<strong>60</strong> sumir öskra 60 sinnum yfir handboltaleik.
60 sumir öskra 60 sinnum yfir handboltaleik. — Morgunblaðið/Eggert
Það er kúnst að lýsa íþróttaviðburðum í beinni útsendingu í sjónvarpi. Að mati ljósvaka dagsins er fín lína á milli þess að vera ástríðufullur og með óþarfa læti. Það er ekki starf lýsandans að taka sviðsljósið, til þess er íþróttaviðburðurinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

Það er kúnst að lýsa íþróttaviðburðum í beinni útsendingu í sjónvarpi. Að mati ljósvaka dagsins er fín lína á milli þess að vera ástríðufullur og með óþarfa læti. Það er ekki starf lýsandans að taka sviðsljósið, til þess er íþróttaviðburðurinn.

Þess í stað á lýsandi að leyfa leiknum sjálfum að njóta sín. Að mati ofanritaðs verður það fljótt þreytt að horfa á handboltaleik, þar sem hverju marki er lýst eins og það sé úrslitamark á HM í fótbolta. Í leik sem endar 30:30 er lýsandinn þá búinn að öskra vel og innilega um það bil 60 sinnum á rétt rúmum klukkutíma.

Í stöðunni 5:5 er ljósvaki dagsins byrjaður að lækka í tækinu og jafnvel búinn að skipta um stöð. Þetta er ekki keppni í að öskra mest, heldur snýst starfið um að leyfa íþróttaviðburði að njóta sín og leyfa áhorfendum heima í stofu að njóta með, án þess að þeir fái höfuðverk.

Auðvitað er í góðu lagi að ástríðan taki yfir þegar tilefni er til, sérstaklega þegar íslensk landslið eiga í hlut. Við vorum öll Gummi Ben þegar íslenska karlalandsliðið í fótbolta spilaði á EM 2016. Þá var íslenskt landslið að skrá sig í sögubækurnar á stærsta sviðinu.

Minni þörf var fyrir öskur og læti þegar Haukar komust í sjö marka forskot gegn Gróttu í 3. umferð Olísdeildarinnar í handbolta.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson