Sæunn Hafdís Oddsdóttir fæddist á Siglunesi 16. desember 1940. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 20. ágúst 2023.

Foreldrar hennar voru Sigurlaug Kristjánsdóttir, f. 1898, d. 1995, og Oddur Oddsson, f. 1894, d. 1981.

Sæunn var yngst fjögurra systkina. Hin voru: Oddur J., f. 1925, d. 1999, Guðrún Ingibjörg, f. 1928, d. 2010, og Hrafnhildur L., f. 1936, d. 2018.

Eiginmaður hennar er Kjartan Sigurjónsson, f. 1935, og gengu þau í hjónaband 6.6. 1964. Börn þeirra eru: 1) Guðrún Sigurbjörg, f. 1961, eiginmaður hennar er Guðmundur Ingþórsson, f. 1961, og eiga þau saman soninn Berg Líndal, f. 1997, og á hann eitt barn. Áður átti Guðrún tvær dætur, Katrínu Benediktsdóttur, f. 1982, og á hún þrjú börn, og Steinunni Elísabetu Benediktsdóttur, f. 1989, og á hún þrjú börn, einnig á Guðrún þrjú fósturbörn.

2) Kjartan, f. 1963, eiginkona hans er Karólína Walderhaug, f. 1964, börn þeirra eru þrjú: Sæunn, f. 1984, og á hún tvö börn, Linda Björk, f. 1986, og á hún þrjú börn, og Gunnar Orri, f. 1992, og á hann tvö börn. 3) Hafþór, f. 1964, börn hans eru fjögur: Arnar Már, f. 1986, og á hann eitt barn, Hanna Karen, f. 1991, og á hún þrjú börn, Kjartan Freyr, f. 1995, og Viktor Andri, f. 2001. Áður átti Sæunn soninn Odd Steinar Birgisson, f. 1959, eiginkona hans er Anna Heiða Reynisdóttir, f. 1959 og eiga þau saman tvö börn: Steinar Þór, f. 1982, og Sæunni Hafdísi, f. 1986, og á hún þrjú börn.

Útför hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Nú hefur tengdamamma kvatt þennan heim eftir langa baráttu við alzheimer. Gógó, eins og hún var oft kölluð, var yfirleitt létt og kát og ekki fór hláturinn fram hjá neinum sem hana þekktu.

Ég var unglingur þegar við kynnumst, þá vorum við Kjartan byrjuð að skjóta okkur saman og ég farin að venja komur mínar til þeirra í Nökkvavoginn.

Seinna meir hlógum við oft að því þegar ég byrjaði að gista hjá mínum en þá beið ég gjarnan eftir því að hún færi í bakaríið eða eitthvað út og notaði þá tækifærið og laumaðist út. Kjartan tengdapabbi minn vissi hvað klukkan sló en það hafði hann bara fyrir sig.

Ég bjó hjá þeim hjónum fyrstu árin eftir að ég flutti að heiman og tóku þau mér opnum örmum og voru mér einstaklega góð í alla staði og er ég þeim ævinlega þakklát fyrir það.

Gógó var alltaf með heitt á könnunni og bakkelsið sem hún bakaði var ekki af verri endanum enda framúrskarandi húsmóðir og mamma.

Hnallþórurnar hjá henni og tala ég nú ekki um brauðterturnar, maður lifandi, algjör snilld enda var hún vandvirk og natin við allt sem viðkom heimilinu.

Gógó var oft plötuð til að passa börnin okkar þrjú þegar við fórum í hjónaferðir og oft fórum við saman til útlanda, til að mynda til Bandaríkjanna, Danmerkur og síðast en ekki síst Gran Canaria og Tenerife. Í sólinni naut hún sín afar vel og talaði um það undir það síðasta hvað hana langaði mikið í sólina eins og hún sagði.

Takk fyrir allt, mín kæra, og vonandi tóku systkini og foreldrar þínir vel á móti þér við komuna í Sumarlandið.

Ég kveð þig með ást og söknuði.

Þín tengdadóttir,

Karólína.

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt,

hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesú mæti.

(Höf. ók.)

Ég fel í sérhvert sinn

sál og líkama minn,

í vald og vinskap þinn

vernd og skjól þar ég finn.

(HP)

Amma Sæunn er dáin en ég minnist hennar sérstaklega við kökubakstur í Nökkvavoginum þar sem hún dró fram hverja krásina á fætur annarri.

Það var eftirtektarvert að sitja í eldhúsinu hjá henni þegar gestir voru því þá áttihún mjög erfitt með að setjast niður því ekki mátti það gerast að gestirnir hefðu ekki nóg.

Oft sátum við saman og skröfuðum um daginn og veginn þar til ég tók eftir því að hún var hætt að taka eftir og hugurinn kominn annað og svo byrjaði hún á nýju málefni.

Hún átti erfitt með að kveðja og sagði oft „liggur þér eitthvað á heim?“ þegar maður var farinn að sýna á sér fararsnið.

Takk fyrir samveruna, elsku amma mín og nafna, og góða ferð í Sumarlandið.

Þín

Sæunn
Kjartansdóttir.

Elsku Gógó.

Þar sem kærleikur ríkti og hlátur stóðst þú í stafni. Heimili ykkar Kjartans var umvafið hlýju og væntumþykju. Bernskuminningar vakna á kveðjustund um hlýjan faðm, súkkulaði og bros. Þú varst fyrirmynd og gleði.

Taktu með þér kveðju til mömmu Lóló, Odds og Diddu. Þið stóðuð svo þétt saman, þá vináttu finnum við enn.

Vottum Kjartani, börnum, ömmu- og langömmubörnum innilega samúð okkar.

Ég á þessa minning, hún er mér kær.

Og ennþá er vor og þekjan grær

og ilmar á leiðinu lága.

Ég veit að hjá honum er blítt og bjart

og bærinn hans færður í vorsins skart

í eilífðar himninum bláa.

(Oddný Kristjánsdóttir)

Minning þín lifir.

Hvíldu í friði.

Ágúst, Sigríður (Sirrý), Berglind, Sigurlaug (Silla) og Ragnar Sær.

hinsta kveðja

Allar stundir okkar hér

er mér ljúft að muna,

bestu þakkir flyt ég þér

fyrir samveruna.

(Har. S. Mag.)

Þinn

Kjartan Sig.