Fjallmenn Björgvin Ólafsson til vinstri og Atli Geir Scheving Guðmundsson með kindur í Kerlingarfjöllum í gær.
Fjallmenn Björgvin Ólafsson til vinstri og Atli Geir Scheving Guðmundsson með kindur í Kerlingarfjöllum í gær. — Ljósmynd/Jón Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Slæmt veðurútlit réð því að bændur í Hrunamannahreppi flýttu afréttarferð sinni um sólarhring frá því sem ætlað var. Velflestir halda raunar sínu striki og fara á fjall síðdegis í dag, alls um 30 manns, en sjö menn fóru af stað í gærmorgun inn í Kerlingarfjöll og voru þar í fjárleit

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Slæmt veðurútlit réð því að bændur í Hrunamannahreppi flýttu afréttarferð sinni um sólarhring frá því sem ætlað var. Velflestir halda raunar sínu striki og fara á fjall síðdegis í dag, alls um 30 manns, en sjö menn fóru af stað í gærmorgun inn í Kerlingarfjöll og voru þar í fjárleit.

Umhverfis fjallaklasann

„Við höfum í dag farið hér umhverfis fjallaklasann, meðal annars í Kisubotna og Klakk, og höfum fundið rúmlega tuttugu kindur sem nú eru komnar á kerru. Þá vitum við líka af einhverjum kindum í Hveradölum og þeim þurfum við líka að ná,“ sagði Jón Bjarnason fjallkóngur. Sem fjallkóngur hefur hann með höndum forystuhlutverk í óbyggðum, rétt eins og hann er oddviti sveitarstjórnar Hrunamannahrepps.

„Núna erum við hér á tveimur bílum og fimm fjórhjólum. Smalamennskan í dag hefur gengið ágætlega en núna er aðeins farið að hvessa hér. Veðurspáin er ekki beint spennandi og því munum við halda okkur að mestu til hlés á morgun, laugardag,“ sagði Jón Bjarnason um stöðu mála þegar Morgunblaðið hafði af honum tal síðdegis í gær.

Réttir á föstudag

Þau úr Hrumannahreppi sem fara á fjall í dag aka frá Flúðum inn Tungufellsdal í Leppistungur og gista þar í nótt. Þaðan verður riðið um fjöll og firnindi í fjárleit. Fé verður svo rekið fram sveitina nk. fimmtudag og Hrunaréttir eru á föstudag. Óhætt er að segja að réttadagurinn sé ein helsta hátíðin í sveitum lands, í Hrunamannahreppi sem annars staðar. – Í sumar hafa alls um 3.500 fjár verið á víðfeðmum afrétti Hrunamanna. Sá nær frá byggð allt inn að Hofsjökli, en í vestri markast hann af Hvítá og Stóru-Laxá í austri.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson