Annir Útlit er fyrir að fleiri erlendir ferðamenn komi á bráðamóttöku Landspítalans í ár en í fyrra. Mikil fjölgun hefur einnig verið á Akureyri.
Annir Útlit er fyrir að fleiri erlendir ferðamenn komi á bráðamóttöku Landspítalans í ár en í fyrra. Mikil fjölgun hefur einnig verið á Akureyri. — Morgunblaðið/Eggert
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Fjölgun ferðamanna hér á landi hefur aukið álag á sjúkrahús til muna. Þetta staðfesta nýjar tölur frá Sjúkrahúsinu á Akureyri og Landspítalanum.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Fjölgun ferðamanna hér á landi hefur aukið álag á sjúkrahús til muna. Þetta staðfesta nýjar tölur frá Sjúkrahúsinu á Akureyri og Landspítalanum.

„Mikil aukning hefur verið í komum ferðamanna og er rúmlega 50% aukning milli ára í komum ósjúkratryggðra á sjúkrahúsið. Að sama skapi fjölgar innlögðum einstaklingum einnig en á þessu tímabili hafa 67 ósjúkratryggðir einstaklingar legið inni samanborið við 55 einstaklinga í fyrra,“ segir á vef Sjúkrahússins á Akureyri.

Í nýjum starfsemistölum spítalans kemur fram að fyrstu sjö mánuði ársins leituðu 512 ósjúkratryggðir einstaklingar þangað. Á sama tíma í fyrra, frá janúar til júlíloka, leitaði þangað 331 ósjúkratryggður einstaklingur. Nemur aukningin 55% milli ára.

Ef rýnt er nánar í tölurnar má sjá að 471 ósjúkratryggður einstaklingur leitaði á bráðamóttöku og samskipti voru höfð við 526 einstaklinga. Alls voru 67 ósjúkratryggðir einstaklingar lagðir inn á legudeild spítalans og 62 á göngudeild en 137 samskipti voru skráð. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í hópi ósjúkratryggðra, 65 talsins, en 62 komu frá Þýskalandi og 32 frá Póllandi.

Alger sprenging hefur sömuleiðis orðið í komum erlendra ferðamanna á Landspítalann. Tölur um ósjúkratryggða einstaklinga sem teknar voru saman að beiðni Morgunblaðsins sýna mikla aukningu frá fyrra ári. Fyrstu sjö mánuði ársins voru skráðar 1.900 komur á bráðadeildina í Fossvogi en allt árið í fyrra komu þangað 2.200 manns. Komur á allar aðrar dag- og göngudeildir, svo sem bráðamóttöku barna og geðþjónustu ásamt einhverjum deildum kvennadeildar, eru 1.763 það sem af er árinu. Þær voru 1.657 allt árið 2022. Þá hafa alls 317 ósjúkratryggðir erlendir sjúklingar verið lagðir inn það sem af er ári en þeir voru 352 allt árið 2022.