Ágúst Þorleifsson fæddist 7. júlí 1930. Hann lést 27. ágúst 2023. Útför fór fram 1. september 2023.

Pabbi var fæddur í Hrísey í Eyjafirði. Honum var mjög annt um uppruna sinn og sögu, kannski eins og fólk af þessari kynslóð var og er. En honum var líka annt um að við vissum hvaðan við værum og þó að ekki væri sífellt verið heimsækja æskuslóðir pabba, þá sagði hann mér af lífi og tilveru þeirra er bjuggu í Hrísey, af uppvextinum og hve merkilegt það þótti að fá að skreppa upp á land. Stundum fengu krakkarnir í Hrísey að fara með upp á Dalvík til að versla eða útrétta og þóttu það miklar ævintýraferðir. Já, heimurinn var ekki stór í Hrísey og því má með sanni segja að flutningar til Noregs til að læra dýralækningar við dýralæknaháskólann í Osló hafi verið nokkurt afrek í sjálfu sér. Dvölin í Noregi mótaði pabba mjög og tengdist hann Noregi sterkri taug það sem eftir lifði. Námsárin í Noregi voru honum uppspretta óteljandi sagna en á þeim tíma kynntist hann vel hve skelfileg áhrif seinna stríð hafði á heila þjóð. Hann bar ómælda virðingu fyrir krafti Norðmanna í baráttunni gegn nasistum sem hertóku landið og sagði hann mér hve mjög honum þótti merkilegt að hitta eina þekktustu andspyrnuhetju Norðmanna, Max Manus. Seinna þegar við ferðuðumst saman í Noregi og hann heimsótti okkur hjónin til Stavanger fór ekkert á milli mála að hann var á heimavelli. Á sínum tíma hefði hann vel getað sest að í Noregi, enda dýralæknar eftirsóttir, en hann fór heim í Eyjafjörð sem varð til þess að hann hitti mömmu. Það varð honum mikil blessun.

Pabbi var ekki allra, enda til hvers? Hann var ævinlega sjálfum sér samkvæmur og man ég aldrei eftir að hann léti duttlunga annarra stjórna nokkrum hlut í sínu lífi. Hann tók ekki að sér að móðgast fyrir annarra hönd og fór heldur ekki fram á það sama frá öðrum. Í starfi sínu sem dýralæknir hitti hann og kynntist mörgum bændum sem margir urðu ævilangir vinir pabba. Oft var búið að koma með flöskur af broddi eða eitthvað í soðið heim á tröppur þegar við komum út að morgni, sem mamma útbjó svo handa okkur í hádegismat.

Þegar ég var að alast upp nýtti mamma sér það að pabbi fór mikið í sveitir að þjónusta bændur og lét hann taka mig með. Það gerði pabbi glaður þó svo að á stundum þyrfti að hafa fyrir því að finna mig þegar vitjun lauk. Oftar en ekki var ég horfinn þegar pabbi kom úr fjósi. Hélt hann þá ró sinni og gekk yfirleitt að mér vísum inni í hænsnakofanum á bænum þar sem ég veitti hænunum nauðsynlegt bað. Heim kom hann með mig, stundum öskureiðan yfir að hafa ekki þegið kaffi hjá húsfreyju, eða skítugan upp fyrir haus eftir heimsókn í fjós og hænsnakofa. Þessar ferðir okkar pabba fylgja mér alla ævi, ævintýrin sem þær voru.

Og heima tók svo mamma við mér. Hún var pabba allt og reistu þau sér fallegt heimili þar sem við systkinin ólumst upp, örugg og hamingjusöm. Fyrir það er ég þakklátur.

En núna er pabbi búinn að ljúka sinni löngu ævi. Minningarnar eru margar og lærdómurinn sem hann veitti mér svo dýrmætur. Nokkuð sem ég reyni af veikum mætti að færa áfram til minna barna.

Takk fyrir allt og allt.

Þinn sonur, Tolli.

Þorleifur.

Elsku afi, það er komið að kveðjustund. Frá því að þú kvaddir þennan heim síðastliðinn sunnudag hefur hugur minn farið um víðan völl að sækja minningar sem við eigum saman. Ég hugsa mikið um allar stundirnar með ykkur ömmu, og minningarnar láta mig brosa í gegnum tárin. Það var svo gaman með ykkur – og nærvera þín var svo hlý.

Ég á eftir að sakna þess að hlæja að uppátækjunum þínum eða fara með ykkur ömmu að kaupa eitthvað gott í bakaríinu, því þú varst sælkeri eins og ég – og sögðum við aldrei nei við góðu vínarbrauði. Þú varst alltaf svo fínn til fara og lagðir mikið upp úr því að klæðast fínum merkjum. Það fyrsta sem þú spurðir þegar þú fékkst föt í gjöf var „hvar er þessi flík búin til?“ – það skipti þig miklu máli að þetta væri vönduð vara. Það var mikilvægt fyrir þig að vera alltaf snyrtilegur – og tókstu þér góðan tíma í að gera þig til inni á baði. Ef maður kom í heimsókn og þú varst nýfarinn í sturtu, þá vissi maður að baðherbergið yrði upptekið næsta klukkutímann. Svo komstu loksins út, ilmandi fínn og sagðir „er afi ekki flottur?“ – og jú, þú varst það svo sannarlega. Það var svo skemmtilegt að fara með þér að versla – þar sem þú stóðst inn í mátunarklefanum og lést ömmu og mömmu bera í þig föt, sem vöktu mismikla lukku. Ég á myndir af okkur saman í sveitinni, frá því ég var bara lítil stelpa – en þá fékk ég að fara með þér að „lækna dýrin“ eins og þú sagðir. Ég hef alltaf verið stolt af þér og ánægð með að vera barnabarnið þitt, enda varstu virtur maður hér í Eyjafirði, Gústi dýralæknir.

Símtal sem ég átti við þig í lok maí er mér svo ofarlega í minni. Ég var að hringja frá Slóvakíu og tilkynna þér að ég væri búin með síðasta prófið í skólanum og að nú væri ég orðin læknir. Ég var svo spennt að hringja í þig – af því það að gera þig stoltan var svo góð tilfinning. Þú varst hreykinn af mér, enda stuðningsmaður minn númer eitt þegar kom að læknisfræðinni. Í þessu símtali ræddum við allt milli himins og jarðar – og enduðum við símtalið á að segja hversu vænt okkur þótti hvoru um annað, og mikið ótrúlega þykir mér vænt um þig, elsku afi.

Á meðan ég var úti í náminu sást þú til þess að mig skorti ekkert. Þú sendir mig út á haustin með vítamín og steinefni, og nóg af harðfiski. Þú hringdir í mig eftir öll próf sem ég fór í til að heyra hvernig mér hefði gengið. Þú fylgdist svo vel með öllu sem var um að vera hjá okkur systrum, og varst með allt á hreinu.

Þegar ég hugsa um þig, þá sé ég þig fyrir mér inni á fallegu skrifstofunni þinni, klæddan í skyrtu og flauelsbuxur með pípu í hendi – raulandi „dæraræ“ í gegnum reykjarmökkinn. Á horninu á skrifborðinu þínu var lítil krús með gullpeningum í – og varst þú duglegur að gefa okkur systrum þann pening þegar krúsin fylltist.

Elsku afi, söknuðurinn er sár en minningarnar hlýjar. Það verður skrítið að eiga ekki eftir að spjalla við þig í símann eða fá ykkur ömmu í mat á sunnudagskvöldi. Ég sendi kveðju og farðu varlega, ég lofa að gera það líka. Við hittumst aftur seinna.

Þín afastelpa,

Auður Kristín.

Elsku besti afi.

Það er sárt að hugsa til þess að þú sért ekki lengur hér hjá mér þar sem þú hefur verið stór hluti af mínu lífi alla tíð og staðið þétt við bakið á mér. Þú varst minn helsti stuðningsmaður, bæði í íþróttum og í námi og þekktir stundatöfluna mína nánast betur en ég. Fögin mín í læknisfræðinni þekktir þú vel og hafðir svo mikinn áhuga á að heyra hvernig lífið úti í Slóvakíu væri. Þið amma voruð bæði svo ánægð með að við systurnar skyldum báðar hafa

farið utan til náms. Allir hefðu svo gott af því að prófa að búa í öðru landi og kynnast nýjum menningarheimum. Þið hringduð oft í mig til að spjalla, sérstaklega eftir að ég kláraði próf eða erfið verkefni, til að vita hvernig hefði gengið. Ég vissi að mín biði símtal um leið og ég kæmi inn um dyrnar og þá alltaf í gegnum skype eða facetime. Það fannst ykkur ömmu

betra því þá gátum við séð hvert annað í mynd.

Ég á margar upptökur af þeim samtölum sem ég mun geyma sem fjársjóð. Í lok hvers símtals vinkaðir þú til mín og sagðir bless, vina afa.

Það verður skrítið að heyra það ekki framar.

Ég er heppin að fá að hafa alist upp með ykkur ömmu og hafa ykkur svona nálægt mér alla tíð. Ef þið amma lituð ekki inn í heimsókn þá hringdir þú á hverju einasta kvöldi til að fá fréttir af deginum og hvernig hann hefði verið hjá okkur systrum.

Það var best að vera hjá ykkur ömmu og ég man svo vel þegar ég og Auður Kristín systir mín vorum litlar, þá gerðum við okkur stundum upp veikindi til að sleppa við fimleikaæfingar. Þá vissum við að við fengjum kannski að fá að fara til ykkar, kúra uppi í sófa undir teppi með norsku fréttirnar í gangi í sjónvarpinu. Þú sitjandi í þínum stól með pípuna og amma í sínum að prjóna.

Mér þykir vænt um að hafa verið skírð í höfuðið á þér, elsku afi, og með nafninu fékk ég margt frá þér. Við áttum margt sameiginlegt t.d. að ferðast og þótti okkur fátt betra en að vera úti í náttúrunni með gott nesti og horfa á landslagið. Þú elskaðir að fylgjast með frjálsum íþróttum og oft voru þær í sjónvarpinu þegar ég kom í heimsókn. Þú gafst mér fyrstu gaddaskóna mína

og komst og horfðir á mig keppa í frjálsum. Föt og merkjavara voru líka sameiginlegt áhugamál okkar. Við elskuðum falleg föt. Það var alltaf þitt fyrsta verk að skoða miðann í fötunum til að vita hvar þau væru búin til. Þú vildir alltaf það besta í öllu. Mér fannst svo flott að sjá þig í íþróttafötum frá Nike og Under Armour, eða fötum frá 66°N. Þegar amma fór í bæinn til að kaupa handa þér föt þá varstu með sterkar skoðanir á því hvað hún ætti að kaupa.

Þú áttir alltaf síðasta orðið, eins og ég.

Elsku afi minn, nú kveð ég þig í síðasta sinn en geymi þig í hjarta mér.

Þín

Ágústa Dröfn.

Í dag kveð ég minn kæra tengdaföður, Ágúst Þorleifsson, fyrrv. héraðsdýralækni. Ágúst var í mínum huga einstakur maður og mikill karakter. Hann fór sínar eigin leiðir í flestu sem hann tók sér fyrir hendur. Ágúst var yfirleitt snöggur til svars og hitti naglann ansi oft á höfuðið, þó svo að skoðanir hans væru ekki endilega allra. Því hafði ég gaman af. Hann naut þess að ferðast, bæði hér heima og erlendis og fannst gott að láta sólina baka sig, eins og hann sagði svo oft. Upp úr standa þó ferðirnar með Ágústi innanlands og sérstaklega á Norðurlandi þar sem hann þekkti sveitirnar eins og lófann á sér. Hann gat nefnt hvern einasta bæ og fyrri og núverandi ábúendur með nafni og oftar en ekki fylgdi saga af verkefnum sem hann hafði sinnt á bæjunum. Voru þær margar með ólíkindum. Hann var dýralæknir af gamla skólanum þar sem skepnurnar og lífið í sveitinni áttu hug hans allan alla tíð. Fátt jafnaðist þó á við það að fara með Ágústi út í Fjörður, en þangað fórum við oft í veiði og til að skoða okkur um. Fjörður voru honum mjög hugleiknar og frásagnir hans af lífinu þar fyrr á tímum voru merkilegar. Ágúst var vel lesinn og hafsjór af fróðleik. Hann naut þess að segja sögur frá liðinni tíð, hvort sem þær voru frá uppvaxtarárum hans í Hrísey eða námsárunum í Noregi. Við Ágúst og faðir minn heitinn, Broddi Björnsson, keyptum okkur smábát um aldamótin þar sem áhugi okkar allra var mikill á veiði. Útgerðin, eins og við kölluðum hana, gekk vel hjá okkur félögunum og nutum við þess að fara saman á veiðar í Eyjafirði. Lögðum við félagarnir alltaf úr höfn með byssu og stöng í farteskinu.

Pípur og pípureykingar voru áhugamál hans alla tíð og meðhöndlun pípunnar var mikil kúnst. Ef það var nefnt við Ágúst á efri árum hvort hann ætlaði ekki að fara hætta þessum pípureykingum var hann snöggur til svars að venju „nei, ég er heldur að reyna að auka þær“. Þar með var það afgreitt. Um tíma tók ég það að mér að þjálfa Ágúst og kæran vin hans og gamlan skólabróður, Harald Bessason, í líkamsrækt. Þeir félagar voru þá báðir komnir um áttrætt og fór þjálfunin, eða fimleikarnir eins og þeir kölluðu það, fram á Bjargi á Akureyri. Ágúst og Halli mættu og löbbuðu sinn á hvoru hlaupabrettinu áður en nokkrar styrktaræfingar voru teknar. Ekki var gangan rösk á brettinu því mikið þurfti að spjalla. Þeir settu sér það markmið í upphafi að æfingarnar ættu að skila þeim upp á Súlur. Ekki gekk það þó eftir. Þess í stað var ákveðið að ég færi með þá í dagsferð í Skagafjörðinn og æskuslóðir Halla að Kýrholti í Viðvíkursveit heimsóttar, ásamt Fljótunum. Þessi ferð líður mér seint úr minni.

Ég mun sakna þess að fá ekki að heyra fleiri frásagnir frá liðinni tíð frá þér, Ágúst, en síðasta sagan var sögð skömmu áður en þú lést. Hann var að uppfræða og segja frá fram á síðustu stundu. Ágúst kveð ég með þakklæti fyrir það sem hann var mér og fjölskyldu minni, þau tæplega þrjátíu ár sem við áttum saman.

Auði, eiginkonu hans, og fjölskyldunni allri votta ég samúð mína.

Pétur G. Broddason.