[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kvennalið Fylkis í knattspyrnu endurheimti 2. sæti í 1. deildinni með því að vinna öruggan sigur á sameiginlegu liði Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis, 4:0, í Árbænum á laugardag. Guðrún Karítas Sigurðardóttir skoraði tvívegis auk þess sem Marija…

Kvennalið Fylkis í knattspyrnu endurheimti 2. sæti í 1. deildinni með því að vinna öruggan sigur á sameiginlegu liði Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis, 4:0, í Árbænum á laugardag. Guðrún Karítas Sigurðardóttir skoraði tvívegis auk þess sem Marija Radojicic og Mist Funadóttir komust á blað. Fylkir er með 35 stig í öðru sæti og Grótta í því þriðja með 33. Liðin mætast í hreinum úrslitaleik á Seltjarnarnesi í lokaumferð deildarinnar um næstu helgi um hvort þeirra fer upp í Bestu deildina með meisturum Víkings úr Reykjavík. KR fékk Augnablik í heimsókn í Vesturbæinn á laugardag og vann stórsigur, 7:0. Jewel Boland og Íris Grétarsdóttir skoruðu báðar tvennu og Valgerður Gríma Sigurjónsdóttir, Anni Rusanen og Ólöf Freyja Þorvaldsdóttir skoruðu einnig. Bæði lið voru þegar fallin niður í 2. deild.

Diljá Ýr Zomers var á skotskónum hjá liði OH Leuven þegar liðið vann öruggan sigur á Waregem á útivelli í belgísku A-deildinni í knattspyrnu á laugardag. Diljá Ýr skoraði þriðja mark Leuven eftir tæplega hálftíma leik og fór svo af velli á 72. mínútu. Hún hefur farið afar vel af stað með liðinu enda komin með þrjú mörk í tveimur deildarleikjum á tímabilinu.

Selma Sól Magnúsdóttir átti stórleik fyrir Rosenborg þegar hún skoraði eitt mark og lagði upp annað í stórsigri liðsins á Arna-Björnar, 4:0, í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardag. Lék hún allan leikinn á miðjunni. Um fyrsta deildarmark Selmu Sólar á tímabilinu var að ræða í hennar 18. deildarleik.

Andri Lucas Guðjohnsen skoraði mark Íslendingaliðs Lyngby þegar það gerði grátlegt 1:1-jafntefli við topplið dönsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, Nordsjælland, í Lyngby í gær. Andri kom Lyngby í forystu eftir rúmlega hálftíma leik og var um hans fyrsta mark fyrir liðið að ræða. Nordsjælland jafnaði svo metin seint í uppbótartíma. Andri fór af velli á 70. mínútu en Kolbeinn Birgir Finnsson og Sævar Atli Magnússon voru sömuleiðis í byrjunarliðinu og léku allan leikinn. Gylfi Þór Sigurðsson lék ekki með liðinu vegna meiðsla. Freyr Alexandersson þjálfar liðið.

Hollenski ökuþórinn Max Verstappen hjá Red Bull reyndist hlutskarpastur í ítalska kappakstrinum í Formúlu 1 í gær. Hefur hann þar með unnið tíu keppnir í röð. Það er nýtt met í Formúlunni en fyrra met, níu keppnissigra í röð, átti Sebastian Vettel. Red Bull-liðið er einnig það fyrsta í sögunni til þess að vinna 15 kappakstra í röð en síðasta tap liðsins kom í Brasilíu í nóvember árið 2022.

Ómar Ingi Magnússon lét vel að sér kveða þegar lið hans Magdeburg vann sterkan sigur á Flensburg, 31:29, í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Ómar skoraði sex mörk og gaf eina stoðsendingu að auki. Janus Daði Smárason bætti við tveimur mörkum og tveimur stoðsendingum en Gísli Þorgeir Kristjánsson er frá vegna meiðsla. Teitur Örn Einarsson komst ekki á blað hjá Flensburg. Melsungen hafði þá betur gegn Leipzig í öðrum Íslendingaslag, 28:27. Elvar Örn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson skoruðu sitt markið hvor fyrir Melsungen. Viggó Kristjánsson fór á kostum í liði Leipzig og skoraði sjö mörk ásamt því að gefa tvær stoðsendingar. Andri Már Rúnarsson komst ekki á blað hjá Leipzig en faðir hans, Rúnar Sigtryggsson, þjálfar liðið.

Kristian Nökkvi Hlynsson var í byrjunarliði aðalliðs Ajax í fyrsta sinn þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Fortuna Sittard í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær. Lék hann allan leikinn.

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir átti stórleik fyrir Skara þegar liðið vann sterkan útisigur á Hammarby, 40:34, í riðli 7 í sænsku bikarkeppninni í handknattleik á laugardag. Jóhanna skoraði sjö mörk fyrir Skara en liðsfélagar hennar, Aldís Ásta Heimisdóttir og Katrín Tinna Jensdóttir, komu ekki við sögu að þessu sinni. Með sigrinum tryggði Skara sér annað sæti riðilsins og þar með sæti í 16-liða úrslitum.