Jón B. Stefánsson sendi mér góðan póst: Eftir að hafa lesið limru Kristjáns Karlssonar um vist á Núpi í Vísnahorninu í dag varð þessi vísa til: Í orðastað fyrrverandi nemanda: Þótt sjaldan í kirkjunni krjúpi og kannski oft freklega súpi á fölgrænum…

Jón B. Stefánsson sendi mér góðan póst: Eftir að hafa lesið limru Kristjáns Karlssonar um vist á Núpi í Vísnahorninu í dag varð þessi vísa til:

Í orðastað fyrrverandi nemanda:

Þótt sjaldan í kirkjunni krjúpi

og kannski oft freklega súpi

á fölgrænum fleyg

ég fer alltaf sveig

framhjá minningum mínum á Núpi.

Mér þykir rétt að rifja upp limru Kristjáns:

Dimmt er vestur hjá Djúpi

og draugar á hvítum hjúpi

fara leið sína um allt.

Það er andskoti kalt.

Og ekkert gaman á Núpi.

Helgi R. Einarsson lætur hér sem oftar limrur fylgja lausn sinni á laugardagsgátunni:

Lausn

Láru á Lækjarbakka

langaði' að eignast krakka

og bar upp þá bón

við bóngóða Jón

því flest er nú látið flakka.

Fjarlægðin gerir fjöllin blá

Stína var hrifin af Stjána

stórglæsilegum kjána.

Það fór fyrir bí

bara af því

að brúin var lögð yfir ána.

Eyjólfur Ó. Eyjólfsson skrifar á Boðnarmjöð: Mér var boðið í dásamlegt vöfflukaffi í gær. Þar sátu og átu þrír karlar, alvitrir og óskeikulir, og þrjár konur svo fagrar að því verður ekki með orðum lýst. Ég lofaði gestgjafanum einni limru þegar ég kvaddi hálfklökkur og saddur:

Karlfólkið gamalt og grátt

gasprar svo mikið og hátt

að nágrannar kvarta

meðan kvendýrin narta

í vöfflukjöt viðbrennt og hrátt.

Haustið er farið að minna á sig segir Ingólfur Ómar Ármannsson:

Kári gnauðar kólnar tíð

kveður bára í nausti.

Sölna grösin foldar fríð

finn ég keim af hausti.

Anna Dóra Gunnarsdóttir svarar:

Með árum ég damla á öldufaldi,

óðara birtist mér naustið.

Sú árstíð sem er mér í uppáhaldi

alltaf mun vera haustið.

Jón frá Garðsvík yrkir:

Ég er vitur eftir á.

Aðra menn ég þekki

sem hvert böl í byrjun sjá.

Betra er seint en ekki.