Magnús Guðlaugur Lórenzson fæddist 25. nóvember 1934 á Akureyri. Hann lést á lyflækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri 24. ágúst 2023.

Foreldrar hans voru Lórenz Halldórsson sjómaður á Akureyri, f. 23. febrúar 1904 á Eskifirði, dáinn 25. janúar 1995, og kona hans Aðalheiður Antonsdóttir, f. 2. janúar 1907 á Urðum í Svarfaðardal, dáin 29. ágúst 1978. Systkini Magnúsar: Pálina Axelína, f. 14. september 1928, d. 20. júlí 2010, Gunnar Halldór, f. 22. október 1929, d. 17. febrúar 2015, Gísli Kristinn, f. 7. nóvember 1937, Steinunn Guðbjörg, f. 7. febrúar 1941, Ingibjörg Hafdís, f. 7. maí 1943 og Skúli Viðar, f. 15. janúar 1947.

Magnús giftist þann 26. júni 1957 eiginkonu sinni til 66 ára, Elínu Björgu Eyjólfsdóttur, f. 14. desember 1936 í Reykjavík, d. 30. júní 2023. Foreldrar hennar voru Eyjólfur Júlíus Einarsson, f. 1906, d. 1986, og Ásgerður Hulda Karlsdóttir, f. 1910, d. 1940. Stjúpmóðir Elínar Bjargar var Guðrún Árnadóttir, f. 1910, d. 2003.

Börn Elínar Bjargar og Magnúsar: 1) Ásgeir, f. 1957, kona hans er Þóra Úlfarsdóttir, f. 1960, þeirra börn: Magnús, f. 1985, Þóra Björg, f. 1988, maður hennar er Håvard Syvertsen, f. 1995, c) Erla, f. 1994. 2) Aðalheiður, f. 1959, maður hennar er Sigurgeir Sigurðsson, f. 1956, þeirra börn eru: a) Halldóra Friðný, f. 1980, maður hennar er Bragi Rúnar Jónsson, f. 1968. Halldóra á tvær dætur. Heimir, f. 1989 kona hans er Halla Björg Kolbeinsdóttir, f. 1987, þau eiga tvo syni. 3) Eyjólfur, f. 1964, börn hans og fyrrverandi konu hans eru: a) Jón Ágúst, f. 1990, kona hans er Bára Sigurðardóttir, f. 1987, þau eiga þrjá syni. Einar Ómar, f. 1994, kona hans er Ingibjörg Helgadóttir, þau eiga tvo syni. Elín Björg, f. 1999. Stjúpdóttir Eyjólfs er Guðrún Sædís Harðardóttir, f. 1982, hennar maður er Bjarki Sigurðsson, f. 1995 og eiga þau þrjú börn. 4) Guðrún Jóna, f. 1967, maður hennar er Óli Björn Björgvinsson, f. 1967, börn þeirra eru: Karen Lind, f. 1989, maður hennar er Eirik Godö Elgvin, f. 1992, þau eiga tvo syni. Lórenz Óli, f. 1992, kona hans er Hildur Ýr Sæbjörnsdóttir, f. 1993, þau eiga tvær dætur. Inga Bjarney, f.1999, maður hennar er Bergþór Ingi Smárason, f. 1995, Ólöf Rún, f. 2001, maður hennar er Ingvi Þór Guðmundsson, f. 1998.

Magnús gekk í Gagnfræðaskóla Akureyrar til 1951, lauk Iðnskólanum á Akureyri 1954, vélvirkjanámi í Vélsmiðjunni Atla 1955, vélstjóraprófi í Vélskólanum í Reykjavík 1956 og rafmagnsdeild 1957.

Magnús og Elín fluttu til Akureyrar eftir að Magnús lauk námi og byggðu sér hús í Lyngholti 2, ásamt bróður hans og mágkonu. Þar bjuggu þau í 30 ár en fluttu þá í Arnarsíðu 6a þar til árið 2003 að þau fluttu í Lindasíðu 39.

Magnús var mikill veiðimaður hvort heldur sem var skotveiði eða lax- og silungsveiði.

Útförin fer fram frá Akureyrarkirkju í dag,

4. september 2023, klukkan 13.

Erfitt er að hugsa til þess að þú, pabbi, sért farinn líka svo stutt á eftir mömmu en ég verð að trúa því að þið mamma séuð nú sameinuð á ný.

Elsku pabbi minn, hann Maggi Lór, var sterkur karakter sem sagði hlutina eins og þeir voru, en hann var jafnframt blíður og ljúfur er við átti og lét ekki vaða yfir sig á skítugum skónum. Hann var mikill fjölskyldumaður, náttúruunnandi, veiðimaður, bóndi og ræktandi á dýr og mat, og voru jarðarberin þar í uppáhaldi síðustu árin. Einnig var hann hagleikssmiður, byggði sitt eigið hús við Lyngholt 2 (var númer ellefu er það var byggt og breyttist í tvö tíu árum síðar) ásamt bróður sínum, honum Kidda Lór, og bjuggu þeir þar saman í 30 ár, er pabbi seldi sína hæð og flutti í Arnarsíðu 6a. Flaggstöng og snúrustaura smíðaði hann sjálfur við húsin. Árið 2003 fluttu hann og mamma í Lindasíðu 39.

Á árum áður fórum við margar veiðiferðir í ár og vötn hér í kring og veiddum alltaf vel, einnig gengum við til rjúpna, fórum á gæs og ekki síst á sjófugl á firðinum á trillunni sem hann smíðaði að forskrift Nóa heitins bátasmiðs og undir hans leiðsögn. Trillan fékk nafnið Lórenz og hafði einkennisstafina EA 611.

Lórenz EA var happafley og var fiskað vel alla tíð bæði á línu, færi og í net.

Man að við rerum oft út á Hörgárgrunn og jafnvel lengra. Störf hans til sjós og lands tengdust öll hans menntun sem vélvirkjameistara og vélfræðings í skipasmíðastöð og síldarvinnslum.

Bústörf stundaði hann nær allt sitt líf, átti kindur í félagi við Gunnsa bróður sinn og hesta í félagi við mig, en ég búandi í Grindavík á þeim tíma og hann á Akureyri. Hann sendi mér hestana og ég fékk inni fyrir þá hjá vinnuveitanda mínum sem hélt hesta líka. Margar góðar sögur eru til af pabba og hvatvísi hans, en einu sinni sem oftar varð að sækja kynbætur í nágrannasveitarfélögin og þegar hann var að koma í heimsókn til okkar í Garðabæ og Grindavík sá hann folald sem honum leist vel á og stoppaði á bænum og spurði bóndann út í gripinn og hvort hann gæti fengið hann keyptan. Jú, jú, ekkert mál sagði bóndinn, takk fyrir það sagði pabbi, kem við á bakaleiðinni og geng frá þessu við þig. Því miður varð ekkert úr þessum fallega skjótta fola þar sem hann óx ekki upp fyrir þúfu.

Hægt væri að fylla mörg dagblöð af sögum um ferðirnar hans pabba um heiminn, en hann sigldi meðal annars tvisvar sinnum hringinn í kringum hnöttinn. Hann ferðaðist mikið um landið, sem honum þótti alltaf vænst um. Hvíl í friði, elsku pabbi, þín verður sárt saknað.

Þinn sonur, Eyfi.

Eyjólfur.

Pabbi, Magnús Guðlaugur Lórenzson, var aldrei lengi að taka ákvarðanir í lífinu. Það átti einnig við þegar hann veikist fyrir stuttu. Hann hafði greinilega tekið ákvörðun um að staldra við á meðan hún Ella hans lifði, en hann hafði haft á því orð við okkur systkinin að hann vildi helst ekki vera lengi í burtu frá henni. Eftir andlát mömmu kom í ljós að hann var alvarlega veikur og kvaddi hann skömmu síðar. Fjarvera hans frá henni varð því stutt, eins og hann vildi hafa hana, eða aðeins 55 dagar. Góður túr á sjó, eins og hann myndi orða það.

Pabbi var að mörgu leyti merkilegur maður, hrjúfur á yfirborðinu en mjúkur og meyr að innan. Í mínum huga var hann góður maður og „á stundum of góður“. Skoðanir hafði hann og lét þær í ljós. Fór svo á tímabili að samskipti okkar urðu stirð og erfið. Þetta varð ekki langt tímabil og er stundin þegar við sættumst mér ógleymanleg, en þá stóðum við í frekar köldu veðri úti í miðju Skjálfandafljóti við laxveiði.

Ég var sjö ára gamall þegar hann tók mig fyrst með sér í laxveiði. Hann kenndi mér allt sem veiðina varðar. Árnar okkar á þeim árum voru aðallega perlurnar Hofsá og Selá. Í fyrstu veiðiferðinni lét hann mig hafa stöngina og skrapp svo frá smá stund. Ekki fór hann lengra en svo að hann gat fylgst með tilburðum mínum. Og viti menn, þarna setti ég í stærðarinnar lax sem lét ógurlega, í það minnsta fyrir sjö ára gutta. Rétt áður en ég flaug út í ána rétti hann fram hjálparhönd. Skömmu síðar lá á bakkanum fyrsti laxinn, spriklandi 19 punda risi. Hreint ógleymanleg stund fyrir lítinn dreng.

Laxveiði og skotveiði voru honum mikil ástríða. Í hans huga snerist veiðin þó alltaf um að bera björg í bú fyrir fjölskyldu og vini. Var hann óspar á að senda um jól til ættingja og vina lax, rjúpur og gæsir, eða hvað eina það var sem hann veiddi á sjó eða landi.

Pabbi var mikill áhugamaður um alls konar ræktun og var honum snemma umhugað um náttúruvernd þótt hann væri ekki alltaf sammála þeim aðferðum sem eru notaðar í dag.

Margar voru ferðir okkar feðganna með Gunna frænda í fjárhúsin. Fyrir ungan dreng var skemmtilegt að hlusta á samræðurnar. Frá þeim bræðrum kom mikill fróðleikur um búskapinn og blessaðar kindurnar sem þeir voru óþreytandi að ræða um.

Það er svo margt sem hægt er að skrifa um pabba en það þarf heila bók til að gera því skil. Það verður því ekki gert hér. Margt var það sem hann upplifði á ferðum sínum um hnöttinn og sagði frá. Ef til vill verður eitthvað af því skráð síðar.

Eitt var alveg öruggt, að pabbi var Akureyringur í húð og hár og stoltur af því. Ef hann kom suður til að heimsækja ættingja þá var hann aldrei lengi í burtu frá Akureyri í einu. Notaði hann ávallt tímann vel fyrir sunnan, eins og hann sagði, og dreif sig svo heim „því heima er best“.

Elsku pabbi, ég bið að heilsa mömmu. Ég veit að þið eruð komin saman á góðum stað við hlið hins eilífa Guðs.

Kveðja, þinn sonur og fjölskylda,

Ásgeir.

Elsku pabbi.

Ekki datt mér í hug að komið væri að þinni kveðjustund svona stutt á eftir mömmu. Pabbi sem var alltaf hraustastur og sterkastur. Minningarnar streyma fram um pabbann sem var alltaf til í að brasa eitthvað með manni. Allar laxveiðiferðirnar í æsku, gefa kindunum þínum og Gunnsa bróður þíns klukkan sex á morgnana, gefa ungunum sem þú ræktaðir, fara á sjóinn á trillunni og fara í berjamó. Þú varst bæði mannvinur og dýravinur og varst alltaf að færa björg í bú. Þegar ég síðan flutti að heiman varstu alltaf til í að skutlast frá Akureyri til Grindavíkur í barnaafmæli og eyddir mörgum stundum með okkur fjölskyldunni. Einu sinni sem oftar komstu suður og þegar þið mamma voruð komin inn sagðir þú að við þyrftum að finna pláss á lóðinni fyrir ungana sem þú varst með í skottinu á bílnum. Það sem þér datt í hug, ekkert var ómögulegt. Á efri árunum fóruð þið mamma á veturna til Kanarí og þar varst þú í essinu þínu í sólinni. Fórum við nokkrar ferðirnar saman, bæði til Kanarí og Tenerife, og var mikið hlegið í þeim ferðum. Þú varst manna fróðastur um margt og hafði reynslan kennt þér meira en margir fræðimenn héldu fram um ýmsa hluti. Óli minn gat alltaf leitað til þín varðandi fiskveiðar þar sem þú hafðir mikla reynslu af sjómennsku. Sama mátti segja um laxveiðina, það var ótrúlegt að fylgjast með þér landa hverjum fiskinum á fætur öðrum. Síðustu árin hefur þú hugsað ötullega um mömmu í hennar veikindum og tók það sinn toll af heilsu þinni. Ekkert varð af berjatínslunni sem var fyrirhuguð þegar ég kom norður í ágúst. Þinn tími var kominn og þú gekkst sáttur frá borði. Heljarmenni sem átti 29 afkomendur og sá þrítugasti væntanlegur er meira en margur getur státað af. Nú ertu kominn til mömmu í Sumarlandið og vonandi leikur sólin og sælan við ykkur. Þangað til næst elsku pabbi.

Þín elskandi dóttir,

Guðrún Jóna.

Að kveðja afa einungis tveimur mánuðum eftir að við kvöddum ömmu er stingandi vont fyrir hjartað.

Afinn sem okkur fannst vera eilífur, alltaf hress, kátur og eldskýr í höfðinu. Mikill braskari, ræktaði jarðarber í kílóavís á sumrin, ól upp gæsarunga sem hann ungaði út í útungunarvélum og átti lítinn bát sem hann notaði í að veiða í soðið í Eyjafirðinum. Risaeðlan, eins og við kölluðum hann oft, með mest smitandi hlátur í heimi og sá ljúfasti af þeim öllum. Elskaði að fá langafabörnin í heimsókn og leyfa þeim að tína jarðarberin, enda með plöntur fyrir heilan her og sá oft ekki högg á vatni þrátt fyrir að allir væru orðnir saddir af berjum.

Margar voru ferðirnar norður þegar við vorum yngri og þá var nú ýmislegt brasað. Gamla munaði ekki um það að skutlast fram og til baka upp í Hlíðarfjall oft á dag eða þá að skjótast í laxveiði með okkur. Hann var alltaf mættur fyrstur í öll barnaafmæli fyrir sunnan hjá bæði barnabörnum og langafabörnunum, ef honum var boðið þá mætti hann. Gamli setti það nú ekki fyrir sig að keyra nokkra klukkutíma til að komast í góða veislu.

Síðustu árin sinnti hann Ellu ömmu heima fyrir þegar hún var orðin veik af alzheimer og nú eru þau sameinuð á ný eftir stuttan aðskilnað. Eflaust eru þau komin beint til Kanarí þar sem þau elskuðu að vera, enda sagði hann undir lokin að fyrsta mál á dagskrá eftir að hann færi yfir í sumarlandið væri að bjóða ömmu í sólina.

Elsku afi, við munum sakna þín hrikalega mikið og geyma allar góðu minningarnar í hjartanu. Takk fyrir allt elsku risaeðlan okkar, við elskum þig!

Karen, Lórenz, Inga og Ólöf.

Afi Maggi á engan sinn líka. Uppáhaldsmanneskjan mín í öllum heiminum alla tíð og amma Ella þar fast á hæla hans. Það sem endalaust var hægt að brasa með afa! Fjárhúsin, verbúðin, hólfið, skottúrar í kofann að tína ber eða tengja/aftengja vatnið, nú eða bara kíkja í veiðibókina hvort eitthvað hefði veiðst síðustu daga.

Afi kenndi mér snemma að hnýta öngul á línu og þræða maðk á, kasta og draga inn, en þegar afi tók upp flugustöngina mátti alls ekki vera nálægt, enda stórhætta á ferðum fyrir hvatvísan krakka að fá í sig fluguna! Afi veiddi margan stórlaxinn og ef hægt var rétti hann manni stöngina og leiðbeindi hvernig eiga skyldi við fiskinn, sem hann svo háfaði sjálfur. Hann hafði gaman af því að segja frá og það eru ófáir fróðleiksmolarnir sem ég hef tekið úr veiðisögum hans og nýtt í mínum viðureignum við laxinn. Löngum stundum gat hann sagt hetjusögur af sjálfum sér í veiði og ég veit að þær voru ekki ýkjusögur þótt ótrúlegar væru stundum!

Þegar ég fór í mína fyrstu fluguveiðiferð sumarið 2020 hringdi ég í afa í Staðarskála. Hann trúði mér varla fyrst en veðraðist allur upp og hringdi í mig mörgum sinnum til að vita hvernig gengi og fá veiðifréttir! Um hádegi daginn eftir var kall svo mættur í veiðihúsið með troðfullt box af flugum til að lána mér.

Ef ég var á ferðinni keyrandi á milli landshluta hringdi afi minnst einu sinni til að vita hvar ég væri og hvernig gengi, vara mig við ef eitthvað var að færð, ýmist því hann hafði heyrt í einhverjum sem var á undan manni eða sá á Textavarpinu að færð væri slæm á kafla. Nær undantekningalaust hringdi ég svo í afa og ömmu um leið og ég kom heim til að láta vita af mér.

Afi var græjukall og hafði þörf fyrir að eiga nýjustu og bestu gerð af ýmsum tækjum og tileinka sér nýjustu tækni í tímans rás. Það var alltaf gaman að fá snappvídeó af jarðarberjaræktinni eða snjófarganinu kringum húsið, að ónefndum myndsímtölunum sem voru ansi dýrmæt síðustu árin þegar samkomutakmarkanir og annir í námi og vinnu komu í veg fyrir tíðar heimsóknir norður.

Afi lá á LSH í þrjár heilar vikur veturinn 2009 og bjó ég svo vel að geta kíkt á hann oft á dag. Ég byrjaði morguninn á að færa honum Moggann, borðaði svo oftast hádegismatinn hjá honum, kíkti á hann áður en ég fór heim í lok vinnudags og svo jafnvel aftur um kvöldið. Honum fannst ekki leiðinlegt að láta mig stjana við sig, snyrta táneglurnar og raka skeggið, eins og ég hafði svo oft gert áður. Karlarnir á deildinni öfunduðu kall af dekrinu, en hann bara hló.

Nú þegar komið er að hinstu kveðjustund er þakklæti efst í huga. Þakklæti fyrir að fá að vera stór partur af lífi afa. Þakklæti fyrir ævintýrin sem hann upplifði og hafði svo gaman af að segja frá. Þakklæti fyrir allt sem afi kenndi mér. Þakklæti fyrir allar góðu minningarnar sem eftir sitja. Þakklæti fyrir að geta alltaf treyst á afa. Ég er þess fullviss að amma tók á móti honum með pönnukökum, bláberjasultu og rjóma. Ég er líka viss um að við hittumst á ný í Sumarlandinu seinna.

Halldóra Friðný.

Það er hálfóraunverulegt að sitja hér og skrifa minningargrein um afa Magga, manninn sem maður trúði að væri ódauðlegur og ekki nema tveir mánuðir síðan við kvöddum ömmu. Mín fyrsta skýra minning um samband okkar afa er þegar hann fór með mig í morgunsund og svo í Kristjánsbakarí á eftir. Afi var mikill sundmaður og var mikið í mun að við barnabörnin værum með sundtökin á hreinu sem allra fyrst, helst áður en við hófum að læra sund í skóla.

Það er ómögulegt að hugsa til afa án þess að hugsa um laxveiði en það var alltaf gaman að fara með afa í Djúpá eða Skjálfandafljót. Árið 2014, þegar ég flutti aftur norður til Akureyrar, breyttist samband okkar afa. Hann var ekki lengur „bara“ afi minn heldur var hann orðinn einn af mínum bestu vinum. Stundirnar í verbúðinni þar sem við dudduðum að Hafbjörginni, sjóferðirnar út Fjörðinn, gæsaræktunin í bílskúrnum, kartöflu-, gulróta og radísurækt í hólfinu, berjamór og að sjálfsögðu veiðitúrarnir í Fljótið, sem var honum svo kært. Það var alltaf nóg að gera hjá okkur og hristi amma oftar en ekki hausinn yfir okkur langfeðgum og brasinu í okkur.

Þegar ég eignaðist svo fjölskyldu fækkaði þessum stundum og aðrar tóku við. Morgunkaffið í Lindasíðu á hverjum degi í mínu fyrsta fæðingarorlofi, þar sem blöðunum var flett og þjóðmálin rædd. Fljótlega fjölgaði í barnahópnum og ekki leið á löngu þar til synir okkar bræðra voru orðnir þrír og alla laugardaga hittust frændurnir hjá löngu og langa og aldrei komu þeir að tómum kofanum. Langafi sá til þess að nægar birgðir væru til af frostpinnum, hafrakexi, jarðarberjum og bláberjum. Fyrir þessar stundir verð ég ævinlega þakklátur og mun ég sjá til þess að drengirnir muni ekki gleyma þér og þessum stundum.

Afi var yfirleitt með lausn á öllum málum hvort sem þau sneru að honum og hans fólki eða því hvernig landsliðin okkar gætu lagt mótherja sinn, og skipti engu í hvaða íþrótt var keppt, hann var með lausnina.

Þrátt fyrir að afi hafi lifað langa og viðburðaríka ævi er það þyngra en tárum taki að hugsa til þess að ég muni aldrei framar drekka með honum kaffi, fá símtal þar sem hann er bara að taka stöðuna á Báru og strákunum og jafnvel til að segja mér að það sé nóg af jarðarberjum sem þurfi að gera skil og þá hvort Elmar þurfi ekki að kíkja á berin hjá honum.

Elsku afi það er erfitt að koma í orð hversu mikið ég mun sakna þín og samtalanna okkar, stundanna og nándarinnar. Ég gæti trúað að amma hafi einfaldlega hinkrað eftir þér og þið gengið hlið við hlið yfir í Sumarlandið umtalaða. Þar hefur langafi Lolli tekið á móti ykkur og hugsanlega skotið aðeins á þig fyrir að tóra ekki fram yfir nírætt, eins og hann gerði. Þú hefur sennilega látið þér fátt um finnast, hvíldinni fegnastur og kominn í fang ömmu þar sem þið fylgist með okkur hinum og passið að við gerum nú enga vitleysu. Þú verður alltaf í huga mér og ef ég verð svo heppinn að fá að veiða Skjálfandafljótið veit ég að þú munt koma með og passa upp á mig. Takk fyrir allt elsku afi, þangað til næst.

Þinn

Jón Ágúst (Nonni).

hinsta kveðja

Elsku langafi Maggi, takk fyrir alla frostpinnana, jarðarberin og knúsin og bara allt sem þú hefur gert fyrir okkur og gefið okkur. Og takk fyrir allar veiðiferðirnar elsku afi okkar. Við elskum þig út af lífinu, við söknum þín og langömmu mjög mikið og munum aldrei gleyma ykkur.

Alexander Ægir og Elmar Breki Jónssynir.