Flugsýn Mikill kraftur er í allri uppbyggingu í Hamranesi um þessar mundir. Fjöldi krana á svæðinu segir sitt.
Flugsýn Mikill kraftur er í allri uppbyggingu í Hamranesi um þessar mundir. Fjöldi krana á svæðinu segir sitt. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Mikið er byggt og margir eru fluttir inn í nýbyggð hús í Hamraneshverfi í Hafnarfirði. Gert er ráð fyrir alls 1.900 íbúðum í hverfinu fullbyggðu og þegar eru nærri 1.600 íbúðir, eða um 84% af heildinni, ýmist tilbúnar eða á byggingarstigi. Gert er ráð fyrir að íbúar í Hamranesi verði, þegar framkvæmdum er lokið, alls 4.750 talsins miðað við þann stuðul að íbúar í hverri eign séu 2,5. Hamranes er samliggjandi Völlum og Skarðshlíð í syðsta hluta Hafnarfjarðarbæjar og gert er ráð fyrir að þegar allri uppbyggingu er lokið verði íbúar í þessum hluta bæjarins rúmlega 12.000 talsins.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Mikið er byggt og margir eru fluttir inn í nýbyggð hús í Hamraneshverfi í Hafnarfirði. Gert er ráð fyrir alls 1.900 íbúðum í hverfinu fullbyggðu og þegar eru nærri 1.600 íbúðir, eða um 84% af heildinni, ýmist tilbúnar eða á byggingarstigi. Gert er ráð fyrir að íbúar í Hamranesi verði, þegar framkvæmdum er lokið, alls 4.750 talsins miðað við þann stuðul að íbúar í hverri eign séu 2,5. Hamranes er samliggjandi Völlum og Skarðshlíð í syðsta hluta Hafnarfjarðarbæjar og gert er ráð fyrir að þegar allri uppbyggingu er lokið verði íbúar í þessum hluta bæjarins rúmlega 12.000 talsins.

Grunnskóli, leikskóli og tónlistarskóli eru í rekstri í Skarðshlíðarhverfi sem enn sem komið er þjóna einnig Hamranesi. Í Hamraneshverfi er gert ráð fyrir grunnskóla með fjögurra deilda leikskóla á sömu lóð og sex deilda leikskóla á sérlóð, auk hjúkrunarheimilis. Ekki er þess langt að bíða að framkvæmdir við sjálfstæðan leikskóla verði boðnar út. Þegar hefur jarðvinna, fyrsti þáttur framkvæmda við byggingu hjúkrunarheimilis og heilsugæslu, verið boðin út og er unnið að yfirferð og mati á tilboðun. Þá er útboðsvinna að hefjast vegna grunn- og leikskóla í Hamranesinu.

Næst horft í Ásland 4

„Allar lóðir í Hamranesi hafa verið seldar. Raunar má segja að allar lóðir sem verktakar sækjast eftir hér í bæ fari mjög fljótt út. Áhuginn er mikill,“ segir Árdís Ármannsdóttir samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar í samtali við Morgunblaðið.

Árdís segir að hjá bænum nú sé einkum horft til uppbyggingar í 4. hluta Áslandshverfis. Í fyrsta áfanga þar eru lóðir fyrir 12 raðhús og 65 einbýli. Í síðarnefnda flokknum eru aðeins átta lóðir óseldar.