefni frá útlöndum.

Nokkur orð um mygluna

Ég er ekki að segja að mygla sé mér sérstaklega hugleikin, en hef nokkrum sinnum rekist á hana í byggingum, tekið eftir hvernig hún byrjar og hvernig hægt er að stöðva vöxt hennar, sé gripið í taumana tímanlega.

Í handbók bænda 1951 má lesa um súgþurrkun á heyi, nákvæmlega sömu lögmál gilda um súgþurrkun á öllu húsnæði. Nú á tímum er hægt að velja hitastig á lofti sem blásið er inn í hús og leiða það um allar vistarverur og sjá til þess að raki komist út um túður á þaki byggingar.

Verkfræðingur sem sérmenntaði sig í loftflæði í mannvirkjum fékk ekki vinnu á Íslandi fyrir mörgum áratugum og enginn slíkur hefur starfað hér, vegna þess að gróði af íbúðabyggingum var tekinn fram yfir lífsgæði íbúanna. Í auglýsingu fasteignasala á þessu ári, 2023, er tekið sérstaklega fram að í penthouse-íbúðunum sé loftræsting.

Nokkrir punktar um steinsteypt íbúðarhús í Reykjavík, byggð á árunum frá 1903 og fram undir fyrri heimsstyrjöld: Kjallari, tvær hæðir og ris, var algeng stærð og hafa staðið síðan án mygluvandamála. Í þessum húsum öllum er loftræsting í gegnum lóðrétta stokka úr öllum herbergjum, sjálfvirkt náttúrulegt loftflæði. Þessi þekking var fyrir hendi allt frá árinu 1800 og er í fullu gildi í dag. Því vil ég segja það að lokum að ræktun á myglu skilar engu nema fjárútlátum, ráðherrann fjármagni fremur aðkomu sérmenntaðra loftgæðafræðinga til að smíða regluverk inn í byggingarreglugerð.

Höfundur er fyrrverandi byggingameistari.

Höf.: Jón Eldon Logason