Óvíst er hvenær knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson snýr aftur á knattspyrnuvöllinn en hann gekk til liðs við danska úrvalsdeildarfélagið Lyngby á fimmtudag

Óvíst er hvenær knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson snýr aftur á knattspyrnuvöllinn en hann gekk til liðs við danska úrvalsdeildarfélagið Lyngby á fimmtudag. Gylfi Þór, sem er 33 ára gamall, skrifaði undir eins árs samning við Lyngby en Freyr Alexandersson er þjálfari liðsins. Gylfi meiddist á hæl æfingu hjá Val í júlímánuði og er enn þá að jafna sig á þeim meiðslum.

Grótta fór í gærkvöldi upp í annað sæti 1. deildar kvenna í fótbolta með 3:1-útisigri á HK. Hannah Abraham, Ariela Lewis og Arnfríður Auður Arnarsdóttir skoruðu mörk Gróttu. Isabella Eva Aradóttir gerði mark HK.

West Ham tyllti sér í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta með 2:1-útisigri á Luton í fyrsta leik 4. umferðarinnar í gærkvöldi. Jarrod Bowen og Kourt Zouma komu West Ham í 2:0, áður en Mads Andersen minnkaði muninn fyrir Luton. West Ham er með tíu stig, einu stigi á undan Manchester City sem á leik til góða.

Hege Riise hætti í gær þjálfun norska kvennalandsliðsins í fótbolta. Noregur olli vonbrigðum á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi, þar sem liðið féll úr leik í 16-liða úrslitum. Var mikið fjaðrafok í kringum norska liðið á HM og virtist andinn í liðinu slæmur. Leikmenn kvörtuðu í viðtölum á milli leikja og illa gekk inn á vellinum sömuleiðis.

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur fest kaup á hollenska miðjumanninum Ryan Gravenberch frá Bayern München. Liverpool greiðir tæpar 35 milljónir punda fyrir leikmanninn.