Magnea Vattnes Kristjánsdóttir, Dottý, fæddist 9. febrúar 1939. Hún lést 30. júlí 2023. Útför fór fram 1. september 2023.

Elsku hjartagullið mitt, elsku vinkona mín, elsku amma mín, núna ertu búin að kveðja og komin í blómabrekkuna umvafin fólkinu okkar sem er farið á undan þér.

Það sem ég elska þig mikið og er og verð ævinlega þakklát fyrir fallega sambandið okkar. Við vorum svo gott teymi, stóðum alltaf saman og hjálpuðum hvor annarri eins og við gátum.

Þú kenndir mér svo margt, varst alltaf svo hlý og góð við mig og stelpurnar mínar. Missirinn er mikill og söknuðurinn sár, en ég veit að þú varst tilbúin og ert sátt við það hvernig þú skildir við allt. Ekkert var óuppgert og þú fórst í miklum friði.

Þú stóðst þig svo vel síðustu dagana og það er svo ómetanlegt og dýrmætt að hafa verið með þér alla leið. Maður sér ekki oft svona marga samankomna á dánarbeði ástvinar og „það er auðséð hvað hún er elskuð“ sagði ein yndisleg hjúkka uppi á spítala. Presturinn talaði um að við fólkið þitt, afi, börnin þín, barnabörn og barnabarnabörn, værum eins og skel í kringum þig – perluna okkar – þín síðustu augnablik; héldum verndarhendi yfir þér eins og þú gerðir alltaf fyrir okkur.

Að hafa haldið í höndina þína þegar þú skildir við og fengið að klæða þig og gera þig fína fyrir þína hinstu ferð er dýrmætt.

Það var alltaf svo gott og hlýtt að koma í Goðatúnið til ykkar afa, maður var alltaf velkominn með börnin og dýrin og vinina. Öllum tekið fagnandi í dyrunum og boðið eitthvað gott í svanginn. Spjall í blómastofunni og sólbað á pallinum. Svo fékk maður hlý faðmlög og alltaf fylgdir þú manni til dyra og vinkaðir á tröppunum.

Það voru allir jafnir fyrir þér og aldrei gerðir þú upp á milli. Passaðir að okkur liði vel og maður fann alltaf svo vel hversu mikilvægur maður var þér. Gjafmild og hlý drottning okkar allra.

Það er sagt að ömmur séu englar í dulargervi með silfur í hárinu og gull í hjartanu. Það á svo sannarlega við um þig!

Amma

þú ert björt og falleg,

alltaf þú brostir og gafst mér hrós

með hlýjan faðm og svo yndisleg,

gullslegin drottning og bleik rós.

Ég elska þig að eilífu og alltaf

og lofa að passa upp á elsku afa Sævar, mömmu, Danna og Hafþór.

Þín dótturdóttir,

Sædís Bára og dætur, Katrín Eva, Rebekka Marý og Andrea Lillý.

Orð geta ekki lýst því hversu mikið ég sakna þín elsku amma, þú varst alltaf svo hress og góð við alla í kringum þig. Ég er svo þakklátur fyrir að eiga allar þessar fallegu og skemmtilegu minningar um stundir sem við áttum saman, þær munu alltaf eiga stóran part í hjarta mínu.

Það var alltaf svo gaman að koma í Goðatúnið og bralla eitthvað með þér þótt það væri bara að stoppa stutt og segja hæ og knúsa þig. Svo á ég endalaust af minningum með þér, til dæmis að hreinsa og laga beðin úti í garði, tína rifsber og taka upp rabarbarann og gera úr honum heimsins bestu sultuna.

En það sem stendur upp úr var að fá að fara með afa á trillunni á sjóinn, þú passaðir alltaf upp á að tæki nógu hlý föt með mér. Síðan þegar við komum heim eftir langan dag að veiða þá varstu alltaf búin að elda svo góðan mat. Ekki get ég gleymt því hversu gaman það var að fá að fara með þér og afa eitthvað á húsbílnum.

Mér finnst það vera forréttindi að hafa átt þig sem ömmu mína því þú kenndir mér svo margt fallegt sem ég ætla að nota á minni lífsleið. Ég ætla að gera fallegasta engilinn minn stoltan. Sofðu rótt og Guð geymi þig elsku amma Dottý.

Þinn

Hafþór Snær Vattnes.

Elsku amma Dottý, ég mun sakna hlýju faðmlagana þinna. Það var alltaf svo yndislegt að koma í heimsókn í Goðatúnið og spjalla tímunum saman og alltaf veisla sem og veitingarnar sem var boðið upp á fyrir alla sem komu í heimsókn.

Þegar ég var yngri átti ég til að máta alla gullskóna hennar og setja á mig alls konar skart því ég vildi vera svo mikil skvísa eins og amma. Ég á svo margar fallegar og góðar minningar um ömmu sem eru mér dýrmætar og mun ég sakna hennar að eilífu. Ég elska þig amma Dottý.

Þín að eilífu,

Halldóra.

Elsku besta amma mín, ég er svo heppinn að hafa átt þig sem ömmu. Þvílík forréttindi. Það var alltaf gleði og hamingja í kringum þig og lýstir þú upp öll þau herbergi sem þú gekkst inn í með fallega brosinu þínu. Þú varst alltaf svo góð við mig og þolinmóð, þegar ég var hjá ykkur afa var aldrei auð stund. Ef ég var ekki að fikta í öllu postulínssafninu þínu þá var ég búinn að breyta stofunni í stórt skip og vorum við saman að stýra því með kollinum sem afi hvíldi lappirnar á. Svo á sumrin eyddum við öllum stundum úti í fallega garðinum þínum að tína rabarbara og rifsber til að gera sultu. En yfirleitt var ég búinn að borða rifsberin jafnóðum og við settum þau í körfuna enda uppáhaldsberin mín. Svo fannst mér svo gaman að labba með þér út í búð og í efnalaugina sem bróðir þinn átti því þar var svo mikið af flottum græjum sem þú vissir að mér þótti gaman að skoða. Svo fannst okkur svo gaman þegar afi spilaði fyrir okkur á harmonikkuna sína og dönsuðum við saman meðan hann spilaði falleg dægurlög fyrir okkur og fannst mér svo gaman þegar afi leyfði mér að prufa harmonikkuna þegar hann var búinn að spila því mér fannst hún svo flott. Þú tókst alltaf á móti mér opnum örmum og sýndir mér svo mikla ást og þolinmæði þegar þú vissir að aðstæður voru búnar að vera erfiðar í lífi mínu. Um leið og ég kom í innkeyrsluna á Goðatúninu og sá þig taka á móti mér fylltist ég gleði og hamingju því allar áhyggjur hurfu um leið og ég kom í fangið þitt. Þegar ég var ungur hugsaði ég alltaf með mér ég ætlaði að verða jafn góður og amma, þú varst algjör fyrirmynd fyrir mig. Þegar ég kynnti þig fyrir konunni minni, henni Bryndísi Maríu, þá man ég hversu glöð og hamingjusöm þú varst fyrir mína hönd, að ég væri búinn að kynnast svona frábærri stelpu, og sagðir þú henni að kalla þig bara líka ömmu.

Orð geta ekki lýst því hve mikið ég mun sakna þín og fráfall þitt skilur eftir sig stórt tómarúm í hjartanu á okkur. Það svíður í dýpsta hjarta stað að vita það að elsku dóttir okkar Bryndísar, sem er á leiðinni í heiminn, fái ekki að kynnast fallegu langömmu sinni með stóra fallega brosið og upplifa þessa ást sem langömmubarnið þitt, hún Ásdís Elva, hefur fengið frá þér. Ásdís Elva minnist þín mikið með bleikum litum og þegar bleik ský eru á himni.

Takk fyrir allt elsku amma mín. Þangað til næst þegar við hittumst aftur á fallega bleika skýinu þínu. Elska þig.

Þinn ömmustrákur,

Kristófer Logi Vattnes, Bryndís María og Ásdís Elva Kristófersdóttir.