Baksvið
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Sjötíu ár eru frá því að Blóðbankinn hóf starfsemi hérlendis og af því tilefni er staðið fyrir þremur ráðstefnum á afmælisárinu. Ein þeirra var haldin í Háskólanum í Reykjavík í gær og þar voru rannsóknir og nýsköpun á dagskrá.
Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, einingastjóri rannsókna og nýsköpunar í Blóðbankanum og forseti tæknisviðs HR, hélt erindi á ráðstefnunni í gær, sem er önnur í röðinni, en í vor var ráðstefna um gæðamál.
„Hjá Blóðbankanum hefur mikið verið gert af því að stunda rannsóknir og nýsköpun. Ef til vill mætti skipta því í tvö tímabil,“ segir Ólafur í samtali við Morgunblaðið.
„Fyrra tímabilið er í kringum 1970 en Ólafur Jensson var blóðbankastjóri á þeim tíma. Hann var mikill frumkvöðull í rannsóknum í erfðafræði á Íslandi en hefur að mínu mati ekki hlotið þá athygli sem hann ætti skilið fyrir sína vinnu. Seinna tímabilið má segja að sé þegar Sveinn Guðmundsson tók við sem yfirlæknir Blóðbankans í kringum 1996. Hann hafði mikinn áhuga á því að Blóðbankinn myndi færa sig yfir í stofnfrumuvinnslu og lagði áherslu á rannsóknir á því sviði til að skapa þekkingu innan Blóðbankans. Þar kom ég inn sem háskólanemi í líffræði á sínum tíma og hef iðulega verið viðloðandi Blóðbankann síðan þá fyrir utan dvöl erlendis þegar ég var í doktorsnámi,“ segir Ólafur en hjá bankanum hafa verið stundaðar stofnfrumurannsóknir í meira en tvo áratugi.
Horft til framtíðar
„Segja má að fyrir vikið sé Blóðbankinn frumkvöðull í stofnfrumurannsóknum á Íslandi og við höfum stundað þær í meira en 20 ár. Þar höfum við líka horft til framtíðar. Hvernig við getum til að mynda búið til bein, búið til brjósk og vefi sem gætu nýst í læknismeðferðum í framtíðinni. Þá notum við aðrar týpur af stofnfrumum og er þetta oft kallað vefjaverkfræði. Hugmyndin á bak við vefjaverkfræðina er sú að þú sért með vefjaverkfræðing sem hannar og smíðar vefi, rétt eins og verkfræðingur hannar og smíðar brýr. Þetta er ekki orðin rútínunotkun í læknisfræði en við teljum að þetta verði algengara eftir tíu til fimmtán ár. Í nýja rannsóknarhúsinu, sem byggt verður á Landspítalalóðinni, verður aðstaða til að rækta frumur fyrir sjúklinga í framtíðinni. Við viljum vera undirbúin fyrir framtíðina og þess vegna stundar Blóðbankinn rannsóknir. Við tökum inn nema og þjálfum fólk. Eftir nokkur ár eru þessir einstaklingar búnir að fá vísindalega þjálfun og geta unnið með okkur í hefðbundnum hlutum sem tengjast blóðbankaþjónustu.“
Samstarf með Bernhard
Ólafur bendir á að einnig hafi verið unnið með Bernhard Pálssyni. „Fyrir rúmum tíu árum var skortur á þekkingu varðandi hvað gerist í blóðhlutanum. Tekið er blóð úr blóðgjafanum sem skipt er niður í mismunandi einingar og meðal annars búnar til blóðflögur. Er það geymt í plasteiningum þar til einhver þarf á því að halda. Lítil þekking var fyrir hendi á því hvað gerist hjá þessum frumum á geymslutímanum.
Við fórum að skoða efnaskiptabreytingar í blóðflögum og rauðfrumum við geymsluna og hvort hægt væri að bæta geymsluaðferðirnar. Við unnum þetta með Bernhard Pálssyni í San Diego sem er líklega okkar merkasti vísindamaður. Nú erum við nokkuð framarlega á þessu sviði,“ segir Ólafur og tekur fram að nýsköpun verði ekki nema hafa góða nema.
„Grunnurinn að því að geta stundað þessar rannsóknir eru þeir frábæru nemar sem við höfum haft í gegnum árin. Þeir eiga hrós skilið.“