Fyrirhuguð brú er aðeins nýjasta dæmið um óráðsíuna í tengslum við samgöngusáttmálann

Forsvarsmenn samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, sem engin sátt er að vísu um, fara jafnan undan í flæmingi þegar spurt er um kostnað við þær framkvæmdir sem ráðast þarf í vegna sáttmálans, að ekki sé talað um rekstur borgarlínunnar sem enginn þorir að tala um eða taka ábyrgð á. Þar vita menn að milljarðar króna á ári hverju bíða þess sem tekur að sér rekstur borgarlínunnar, en þeir vita ekki hversu margir milljarðarnir verða eða hver mun greiða þá. Að vísu er ljóst að á endanum verður kostnaðurinn sóttur í vasa skattgreiðenda, en hvort það verður í gegnum ríkissjóð, borgarsjóð eða aðra sveitarsjóði á höfuðborgarsvæðinu er ekki sátt um.

Brúin fyrirhugaða yfir Fossvog er nýjasta dæmið um óraunsæið og óráðsíuna í tengslum við samgöngusáttmálann. Nú er komið í ljós að kostnaðurinn við brúna verður í það minnsta 7,5 milljarðar króna með landfyllingum, en 6,1 milljarður án landfyllinganna. Brúin verður hins vegar aldrei til án landfyllinganna þannig að sjálfsagt er að hafa þær með í tölulegri umfjöllun um brúna þó að áróðursmenn samgöngusáttmálans velji fremur að ræða lægri tölur en hærri þegar því verður við komið.

Þessi kostnaður er svimandi, ekki síst í ljósi þess að þegar rætt var um brúna á fyrri stigum, það er að segja þegar þurfti að selja almenningi hugmyndina, þá átti hún að kosta 2,25 milljarða króna. Brúin hefur þannig ríflega þrefaldast í verði og hefði líklega aldrei komist á teikniborðið, hvað þá í útboð, ef núverandi tala hefði verið kynnt í upphafi. Og skattgreiðendur ættu að hafa í huga að nýja talan, 7,5 milljarðar króna, er aðeins nýjasta áætlunin og nær að auki ekki yfir allar tengdar framkvæmdir. Framkvæmdir við brúna sjálfa eru enn ekki hafnar og áróðursmenn samgöngusáttmála eiga vafalaust eftir að kynna nýjar og hærri áætlanir eða niðurstöðutölur, verði brúin að veruleika.

Þá er líka rétt að hafa í huga að ástæða þess að brúin er þó ekki dýrari í nýjustu áætluninni er sú að búið er að skipta út ryðfríu stáli, sem átti að nota í brúna, fyrir hefðbundið stál. Með þessu sparast 1,4 milljarðar króna, sem þýðir að í raun hefur kostnaðurinn meira en fjórfaldast frá fyrri áætlun, en brúin, sem á að liggja yfir sjó, er ekki lengur ryðfrí.

Þessi hrakfallasaga í áætlanagerð vegna Fossvogsbrúar ætti að verða til þess að staldrað yrði við og kostir og gallar við brúargerðina endurmetnir út frá margföldun kostnaðar. En það stendur ekki til. Þess í stað er nú kynnt að ætlunin sé að hefja útboð á haustmánuðum og að vinna við landfyllingar hefjist fyrir áramót.

Nú er það svo að um nokkurt skeið hefur stefnt í að kostnaður við þessa brú færi úr böndum þó að þeir sem ráða ferðinni um verkefnið hafi haldið þeim upplýsingum hjá sér og frá almenningi þar til nú. Í vor spurði Kjartan Magnússon borgarfulltrúi til að mynda út í kostnaðinn á borgarstjórnarfundi og sagðist þá telja að kostnaðurinn gæti farið í fimm til sjö milljarða króna. Borgarstjóri veitti engin svör, sem er eftir öðru um allar framkvæmdir sem tengjast samgöngusáttmálanum. Þær eru kynntar með óraunsæjum og allt of lágum kostnaðartölum, síðar eru þær tölur endurskoðaðar smám saman en þó ekki fyrr en stutt er í framkvæmdir eða þær í raun hafnar og búið er að ræða tillögurnar nægilega mikið til að þær þyki orðnar sjálfsagðar og of seint að hætta við.

Kjartan benti til að mynda á í vor að í raun væru framkvæmdir vegna brúarinnar hafnar því að borgin væri búin að leggja um tvö hundruð milljónir króna í að færa rafmagnsstrengi vegna brúarinnar og sá kostnaður er vafalaust ekki inni í þeirri tölu um kostnað sem gefinn er upp nú.

Augljóst er að þegar kostnaðarmat margfaldast við framkvæmd, sem fyrir fram var vafasöm af þeirri einföldu ástæðu að algengasti ferðamáti landsmanna átti ekki að fá að nota brúna, þá hlýtur að verða að staldra við og leggja alveg nýtt mat á hvort vit sé í að ráðast í framkvæmdina. Það getur ekki verið sjálfsagt að framkvæmd sem kann að vera hagkvæm fyrir rúma tvo milljarða sé það líka fyrir um átta milljarða. Engu að síður er anað áfram, útboð fyrirhuguð og ætlunin er bersýnilega að láta skattgreiðendur standa frammi fyrir orðnum hlut síðar í vetur. Þá verði búið að sökkva hundruðum milljóna króna í Fossvoginn og engin leið að hætta við. Hið sama á við um borgarlínuna og fleiri allt of dýrar og óhagkvæmar framkvæmdir í tengslum við samgöngusáttmálann. Treyst er á að enginn hafi burði til að stöðva vitleysuna og á endanum náist að nudda þessu öllu í gegn þó að kostnaður við hvert verkefni margfaldist.

Getur verið að þeir stjórnmálamenn sem eru í aðstöðu til að grípa inn í ætli áfram að sitja þegjandi hjá? Einn þeirra bíður nú eftir borgarstjórastólnum. Er stóllinn þess virði?